Viðtal við Þórunni Elvu

- Þriggja mánaða dvöl breyttist í tvö og hálft ár

Þórunn Elva og góður félagi

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Pabbi minn, konan hans og litla systir mín, sem var þá 4 ára, fluttu til Shenzhen í Suður-Kína og ég ákvað að fara til þeirra í þrjá mánuði að prófa eitthvað nýtt og sjá um litlu systur mína. Ég fór því til þeirra 1. mars 2011 og planið var að vera eingöngu þessa þrjá mánuði. Annað kom á daginn þegar þessi dvöl endaði á að vera tvö og hálft ár.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Ég var þarna fyrst að sjá um litlu systur mína alla daga og kynnast henni. Það var æðislegt að loksins eyða smá tíma með fjölskyldu minni því þau hafa alltaf búið erlendis.

Þegar ég var úti kynntist ég fullt af enskukennurum og áttaði mig á hversu auðvelt var að fá starf við að kenna ensku, enda enskukunnátta margra Kínverja lítil sem engin. Eftir þriggja mánaða dvöl mína í Shenzen heimsóttu bróðir minn, Kolli, og Sandra besta vinkona mín mig og ferðuðumst við allan júní mánuðinn. Því næst ákvað ég að taka námskeið til enskukennsluréttinda.

Ég kláraði 11 vikna námskeið á netinu yfir sumarið á meðan ég var á Íslandi og flutti svo ein, atvinnulaus og húsnæðislaus til Shanghai þar sem ég fann mér vinnu við að kenna ensku í einkaskóla, Zhong Guo Fu Li Hui í Pudong, Shanghai. En það er skóli sem er partur af Soong Ching Ling keðjunni sem er mjög þekkt í Kína. Þar var ég með minn eigin bekk sem ég fylgdi svo upp á næsta stig.

Síðasta hálfa árið mitt úti, eins seint og það var, ákvað ég svo að fara að læra kínverskuna og sótti kínverskutíma tvisvar í viku.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Þegar Sandra vinkona mín og Kolli bróðir komu að heimsækja mig eftir þessa fyrstu þrjá mánuði úti ferðuðumst við saman. Við heimsóttum alla þessa týpísku staði, Beijing og fórum örugglega í alla garða sem eru til þar ásamt því að klífa Kínamúrinn að sjálfsögðu. Við fórum til Shanghai, Guilin, Guangzhou og planið var að fara líka til Yangshuo en við komumst ekki vegna rigningarflóðs. Ég bjó svo í Shanghai og Shenzhen og fór nokkrum sinnum til Hong Kong ásamt því að fara einu sinni enn með vinkonu minni aftur til Beijing á Kínamúrinn og að smakka Peking önd.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ætli það séu ekki krakkarnir mínir sem ég kenndi og allar svona „stóru“ stundirnar sem ég átti með þeim. Gleymi til dæmis aldrei fyrstu heilu setningu eins nemendans míns “Elva, the elephant is behind the alligator”. Haha, allar svona minningar eru mér mjög kærar og þetta var mjög gefandi starf. Einnig eru það vinir mínir sem ég eignaðist úti. Ég kynntist og bjó með einni bestu vinkonu minni í dag, Melissu frá Bandaríkjunum og mun halda þeirri vináttu til æviloka. Og Benn vinur minn frá Ástralíu sem við ,,tókum að okkur" og bjó með okkur síðasta árið.

Einnig samstarfskennarinn minn Teresa eða Ren YuanYuan. Við urðum ótrúlega góðar vinkonur og var hún hreinskilnasta manneskja sem ég hef hitt og lét þig alltaf vita ef þú varst að eiga “bad hairday”.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Áður en ég flutti til Kína var ég mjög “picky” á mat. Það var ekki í boði þegar maður var þarna og líka af því að Melissa vinkona mín bara eiginlega bannaði mér að vera það.

Ég var ekki mikið fyrir sveppi áður en ég fór út. Ég vissi ekki áður en ég fór þangað hversu mikið af tegundum af sveppum eru til í heiminum og hversu góðir þeir eru. Sveppirnir í Kína er líklega uppáhaldið mitt og svona “street food” sem maður fékk úti á götu oftast eftir klukkan 10 og þá alltaf fyrir utan skemmtistaðina.

