Námsmannalífið í Ningbo

Guilin

Þá eru liðnar þrjár vikur í Ningbo, skólinn kominn á fullt og allt að gerast. Vikan byrjaði bara þokkalega með rosalega góðu veðri og vikufrí í augnsýn (já ég veit, við vorum að byrja í skólanum). Planið var að heimsækja Guilin í þessu fríi og þessi pistill er ritaður í lestinni á leiðinni þangað. Þriðjudagurinn bauð uppá mjög spes veður, mestu rigningu sem ég hef á ævinni séð og smá vindi með. Það minnti mann smá á Íslandið góða, en sem betur fer vorum við komin í skólann og sátum því inni á meðan mesta regnið stóð yfir.

Við komumst heim í tæka tíð fyrir næstu gusu og náðum síðan að borða kvöldmat áður en veðrið hófst fyrir alvöru. Þvílík og önnur eins rigning sem virtist engan endi ætla að taka. Um nóttina voru stanslausar þrumur og eldingar, en mér fannst það mjög kósý og svaf eins og steinn. Bergþóravar hins vegar ekki sammála um kósý-level þrumnanna og var alltaf að vakna.

Daginn eftir litum við útum gluggann og BÚMM! Það var allt á floti. Bílastæðið sem við sjáum út um gluggann okkar var yfirfullt af vatni og það leit út fyrir að ég þyrfti að taka bát í skólann. En þar sem ég var búinn að sitja kvöldið áður í þrjá tíma að dúlla mér við að gera flottan fyrirlestur fyrir kennslutíma morgundagsins gat ég ekki hugsað mér að skrópa í skólanum.

Staðan fyrir utan gluggan hjá okkur um morguninn

Vatnið á götunum þegar ég lagði af stað um morguninn

Svona leit þetta síðan út uppúr hádegi þegar ég lagði af stað í seinni tíma dagsins

Klukkan hálf níu vippa ég mér af stað klæddur í inniskó, stuttbuxur og bol. Það var allt á floti og ég óð pollana og stökk á milli gangstétta. Vel blautur í fæturna mætti ég í skólann aðeins til þess að vera sagt að tíminn félli niður. Veiii. Seinna um daginn gerðist hins vegar merkilegur hlutur. Á leið minni í seinni tímann, sem vel á minnst féll líka niður, þá voru allir pollarnir farnir. Og þegar ég segi allir þá meina ég allir. Göturnar voru nánast orðnar þurrar. Eftir því sem dagurinn leið varð ljóst hvers vegna allir pollarnir hurfu: 29 stiga hiti og 100% rakastig. Vá hvað það var heitt! Ég þurfti að skipta þrisvar sinnum um bol.

Ferðin okkar til Guilin var framundan og gullna vikan gengin í garð. Við eyddum því fimmtudeginum í slökun og skipulag fyrir ferðina. Það var mikil tilhlökkun og spenna í okkur, enda vorum við ekki nema 24 tíma lestarferð frá því að komast á einn fallegasta stað í Kína og jafnvel heiminum, samkvæmt stórvin okkar Google. Ég á erfitt með að trúa vini mínum Google, enda þar sem ég er frá Grindavík er ég ekki viss um að það sé til fallegri staður en Grindavíkin góða. En ég er tilbúinn að gefa þessu séns.

Eldsnemma á föstudeginum mættu þrír vel nestaðir og þreyttir Íslendingar á lestarstöðina í Ningbo. Það var 24 tíma lestarferð framundan og við vorum spennt að sjá hvernig káetan okkar yrði. Ég viðurkenni að það var smá sjokk að sjá lestina og káetuna, enda er ég vanur því að vera um borð í hraðlestunum þegar ég hef ferðast hérna um. En þegar leið á ferðina varð þetta mjög kósý, enda vorum við í soft sleeper sem eru langbestu miðarnir í svona lestum.

Fjórar kojur og við bara þrjú. Úff, hugsaði ég, þar sem ég hef heyrt hryllingssögur af lestarferðum. Ég vonaði að það kæmi ekki einhver feitur gamall síreykjandi Kínverji með okkur í káetu, en okkur til mikillar ánægju mætti lítil og nett kínversk stelpa á svæðið sem vippaði sér upp í kojuna og steinsofnaði. Einhverjir guðir voru svo sannarlega vakandi yfir okkur þarna.

