Námsmannalífið í Ningbo

Guilin (frh)

Nú er gullna vikan að baki og skólinn kominn á fullt aftur. Eins og Jón Gunnar sagði ykkur frá þá fórum við þrjú saman til Guilin. Á lestarstöðinni upplifði ég mig eins og ég væri að leggja af stað til Hogwarts, en þetta var í fyrsta sinn sem ég fór í svona langa lestarferð.

Fyrstu tveir dagar ferðarinnar voru magnaðir, líkt og Jón sagði ykkur frá. Hjólatúrinn var snilld og fegurðin sem blasti við okkur niður Li River til Yangshuo var ólýsanleg.

Á þriðja degi rigndi heil ósköp svo við nýttum daginn í að rölta um bæinn með polla í skónum. Dauðaleit var gerð að nýjum skóm fyrir Jón Gunnar, en hvergi fundust skór stærri en 45. Á leið okkar um bæinn vorum við plötuð í tesmökkun þar sem Osmenthus te var á boðstólum. Í undirgöngum undir aðalgötu bæjarins römbuðum við síðan inn á stærðarinnar markað og þar var aldeilis hægt að gramsa!

Daginn eftir fórum við í Reed Flute Cave. Ef drekar hafa einhvern tímann verið til, þá giska ég á að þeir hafi átt heima þarna. Þetta var svo fallegt en skuggalegt í senn. Ekki nóg með að þar var allt lýst upp í hinum ýmsu litum, heldur var varpað 3D myndbandi á hellisloftið sem sýndi þróun hellisins og því næst sýndur ballett undir stefinu í Harry Potter.

Við þrjú fórum hinsvegar ekki öll sömu leiðina að hellinum. Um leið og við stigum út úr strætisvagninum hljóp einn kátur að okkur og reyndi að selja okkur ferð með bambusfleka upp að hellinum. Hann benti okkur á hvar stiginn upp að hellinum væri og sagði að það tæki um korter að ganga þangað og farin væri sama leið tilbaka. Hann stakk því upp á að við myndum fara með bambusfleka aðra leiðina og lýsti fyrir okkur að flekinn færi “undir brúna og yfir þarna hinum megin”. Þetta gylliboð kostaði einungis 5 kuai (100ISK) svo við Bergþóra slógum til en Jóni fannst þetta eilítið grunsamlegt og rölti af stað. Tveimur mínútum seinna var Jón kominn upp að inngangi hellisins og sá okkur Bergþóru rúnta sikk-sakk yfir pollinn að bakkanum hinumegin. Flekaferðin góða endaði því við stíg sem lá upp að sömu tröppum og Jón fór og tók ekki nema rúmar fimm mínútur, en ljúfar voru þær.

Á okkar fimmta og síðasta degi í Guilin fórum við að skoða Longji Riceterraces. Það var einungis hægt bóka ferðina ef það færu fleiri en fimm svo með okkur voru ung þýsk hjón, ástralskur strákur og annar bandarískur.

Keyrslan að hrísgrjónaökrunum var upplifun fyrir sig því sitthvorum megin við veginn voru litlir hrísgrjónaakrar, lítil þorp og síðan varð vegurinn þrengri og þrengri eftir því sem við nálguðumst áfangastað.

Við sjö ákváðum að halda hópinn og leggja leið okkar til Pingan, en það var í 4-5 klukkustunda göngufjarlægð frá bílastæðinu. En við mættum klukkan 11 svo planið var að hitta bílstjórann fimm tímum síðar í Pingan. Skilti og aðrir leiðarvísar voru mjög takmarkaðir svo við spurðum reglulega hvort við værum ekki á réttri leið. Til að gera langa sögu stutta þá endaði það svo að við gengum í fimm klukkutíma, fórum á alla útsýnispallana en rötuðum aldrei til Pingan svo bílstjórinn þurfti að sækja okkur aftur á sama stað. En þrátt fyrir það þá nutum við fegurðar og kyrrðar Longji til hins ítrasta og þvílík upplifun sem það var!

Morguninn eftir lá leiðin heim og þá í “hard-sleeper” í lestinni. Lúxusinn var því heldur minni en á leiðinni til Guilin, en lestarferðin var nokkuð hugguleg samt sem áður. Skólinn beið okkar ekki einungis spenntur á föstudeginum, heldur laugardeginum líka, en venjan er að einn frídagurinn er bættur upp með þessum hætti.

Eftir ferðina var mér ljóst að það er heldur auðvelt að plata okkur Bergþóru og að hugur minn kallar á að ég horfi á Harry Potter myndirnar aftur sem fyrst.

Þangað til næst,

Guðbjörg Helga