Námsmannalífið í Ningbo

Hong Kong

Miðannarprófum er nú lokið og við Jón Gunnar, Bergþóra og Ísak fórum í helgarferð til Hong Kong til þess að fagna því og fá í leiðinni nýjan stimpil í vegabréfið hennar Bergþóru. Ísak var að fara í sitt annað skipti þangað en við hin í okkar fyrsta. Við skemmtum okkur afar vel og nutum þess að vera innan um alla skýjakljúfrana. Eftir á að hyggja leið okkur eins og við höfðum fengið smá frí frá Asíu.

Á leið til Hong Kong

Urban vs. New Territories

Frá Ningbo til Hong Kong tekur ekki nema tvær klukkustundir með flugi, svo ferðalagið var ekki langt í þetta sinn. Á flugvellinum tók á móti okkur ein besta WiFi tenging sem við höfum fengið síðastliðna þrjá mánuði, auk þess sem VPN tenging var loksins óþörf. Það er því eflaust tilgangslaust að nefna það, en Facebook, Snapchat og hinir samfélagsmiðlarnir fengu aðeins að finna fyrir okkur fjórum yfir þessa helgi. Þegar var komum út af flugvellinum blasti við okkur afar löng biðröð. Vinstra megin við röðina biðu rauðir leigubílar fyrir “urban area” og hægra megin voru grænir fyrir “new territories”. Við enda raðarinnar voru starfsmenn sem skiptu fólki jafnt niður á hvert númerað bílastæði og leigubílarnir biðu í röð. Röðin ógurlega gekk því heldur betur vel fyrir sig og við vorum komin á hostelið okkar skömmu síðar.

Leigubílaröðin

Á götum Hong Kong

Staðsetning hostelsins var ansi þægileg með H&M, McDonald’s, Starbuck’s og metro stöð innan handar. Ekki amalegt fyrir okkur “Vesturlandabúana”.

Hong Kong var bresk nýlenda og má finna bresku áhrifin á samgöngukerfinu. Í fyrsta lagi er vinstri umferð og í öðru lagi er lestarkerfið ansi breskt. Helsti munurinn á Hong Kong og Ningbo, að okkur fannst, var að í Hong Kong raðar fólk sér skipulega í raðir og stendur ávallt hægra megin í rúllustigum svo hægt sé að ganga framhjá vinstra megin. En vegna mikils fjölda fólks þá kom alveg fyrir í lestinni að maður flaut áfram með hjörðinni og síðan var þjappað vel á eftir manni svo hægt væri að troða fleirum inn. Við vorum heldur betur ekki einu “útlendingarnir” í Hong Kong, en oft á tíðum leið manni eins og maður væri hreinlega staddur í London.

Í lestinni

Bubba Gump Shrimp

Föstudaginn nýttum við í að fara upp á Victoria’s Peak. Það er um það bil átta hæða verslunarkjarni sem stendur uppi á hól með útsýnispalli ofan á. Útsýnið þaðan var magnað! Við nösluðum síðan á Bubba Gump og héldum svo tilbaka upp á hostel. Áttum síðbúin kvöldverð á Outback, prófuðum nokkra bari, smökkuðum götumat og létum síðan gott heita þann daginn.

Victoria's Peak

Victoria's Peak

Laugardaginn byrjuðum við í Apple búðinni. Þar var löng röð af fólki sem var að kaupa sér nýjasta iPhone-inn. Við nýttum að sjálfsögðu tækifærið og splæstum í nokkur vel valin epli.

Þegar ég talaði um að það væri mikið af fólki þá var ég ekki að ýkja. Á leið okkar að metro stöðinni virtist mikið um að vera í næstu götu. Eftir nánari athugun sáum við að einungis var um grænan karl að ræða. Þetta voru sem sagt bara allir þeir sem þurftu að fara yfir götuna þessa mínútuna.

Græni karlinn

Göturáp

Um kvöldið fórum við á Tequila Jack’s til þess að svala þörf okkar á mexíkóskum mat. Þar vorum við svo sannarlega ekki illa svikin, klárlega besti matur ferðarinnar. Eftir matinn röltum við að árbakkanum til þess að virða fyrir okkur skyline-ið hinum megin og laser-sýninguna sem nokkrir skýjakljúfrarnir höfðu upp á að bjóða.

Búið ykkur undir leisersjó!

Skælænið

Þá lá leið okkar næst á næturmarkað á Temple Street, en þar var hægt að kaupa allsskyns “merkjavörur” á spottprís. Seinna um kvöldið fundum við spennandi skemmtistaðahverfi sem lá upp hlíð svo göturnar þrengdust eftir því sem ofar dró. Þar voru allir barir þéttsetnir svo mikið af fólki dansaði og skemmti sér úti, enda veðrið hið spakasta.

Temple Street

Sunnudagsmorguninn fengum við okkur dýrindis bröns áður en við lögðum af stað tilbaka. Okkur til mikillar undrunar þá töluðum við öll um að fara “heim” til Ningbo.

Þangað til næst,
Guðbjörg Helga