Maturinn sem ég fékk í skólanum var hins vegar ekki alltaf það besta. Ég til dæmis smakkaði ekki þegar það voru kjúklinga-, anda- og svínsfætur í matinn. Svo fannst mér líka skrýtið í byrjun að maður fékk alltaf bara heilan fisk. Með sporðinum, roðinu, beinunum, hausnum og augunum... svo átti maður bara að pikka út.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Já ég held ég hafi verið búin að ímynda mér meiri svona þorp og þannig sem eru alveg í minni borgum. En ég bjó í stórborgum. Einnig kom mér á óvart hvað mér fannst ég örugg þarna. Þetta er alls ekki hættulegt land þrátt fyrir hvað það eru margir sem búa þarna. Svo var skrýtið í fyrstu hvað allir horfa mikið á mann. Sérstaklega þegar þú kemur á staði sem er ekki mikið um túrista. Ég fann minna fyrir því í Shanghai því þar búa svo margir útlendingar svo ætli þau séu kannski smá vanari því að sjá hvíta manninn við hliðina á sér í metro.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Ég man hvað það var skrýtið að fara út eftir kvöldmat. Þá fyrst sérðu fjöldann af fólkinu því oftast eftir kvöldmat fara allir út að annað hvort labba, gera tai chi eða aðrar æfingar og helst þá að dansa. Kínverjarnir mynduðu risastóra hópa á hverju götuhorni öll kvöld og alla morgna og dönsuðu einhverja dansa.

Svo líka alltaf í skólum eða þegar fólk er að byrja vaktina á vinnustaðnum sínum. En í skólanum eru alltaf svokallaðar morgunæfingar en þá er það fyrsta sem er gert á hverjum morgni að fara út, þjóðsöngurinn sunginn og svo dansað nokkra dansa í morgunsárið.

Samband milli kennara og foreldra í skólum er svo allt annað þarna úti en á Íslandi. Sérstaklega í skólanum sem ég kenndi í því allir foreldarnir voru ríkir og kostaði mánuðurinn fyrir barnið um 120 þúsund krónur í þessum skóla.

Það er oft mikil keppni að sýna hver er ríkastur og því fengum við kennararnir gjafir allt árið um kring. Til dæmis fær maður eiginlega alltaf gjöf þegar einhver kemur úr ferðalagi. Hvort sem barnið fór með foreldrinu eða ekki. Svo er keppni að gefa flottustu afmælisgjafirnar. En það er þannig úti að ef þú sjálfur átt afmæli áttu að gefa öllum hinum gjöf.

Eftir þessi tvö ár þarna úti var þetta komið út í þvílíkar öfgar. Allir foreldrar kepptust við að vera bestu vinir kennaranna því þá fá börnin „betri meðhöndlun“ eða kennslu. Ég tók samt sem áður ekki þátt í þeirri vitleysu og elskaði öll börnin mín og jafnvel börn „nískustu“ eða leiðinlegustu foreldranna mest. Sem var akkúrat öfugt við kínversku samkennarana mína.

En í öðru landi gilda önnur viðmið og reglur og ég lærði að lifa meðal þeirra í sátt og samlyndi og elskaði Kínverjana (nema þegar þau öskruðu í símann og töluðu svo hátt að maður varð næstum heyrnarlaus). Þetta var æðisleg upplifun og það líður ekki dagur sem ég hugsa ekki til barnanna minna úti sem ég tala oft við í gegnum wechat og vina minna sem búa enn úti í Kína.

Ég mun pottþétt fara aftur út í heimsókn einhvern tímann á lífsleiðinni að heimsækja Teresu og börnin mín. Og að sjálfsögðu vini mína ef þau munu búa þarna ennþá :)

Við þökkum Þórunni Elvu kærlega fyrir skemmtilega frásögn af dvöl hennar í Kína.

Þórunn Elva með nemendum sínum

Á ferðalagi ásamt Kolla bróður og Söndru vinkonu

Á Kínamúrnum fræga

Á Kínamúrnum fræga