Viðtal við Sigrúnu K. Valsdóttur

- skoðaði stöðu farandverkakvenna í Kína

Með vinkonum mínum á Yaxiu markaðnum.

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Upphaflega fór ég til Kína árið 2010 og var þar í nokkra mánuði. Móðir mín var búsett í Beijing og ákvað ég að nýta tækifærið og kynnast nýju samfélagi. Ég var í fjarnámi frá Háskóla Íslands og þegar ég kom heim fór ég strax að leggja grunninn að næstu Kínaför og dvaldist þar einnig haustið 2011.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Í fyrri Kínadvölinni vorum við hjónin saman úti, ég í fjarnámi í mannfræði og hann í skiptinámi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Við nýttum tímann vel og fórum til Shanghai á heimssýninguna, skoðuðum terracotta hermennina í Xi'an og fórum með vinum okkar til Datong.

Haustið 2011 fór ég ein til Beijing og framkvæmdi vettvangsrannsókn á Yaxiu fatamarkaðnum. Ég tók viðtöl við konur sem störfuðu þar og var markmið mitt að skoða stöðu farandverkakvenna í Kína með áherslu á sjálfsmynd og stöðu þeirra innan borgarsamfélagsins. Ég tók sérstaklega fyrir hið kínverska hukou búsetuskráningarkerfi, sem eru eins konar átthagafjötrar, og ræddi í því samhengi ríkisvald innan Kína, auk umræðu um einbirnisstefnuna alræmdu. Ástæða þess að ég valdi þetta tiltekna viðfangsefni var það hversu mikilvægt mér þykir að skoða stöðu þeirra sem eru fastir á jaðri samfélagsins.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Já, auk þess að heimsækja borgir á borð við Xi'an og Shanghai, lá leið okkar til Datong í Shanxi héraði. Þar skoðuðum við Xuankong hofið, sem var byggt inn í klett fyrir meira en 1500 árum síðan, og Yungang hellana sem eru einnig ævafornir og innihalda fjöldan allan af Búddalíkneskjum. Einnig fórum við að Zhenzhu vatni, eða Perluvatni, og sigldum um á vatninu og skoðuðum lítil þorp. Það var mikil upplifun.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Fólkið, maturinn og sagan. Fyrir einhvern sem er úr svo að segja stéttlausu samfélagi er merkilegt að kynnast samfélagi þar sem stéttaskipting er svo áberandi. Misskipting gæða einkennir kínverskt samfélag að mínu mati og sá ég það vel í gegnum vinkonur mínar á Yaxiu markaðnum sem þurftu að vinna ellefu tíma á dag, alla daga ársins fyrir lúsarlaun. Hins vegar voru þær almennt sáttar við sitt hlutskipti og voru mjög ánægðar að hafa þann kost að búa í Beijing þrátt fyrir slæman aðbúnað.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Besti matur sem ég borðaði í Kína var á veitingastaðnum Little Yunnan í Beijing. Þar fékk ég afar bragðgóðan mat, en ég er grænmetisæta og hef því ekki smakkað eins framandi kínverskan mat og margir. Maturinn frá Yunnan er einstaklega bragðgóður og vel kryddaður. Það er mér þó minnisstætt að hafa pantað eggaldinrétt og fundist skrítin áferð á krydduðu kurli sem var í réttinum, en þá benti vinur minn mér á að þessi réttur væri kryddaður með nautahakki, svo ég fékk það í kaupbæti.

Annars fann ég frábæran veitingastað rétt hjá Konfúsíusarhofinu í Beijing. Kannski var það úrvalið sem gerði matinn betri,en þessi staður var rekinn af munkum og allur matur þarna inni hentaði grænmetisætum. Úrvalið var ótrúlegt, en þarna var til dæmis að finna grænmetisvænar útgáfur af þekktum kínverskum réttum á borð við Kung Pao kjúkling.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst þangað í fyrsta sinn?

Ég vissi að sjálfsögðu að mikil mengun væri í Beijing, en áttaði mig þó ekki fyllilega á því hversu mikil hún væri. Oft sást ekki blár himinn svo dögum skipti, en það er ótrúlegt hvað það gerir mikið fyrir mann að anda að sér hreinu lofti og sjá til himins.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Margt var óvenjulegt og ég lenti í fjölda ævintýra, en ein skemmtileg minning tengist Zhuan Zhuan, vinkonu minni af markaðnum. Ég hafði boðið viðmælendum mínum í rannsókninni heim til mín eitt kvöldið og bauð þeim upp á mat og vín, en þær afþökkuðu allar vínið. Zhuan Zhuan vildi svo bjóða mér heim til sín nokkru síðar. Ég fór því í matarboð til fjölskyldu hennar sem var einstaklega gestrisin og bauð mér upp á fjöldan allan af réttum, en þau vissu að ég borðaði ekki kjöt og höfðu því einungis grænmetisrétti það kvöldið. Einnig keyptu þau léttvín og skáluðu við mig þrátt fyrir að ekkert þeirra legði það í vana sinn að bragða vín, enda sást það á svipbrigðum þeirra. Að matarboði loknu krafðist Zhuan Zhuan þess að fá að skutla mér heim og fórum við tvær og bróðir hennar saman þvert yfir borgina á litlu mótorhjóli.

Við þökkum Sigrúnu kærlega fyrir gott spjall og bendum áhugasömum á að hægt er að lesa grein um rannsókn Sigrúnar á rafræna gagnasafninu skemman.is.

Við fórum í ferðalag að Perluvatni þegar systur mínar heimsóttu Kína.

Við hjónin að túristast við forboðnu borgina.

Ég í góðu glensi á leið að skoða terracotta hermennina í Xi'an.

Við Stefán að skoða hangandi hofið fyrir utan Datong.

Ég á kameldýri við Yunggang hellana.