Námsmannalífið í Ningbo

Nýtt Ár

Strákarnir, jólin og áramótin eru komin og farin, en seinni hluti desember mánaðar var aldeilis nýttur vel! Það var ómetanlegt fyrir okkur, Ísak og Karen að fá strákana okkar í heimsókn fram yfir áramót. Við tókum á móti þeim í Shanghai og eyddum fyrstu helginni þeirra þar. Á laugardeginum var því Íslendingaveisla þar sem við sjö ásamt Jóni og Bergþóru og Shanghaibúunum Ríkeyju, Emil, Daða og Þóru fórum út að borða og skemmta okkur. Daginn eftir var síðan farið í ferð til klæðskera, en þar voru pöntuð jakkaföt og kápur á góðu verði.

Þegar komið var til Ningbo fengu strákarnir útpældan lista yfir hvað væri nauðsynlegt fyrir þá að smakka hjá götusölunum og á litlu veitingastöðunum. Til allrar lukku þótti þeim allt saman mjög gott.

Við höfðum búið okkur undir að jólin í ár yrðu ekki jólaleg á neinn hátt. Það kom því á óvart að hinir ýmsu staðir voru skreyttir, m.a. hér niðri í afgreiðslunni á nemenda hostelinu. Auk þess sem haldin var jólaskemmtun hér þann 25. desember. En við tókum ekki þátt í þeim fögnuði þar sem ég, Jón, Ísak og makar okkar höfðum, að Ragnari og Jóa óaðvitandi, bókað gistingu á fimm stjörnu hóteli yfir jólin.

Í stað skötu á Þorláksmessu borðuðum við á uppáhalds veitingastaðnum okkar hér í Ningbo, indverska staðnum Ganesha og áttum síðan notalega stund á hótelinu. Aðfangadagur var afslappaðri en nokkru sinni fyrr, en við klæddum okkur þó upp og fórum upp á lounge þar sem við pöntuðum þriggja rétta máltíð. Eftir matinn var ferðinni heitið í herbergi Jóns og Bergþóru þar sem við opnuðum gjafir og borðuðum smákökur og konfekt sem við fengum sent að heiman. Jólin voru því öðruvísi þetta árið en heldur betur hugguleg samt sem áður.

Um áramótin var ferðinni heitið aftur til Shanghai því við Ísak þurftum að skila strákunum þann fjórða janúar. Við höfðum fimm daga í borginni og ég notaði þá til þess sýna Ragnari m.a. Yu Garðinn, Bundið, Oriental Pearl Tower og Tianzifang markaðinn ásamt ógleymdri verslunargötunni Nanjing. Auk þess voru farnar ófáar lestarferðirnar til þess að finna hina ýmsu girnilegu veitingastaði sem Bergþóra okkar lagði mikla rannsóknarvinnu í að finna.

Einn daginn, á People’s Square, römbuðum við Ragnar inn á eflaust einn þann skrítnasta viðburð sem við höfum upplifað. Þar var staddur fjöldinn allur af fólki sem var annað hvort að reyna að koma út “barninu” sínu eða í leit að maka fyrir það og margir hverjir að skiptast á númerum. Á hverjum vegg og á regnhlífum vítt og dreift um svæðið voru auglýsingar. Annars vegar voru blöð þar sem verið var að auglýsa einstaklinga, þar sem á stóð hversu gamall, hár, miklar tekjur og vel menntaður hann var. Hins vegar var verið að auglýsa eftir einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði, en efst á listanum yfir hvaða kröfur tilvonandi maki þyrfti að uppfylla var yfirleitt eitthvað varðandi hæð eða tekjur.

Á Gamlársdag var allt krökkt af fólki og lestarkerfið lokað í miðbænum. Á hverju götuhorni voru hermenn sem stóðu vörð til þess að passa upp á að ekkert umferðaröngþveiti myndi myndast. Þegar við gengum fram hjá Nanjing “lú” tókum við síðan eftir því að við gatnamótin stóðu hermennirnir þétt hver upp við annan og mynduðu hlið á meðan umferð yfir gangbrautina var bönnuð. En um leið og “græni karlinn” kom þá gengu þeir koll af kolli til hliðar og opnuðu þannig “hliðið” og fólksmergðin streymdi yfir þar til þeir lokuðu gangbrautinni aftur af.

Gamlárskvöldi eyddum við, ellefu saman, á kínverskum veitingastað sem heitir Lost Heaven. Þar var áramótafögnuður og talið niður í miðnætti með kampavíni og stjörnuljósum en nýja árið gekk þó í garð án sprengjuláta í þetta skiptið. En í stað flugeldanna sáum við okkur til mikillar gleði að það var stjörnubjart!

Þetta var í fyrsta skipti sem ég eyddi jólunum og áramótunum að heiman og hafði því áhyggjur að ég fengi heimþrá. En þar sem ég var umkringd góðum vinum á spennandi stað þá voru hátíðarnar engu minna dásamlegar en vanalega!

Þangað til næst,
Guðbjörg Helga