Viðtal við Melkorku Bríeti

- skrapp til Kína í sitt eigið kung-fu ævintýri

Melkorka og Qu Shifu

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég horfði mikið á Jackie Chan og Jet Li kung-fu bíómyndir þegar ég var yngri og var lengi búin að dreyma um að skreppa til Kína í mitt eigið kung-fu ævintýri. Einn daginn rakst ég á auglýsingu á netinu frá kung-fu skóla í Shandong héraði. Eftir að ég var búin að afla mér nægum upplýsingum um skólann tók ég þá ákvörðun að skella mér út!

2. Hvað brallaðir þú þar?

Ég æfði kung-fu við Kunyu Shan Martial Arts Academy. Það er heimavistarskóli sem er staðsettur við rætur Kunyu fjalls í Shandong héraði. Skólinn sérhæfir sig í að kenna útlendingum þessa æðislegu íþrótt. Ég bjó þarna í 9 mánuði og lífið gekk meira og minna út á að styrkja hug og líkama.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Svæðið í kringum skólann minn var ótrúlega fallegt og það var ótrúlega friðsælt að fara út og hlaupa meðfram fjöllum og fallegum ökrum og æfa síðan umkringd náttúrufegurðinni undir leiðsögn kung-fu meistara míns. Fyrir utan stuttar helgarferðir til Yantai borgar, sem var sú borg í þægilegustu fjarlægðinni frá skólanum, skrapp ég til Beijing og fékk mér góðan göngutúr um hinn mikla vegg Kína og um Forboðnu borgina í Beijing sem var stórfengleg að sjá.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ég man vel eftir æfingadögum í snjónum yfir vetrartímann. Þeir voru kaldir og erfiðir og við nemendurnir þurftum að standa saman og styðja hvort annað til að komast í gegnum æfingarnar. Síðan man ég vel eftir prófunum sem ég tók, það var alltaf mikið stress í kringum að sýna listir sínar fyrir framan allan skólann. Einnig man ég vel eftir fyrsta skiptinu sem ég steig inn í boxhring fyrir framan nemendurna og meistarana í skólanum, horfðist í augu og barðist við andstæðinginn minn. En ein hlýjasta og æðislegasta minningin er máltíð heima hjá meistara mínum sem ég naut með æfingahópnum mínum eftir tæplega 6 mánaða dvöl. Við elduðum og borðuðum saman til að fagna afmæli meistarans. Meistarinn minn, Qu, talaði alltaf um okkur sem fjölskyldu og hlýja tilfinningin sem ég fann þegar ég naut þess að elda og eiga góða kvöldstund með þessari nýju fjölskyldu minni mun aldrei gleymast.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég smakkaði til dæmis silkiorma-lirfur, þær bragðast svolítið eins og hnetusmjör sem kom mjög á óvart og er þess vegna það fyrsta sem mér dettur í hug að nefna! En það besta sem ég borðaði í Kína voru epli, þótt ótrúlegt sé. Bændurnir sem bjuggu í grennd við skólann minn ræktuðu og seldu ódýra, ferska ávexti á götuhorni við skólann og eplin sem þeir seldu voru þau bestu sem ég hef smakkað.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú komst þangað fyrst?

Mér fannst skrítið hvað lítið var um ensku, ég var búin að heyra um þetta og að það væri líklegt að það væri lítið um ensku þar sem ég myndi búa utan stórborgar, en þrátt fyrir viðvörunina náði enskuleysið samt að koma mér á óvart. Annað sem kom mér á óvart var hvað maður þurfti að passa uppá að sölumenn svindluðu ekki á manni. Ég treysti fólki yfirleitt mjög auðveldlega og þess vegna eyddi ég oft óþarflega miklum pening þegar ég var nýkomin út. Svo þegar ég fór og verslaði með kínverskri vinkonu minni sem kunni að versla þarna úti þá sá ég af hverju Kína var svona dýrt fyrir mig! Eftir smá tíma var maður orðinn ansi flinkur að prútta og semja um verð sem manni fannst passa vörunni sem maður keypti og þá var lífið mikið ódýrara.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Það sem mér fannst óvenjulegast var að sjá foreldra láta börnin sín gera þarfir sínar við niðurföllin á stórum verslunargötum þar sem fullt var af fólki að skoða vörur á útimörkuðum. Þetta er auðvitað að vissu leyti snyrtilegra og þægilegra fyrir börnin en að ganga í bleyju, en þetta er eitthvað sem maður er ekki vanur að sjá þegar maður er að ganga um stóra verslunargötu!

Við þökkum Melkorku fyrir skemmtilega frásögn af lífi sínu sem kung-fu nemandi úti í kínverskri sveit.

Bjarnaganga

Mantis fjölskyldan