Hrikalega fersk og til í ferðina

Á námsmannabudgeti þýðir ekkert annað en að fá sér núðlur öðruhvoru

Rosalegt stuð í lestinni

Fór hrikalega vel um okkur

Við mættum til Guilin sólarhringi seinna og ég verð að segja að sólarhringur í lest er ekkert svo slæmur ef félagskapurinn er góður. Við tókum leigubíl beint á hostelið sem við vorum búin að panta sem var frábært og á besta stað, þannig að ferðin byrjaði mjög vel. Veðrið var virkilega gott; svo gott að maður var alveg að stikna og brann vel. Við höfðum fimm daga til stefnu í Guilin og máttum því engan tíma missa og fórum strax út á röltið. Þessi staður er alveg magnaður og mér fannst maður vera staddur í einhverju ævintýralandi. Við leigðum okkur hjól og hjóluðum um alla borgina, komum við á áhugaverðum stöðum og skoðuðum okkur um. Þar sem að hjólin eru hugsuð fyrir kínverja þá leit ég út eins og risi á þríhjóli á því sem við fengum, en það gerði svo sannarlega sitt gagn. Eftir langan dag þá settumst við upp á þak hostelsins sem er með setuaðstöðu og drukkum bjóra með útsýni yfir borgina. Alveg magnað, hreint út sagt.

Mætt til Guilin

Hjólað um borgina

Búdda stytta á Fubo Hill

Þúsund búdda veggurinn á Fubo Hill

Ég og Bergþóra á toppnum á Fubo Hill

Svakalega flott útsýni

Stelpurnar voru vinsælt myndefni hérna í Guilin

Guðbjörg súperstjarna

Daginn eftir áttum við bókaða ferð í siglingu eftir Li ánni sem rennur hér í gegnum svæðið. Eins týpískt og það gat verið þá sváfum við yfir okkur, en sem betur fer reddaðist það. Það kom einhver gaur og sótti okkur og brunaði með okkur á staðinn þar sem báturinn beið. Ég nefndi hérna að ofan að manni finndist maður vera staddur í ævintýralandi inni í Guilin. Þá var ég ekki búinn að sjá þessa leið sem við sigldum. Þetta er klárlega með því fallegasta og magnaðsta sem ég hef á ævinni séð. Sjáið fyrir ykkur fljúgandi fjöllin í kvikmyndinni Avatar. Mér leið einfaldlega eins og að ég væri staddur í miðri kvikmyndinni. Umhverfið var hreint út sagt stórkostlegt og myndirnar ná engan vegina að fanga hversu magnað þetta var, þó þær sýni hvernig þetta var að mestu leiti.

Báturinn sigldi með okkur frá Guilin að litlum bæ sem heitir Yangshuo og ferðin tók um fjóra klukkutíma. Við fengum svo 4 tíma í Yangshuo sem við nýttum í að rölta um, skoða svæðið og borða góðan mat. Það mígringdi allan tímann og ég náði ekki að njóta svæðisins eins mikið og ég hefði viljað sökum mannmergðar og regnhlífa, en þessi staður var magnaður samt sem áður. Að borða á veitningastað umkringdur þessum mögnuðu karst fjöllum er skemmtileg lífsreynsla. Við fórum síðan með rútu aftur til baka á hostelið og kvöldinu var aftur varið í bjórdrykkju og spil. Hvað get ég sagt, bjórinn í Kína er bara einfaldlega rosalega ódýr.

Skemmtilegt skilti fyrir ofan löggustöð í Yangshuo, á því stendur “Yangshuo landscape is beautiful, Police-community relationship is harmonious”

Yangshuo

Grindavík er ennþá fallegasti staður í heimi í mínum huga, en Guilin kemst svo sannarlega mjög nálægt því.

Guðbjörg mun síðan segja ykkur frá seinni hluta ferðarinnar.

Lífið er yndislegt.

Þangað til næst,

Jón Gunnar