Námsmannalífið í Ningbo

The Show Must Go On

Hér í Kína eru formlegheitin allsráðandi og hvert tækifæri nýtt til þess að setja á svið einskonar sýningu.

Fyrstu dagana okkar hér í Ningbo skildum við hvorki upp né niður hvers vegna svo margir krakkar hér væru klæddir hermannaklæðnaði, skóm, buxum, bol, jakka og með derhúfu, í tæplega 30°C hita. Okkur brá síðan heldur betur í brún þegar þeir voru farnir að flykkjast saman til þess að gera æfingar og ganga í takt um svæðið. Allt leit út fyrir að hér væri lítill unglingaher á ferðinni. Síðar komumst við að því að hefð væri fyrir því að kínverskir nýnemar færu í “herbúðir”. Sama lagið ómaði hér um skólasvæðið yfir meirihluta dagsins og langt fram á kvöld í tvær vikur. Eitt kvöldið gengum við á hljóðið og sáum þá yfir 1000 manns samankomin að marsera á fótboltavellinum.

Stuttu áður en nýja subway-línan í Ningbo var opnuð fannst skrifstofu skiptinemanna voðalega sniðugt að fá okkur með í prufukeyrslu með stuttu stoppi fyrir myndatökur. Þann mánudagsmorgun fór því kennsla í áfanganum kínversk málnotkun fram í lestinni. Fréttamaður var á staðnum og tók vel uppstilltar myndir af herlegheitunum, þar sem derhúfum var skellt á okkur og við áttum að sýna hvað við værum glöð og veifa myndavélinni.

Um miðjan október var formleg skólasetning sem einkenndist af hópmyndatökum og ræðuhöldum. Það sem stóð sérstaklega upp úr voru þakkarorð varaforseta skólastjórnar Ningbo Háskóla: “Sincere gratitude to your parents for bringing you up and sending you off to Ningbo University!” og “no pain, no gain!"

Síðasta vika var undirlögð af “sports meeting”, fyrirbæri þar sem keppt var í frjálsum íþróttum, fótbolta o.fl. Hátíðarhöldin hófust á því að allir erlendir nemendur við skólann gengu hring um fótboltavöllinn veifandi þjóðarfánum, nema hvað að ekki voru til réttir fánar fyrir neina nema Rússana. Hápunkturinn var þó þegar kennaranir, um 400 talsins, dönsuðu við 小苹果.

Í gær var kynning um hina ýmsu máta vegabréfsáritana. Allir erlendir nemendur voru skikkaðir til þess að mæta og dreifðu sér vel um salinn. Það hentaði þó ekki nógu vel því auðvitað átti að taka myndir af viðburðinum. En þar sem miðjan var ekki full setin og enginn á fremsta bekk voru nemendir færðir til og frá þar til stjórnendur voru sáttir með útkomuna og kynningin gat hafist.

The show must go on,
Guðbjörg Helga Þorvaldsdóttir