Námsmannalífið í Ningbo

Vetur konungur

Winter is coming ... no wait, it's already here.

Kalt, kalt, kalt er það eina sem kemst að í huga manns þessa dagana. Við heyrum ekki aðrar fréttir en af stormum heima á skerinu, en ég verð bara að segja að ég vorkenni ykkur lítið, þið getið í það minnsta verið inni, kveikt á ofnunum og verið í kósý. Það sem ég gæfi fyrir einn skitin ofn núna, ég get sagt ykkur það að mér hefur aldrei verið svona kalt á ævinni. Staðalbúnaðurinn hjá okkur er föðurland og ullarsokkar ... inni, já inni. Hitatölur gefa alls ekki til kynna hvað það er kalt, ég get allavega fullyrt að 10 gráður hér eru ekki beint sömu 10 gráður og heima. Á slæmum dögum þá erum við í föðurlandinu góða, ullarsokkum, með húfu, vettlinga og trefil, aftur inni! Ég verð bara að segja að þetta er skrýtnasta dæmi sem ég hef upplifað; það er kaldara inni heldur en úti, alveg magnað. Ég þakka nú samt fyrir það að það er enginn snjór og svo getur maður huggað sig við það að Víetnam og Tæland bíða okkar í vorfríinu í febrúar.

Krakkarnir sem Bergþóra er að kenna í skólaúlpunum í tíma

Ég og Bergþóra að reyna að halda á okkur hita einn morguninn

En að öðru leyti gengur lífið sinn vanagang hérna í Kína, nóg að gera í skólanum og við erum dugleg að smakka góðan mat og njóta lífsins.

Í lok Nóvember þá skelltum við okkur á eitt stykki jólahlaðborð takk fyrir. Norðurlandabúar í Ningbo héldu jólahlaðborð sem var haldið á einu af flottari hótelum Ningbo. Kræsingarnar flæddu um borðin og var mikið stuð. Það var magnað að sjá hversu margir norðurlandabúar eru í raun í Ningbo, við hittum meira að segja íslensk hjón sem búa hérna. Að vísu var stór hluti af hópnum nemendur annað hvort úr Ningbo háskóla eða Nottingham háskóla sem er með kampus hér í Ningbo. Maturinn var alveg æðislegur og það er alveg óhætt að segja að við höfum borðað fyrir allan peninginn, enda ekki beint á hverjum degi hérna úti sem við komumst í jólaskinku, kalkún, rauðkál, rjómasósur og allt það sem jólamatnum fylgir.

Mao laoshi (毛老师,口语kennarinn) okkar í úlpunni að kenna okkur

Ég og Bergþóra á jólahlaðborðinu

Nú er desember langt kominn og verð ég bara að segja að það er nokkuð skrýtið að vera bara ennþá í skólanum í tímum en ekki í prófatörn og að hafa ekkert sem minnir á það að jólin séu á næsta leiti. Þó svo að það sé ekki gefið frí í skólanum hér um jólin ætlum við nú samt að reyna að hafa það huggulegt og njóta vel.

Þangað til næst

Jón Gunnar