Viðtal við Ásgerði Snævarr

- Nógu langt í burtu og nógu framandi

Á bambusbát niður Li ána.

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Eftir að ég útskrifaðist úr menntaskóla ákvað ég að taka mér ársleyfi áður en ég færi í háskólann. Mig langaði að ferðast og upplifa heiminn en jafnframt læra nýtt tungumál. Kína virtist vera augljós kostur - nógu langt í burtu og nógu framandi. Ég keypti mér því miða aðra leið til Kína með mánaðarfyrirvara.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Leið mín hefur tvisvar legið til Kína síðustu árin. Fyrst árið 2008 en þá lærði ég kínversku í Nanjing University. Árið 2010 fór ég svo aftur til Kína, í þetta sinn til Shanghai, og vann í íslenska skálanum á heimssýningunni/Expo.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Á meðan á Kínadvöl minni stóð reyndi ég að ferðast þegar ég gat og fór m.a. til Peking, Hangzhou, Suzhou, Xiamen, Guilin, Yangshuo o.fl. Eftirminnilegasta var sennilega ferð með nokkrum vinum á fjallð Huang Shan eða Gulufjöll. Gullfalleg fjöll en stórhættuleg þar sem lítið var um handrið eða öryggislínur þrátt fyrir þverhnípi og þrönga stíga. Þá helgi sem við vorum þar lá þykk þoka yfir fjallinu í þokkabót og maður sá ekki meira en tvo metra fram fyrir sig. Þegar ég hugsa til baka var þetta stórhættuleg för. Við valhoppuðum stígana óhrædd í þokunni á leiðinni upp en þegar við vorum á niðurleið og þokunni létti kom í ljós að það var mörghundruð metra fall niður og engin öryggisnet. Við komumst einnig að því að ár hvert létust margir ferðamenn einmitt í sambærilegum aðstæðum. Mjög skrítin tilfinning en jafnframt eftirminnilegt.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Að kynnast nýju og spennandi umhverfi og læra inn á annan menningarheim. Ég kynntist ekki bara mörgum Kínverjum heldur líka fólki frá öllum heimshornum. Í skólanum umgekkst ég Bandaríkjamenn, Ástrali, Þjóðverja, Frakka, Kanadamenn, Svía, Kóreubúa og marga marga fleiri. Öll áttum við það sameiginlegt að hafa áhuga á Kína og kínversku.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Maturinn er sennilega eitt af því sem ég sakna allra mest frá Kína. Hversdagsmaturinn var uppáhaldsmaturinn og það sem ég sakna mest. Götumaturinn er samt alveg pottþétt það sem stendur upp úr. Bæði sem besta og versta enda allur skalinn þar. Má þar nefna mat á spjótum á kolagrilli (chuanr), pönnukökur (jianbing), einskonar kleinur (you tiao), dumplings (jiaozi) sérstaklega grillaðir á pönnu, núðlur og fleira og fleira.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Þegar ég fór fyrst til Kína fannst mér öll bjúrókrasían mjög skrítin. Mér leið stundum eins og ég væri í falinni myndavél. Þá eru oft mjög margir um fáar stöður. T.d. stóðu átta manns bak við eitt innritunarborð á flugvellinum að rífa af boarding miða inn í vélina. Starf sem yfirleitt ein manneskja sinnir hér heima. Í ræktinni í skólanum var hægt að kaupa sig inn í stakt skipti. Þá borgaði maður fyrir tímann og fékk afhentan miða og síðan þurfti maður að rétta annarri manneskju miðann sem stóð við hliðina á þeirri sem seldi manni hann.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Það var svo margt en til að nefna eitthvað: Börn með gat í klofinu á buxunum, karlmenn með bolinn upp rúllaðan og bumbuna úti á góðviðrisdögum og fólk að reykja inni á spítölum, ókunnugir að bjóða vegfarendum sígarettur og athyglin sem maður fékk fyrir það að vera hvítur.

Við þökkum Ásgerði kærlega fyrir skemmtilegt spjall og mælum með því að allir smakki hinar frægu jianbing götupönnukökur fái þeir tækifæri til þess.

Í þokunni á Huang Shan

Morgunmatarstaðurinn minn (jianbing)