Námsmannalífið í Ningbo

Víetnam

Eins og Guðbjörg sagði frá í síðustu færslu þá voru jólin og áramótin ansi skemmtileg. Þegar við komum aftur til Ningbo þá var frekar skrýtið að þurfa að keyra sig upp í prófaundirbúning, við vorum öll sammála um það að hausinn á okkur væri orðinn ansi steiktur eftir þessa löngu önn enda erum við vön því að byrja í prófunum í byrjun desember, en ekki í lok janúar. Prófin gengu vonum framar. Það var nokkur léttir að fá einkunnirnar og komast loksins í smá frí.

Það er frí vegna kínverska nýársins sem stendur frá janúar lokum og fram í byrjun mars. Ég, Bergþóra, Ísak og Guðbjörg ákváðum að nýta þetta frí til þess að ferðast um Asíu í stað þess að ferðast um Kína, þar sem að það er ekkert sniðugt að ferðast á þessum tíma í Kína. Allar myndir sem maður sér frá mannmergðum á lestarstöðvum í Kína eru frá þessum tíma og það kom ekkert annað til greina en að halda suður á bóginn í hitann, þar sem að kuldinn gerði ekkert annað en að aukast í Kína. Víetnam, Kambódía og Tæland urðu fyrir valinu og við lögðum í hann þann 25. janúar.

Við komum til Hanoi í Víetnam og hvað haldið þið, er ekki kuldakast að ganga yfir Kína og það virtist ná til norður Víetnam þar sem að kuldinn var gríðarlegur - just our luck. Við gistum á hosteli í Hanoi sem er rosa gott og þessi keðja rekur hostel útum allt Víetnam. Þetta hostel bíður upp á allskonar ferðir og við ákváðum að skrá okkur í eina sem kallast Buffalo run. Sú ferð felur í sér að fara niður hálft landið á viku með allskonar áhugaverðum stoppum og þar sem við ætluðum hvort sem er að vinna okkur suður eftir hugsum við því ekki að skrá sig í svona ferð, vera í hópi og kynnast nýju fólki.

Ferðin byrjaði eldsnemma á mánudagsmorgni og var fyrsti áfangastaður þjóðgarður sem er staðsettur rétt fyrir utan Hanoi. Þar byrjuðum við á því að skoða björgunarsetur fyrir apa og skjaldbökur sem höfðu verið bjargað frá veiðiþjófum. Eftir það hjóluðum við 20 km um regnskóginn og stoppuðum á allskonar stöðum á leiðinni og skoðuðum okkur um. Nóttinni eyddum við síðan í heimagistingu djúpt inni í regnskóginum. Þar var einungis rafmagn og heitt vatn frá kl. 17-21 hvern dag og því þurfti maður að nýta tímann vel til að sturta sig og hlaða síma og annað. Það var hrikalega kalt þarna en það var samt allt í góðu því þar voru svona 15 litlir sætir hvolpar sem fengu mann til að gleyma kuldanum og rigningunni.

Apar að leika sér í dýraathvarfinu

Crewið uppi á fjalli að skoða landslagið af útsýnispalli, eins og sjá má á fatnaðinum var ekki beint heitt úti

Gaman hjá okkur í hjólatúr

Staðurinn sem við gistum á í regnskóginum

Daginn eftir héldum við snemma af stað og fórum í siglingu á ám í kringum karstfjöll. Þetta var alveg eins og við gerðum í Guilin í Kína, nema í þetta skiptið vorum við á pínu litlum bát og sigldum um hella undir fjöllunum. Það var skítkalt og mígandi rigning, en þetta var samt alveg andskoti magnað. Við fórum síðan með næturrútu á næsta stað sem var viss upplifun útaf fyrir sig. Að ferðast í svona rútu er vægst sagt sérstakt fyrir mann sem er stór á alla kannta eins og ég. Rútan er með svona sæta-rúmum og ekki beint þau lengstu. En eftir langan og kaldan dag þá svaf ég óvenju vel, verð ég að segja.

Agalega fallegt útsýnið

Gaman hjá okkur á pínulitla bátnum

Siglandi inni í einum af mörgum hellum

Við komum til Phong Nha sem er lítill bær einhversstaðar í Víetnam þar sem að við eyddum næsta degi. Þessi staður er alveg stórkostlegur, náttúran er alveg gríðarlega falleg og loftið hreint og gott - nokkuð sem við söknuðum smá enda loftið í Kína ekki það besta. Við fórum og skoðuðum stærsta þurrhelli í heimi, sem var mjög áhugavert. En þetta er ristastór hellir sem er heilir 32 km að lengd. Hádegismatinn borðuðum við síðan við fallegan læk í regnskóginum.

Stærsti þurrhellir í heimi

Hádegissnæðingur við lítinn læk

Fallegt þar sem við borðuðum

Daginn eftir héldum við síðan til borgar sem heitir Hue. Á leiðinni stoppuðum við á áhugaverðum stöðum, meðal annars í neðanjarðar þorpi sem hátt í 1000 manns bjuggu í á meðan á Víetnam stríðinu stóð. Einnig stoppuðum við á svæðinu sem varð hvað verst úti í sprengju árásum Bandaríkjamanna í stríðinu og stoppuðum á sprengusafni þar sem við skoðuðum sprengjur og annað stríðsdót. Í Hue áttum við góðan strandardag og skelltum okkur út á lífið, sem var kósý eftir annasama daga.

Inngangurinn í neðanjarðarþorpið

Ísak inni í þorpinu

Sultuslakur á ströndinni

Næst tók við hápunktur ferðarinnar að mínu mati: ferð frá Hue til Hoi An sem við fórum á mótorhjólum. Váá hvað það var gaman! Við keyðum hátt í 160 km í stórglæsilegu landslagi og stoppuðum á mögnuðum stöðum, þar á meðal Elephant springs þar sem við fórum lengst upp í fjöll og borðuðum hádegismat. Við keyrðum síðan yfir eitt fjallaskarðið, en sú leið heitir Hai van pass og er mjög falleg. Nema hvað að það var líka svona þessi svartaþoka sem tók á móti okkur. Ekkert annað var því í stöðunni hjá okkur en að keyra upp bara hægt og rólega, en við lentum líka á eftir rútu sem var ansi fínt þar sem að við létum hana bara vísa veginn. Stuttu eftir að við komumst yfir toppinn, og komin líklega svona 100m niður, þá keyðrum við óvænt út úr þokunni og þvílíka útsýnið sem tók á móti okkur: strendur, fagurblár sjórinn og borgin Da Nang. Þessi ferð er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Eftir að við komum til Hoi An skelltum við okkur út á lífið, skoðuðum bæinn og fengum okkur eins og einn tvo bjóra - góður endir á góðum degi.

Hópmynd af mótorhjólagenginu

Elephant springs þar sem við borðuðum hádegismat

Smá þoka sem við keyrðum í gegnum, þarna erum við að skoða skotbyrgi Bandaríkjanna úr Víetnam stríðinu

Svona var útsýnið um leið og við keyrðum út úr þokunni

Þarna má sjá glitta í þokuna sem við keyrðum í gegnum

Svona vorum við flott saman á hjólinu

Ísak og Guðbjörg glæsileg á sínu hjóli

Síðasti dagurinn fór í hjólaferð, siglingu á körfubát þar sem við reyndum fyrir okkur í krabbaveiðum meðal annars og restin af deginum fór síðan í slökun á ströndinni. Þessi ferð var einfaldlega mögnuð og er klárt mál að ég ætla að koma aftur til Víetna. Þetta er land sem hefur upp á allt að bjóða og er alveg hræódýrt.

Ísak og Guðbjörg á Krabbaveiðum í körfubátnum

Mér skilst að ég og Bergþóra séum nú gift, allavega í Víetnam

Fallegt í Hoi An

Fallegt í Hoi An

Næst á dagskrá hjá okkur er að skella okkur til Kambódíu og Tælands og við hlökkum mikið til.

Þangað til næst
Jón Gunnar