Viðtal við Höllu Hallsdóttur

Viðtal Konfúsíusarstofnunarinnar við Höllu Hallsdóttur 25. apríl 2014

- langaði að prófa að læra tónamál

Halla ásamt Bingmayong leirhermönnunum

1. Hvernig kom það til að þú fórst í kínversk fræði?

Ég hef alltaf átt auðvelt með tungumálanám og mig langaði til að prófa að læra tónamál. Mér þóttu kínversku táknin líka spennandi og vildi sjá hvort það væri eins erfitt að læra að lesa og skrifa þau og af var látið. Svo var ég líka áhugasöm um kínverska sögu.

2. Hvenær og hvert fórst þú sem skiptinemi til Kína?

Ég fór til Nanjing haustið 2011 og var við nám í Nanjing-háskóla í tvær annir. Nanjing er 8 milljón manna borg í Suður-Kína, og ég var eini Íslendingurinn þar (a.m.k. sem ég vissi af).

3. Hvernig líkaði þér borgin og háskólinn sem þú lærðir við?

Nanjing er falleg borg og þar er mikið af trjám og margir stórir almenningsgarðar. Þar eru líka áhugaverðar fornminjar enda á borgin sér meira en tvö þúsund ára sögu. Veðrið þar er á hinn bóginn annars vegar mjög heitt og rakt á sumrin og hins vegar hrollkalt á veturna, og inn á milli eru bara 1-2 vikur af mildu haust- og vorveðri.

Nanjing-háskóli er ágætur skóli og það var mjög þægilegt að vera á heimavist í næsta húsi við kennslustofurnar, þó að aðstæður þar væru kannski ekki eins og maður á að venjast hér heima. Ég var til dæmis ekki með aðgang að ísskáp.

4. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Eins og ég minntist á eru margir almenningsgarðar í Nanjing, og einn þeirra heitir 紫金山 Zĭjīnshān eða Fjólubláa Fjallið. Þetta er í raun lítill þjóðgarður innan borgarmarkanna og innan garðsins eru margar merkar minjar eins og grafhýsi Sun Yat-Sen og grafhýsi fyrsta Ming-keisarans en líka mikil náttúrufegurð. Við skiptinemarnir fórum stundum saman með strætó í þjóðgarðinn og gengum upp skógi vaxið fjallið að vatni sem er vinsæll sundstaður meðal innfæddra.

5. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Það er erfitt að segja, það er svo margt sem stendur uppúr. Ég á til dæmis góðar minningar um það þegar pabbi og mamma komu til að heimsækja mig og við fórum saman til Beijing, Xi'an og Shanghai. Fyrsta kvöldið okkar í Beijing ráfuðum við um heldur tómlegt hverfi í leit að veitingastað til að borða á og vorum næstum því búin að gefast upp þegar við römbuðum alveg óvart inn á pínulítinn stað í hliðargötu sem bauð upp á alveg frábæran mat.

6. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Það versta er klárlega andablóðssúpa með hrísgrjónanúðlum. Þetta er vinsæll réttur í Nanjing. Auk blóðsins (sem er í kögglum) eru einnig andagarnir og sneiðar af andalifur í súpunni sem er brimsölt. Ég prófaði hana bara einu sinni og náði ekki að klára skammtinn.

7. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Ég var nokkuð vel undirbúin og hafði talað við aðra Kínafara áður en ég hélt þangað sjálf, svo það var í raun ekkert sem kom mér beinlínis í opna skjöldu. Kínversk bankaviðskipti gætu reyndar átt heima hér; það var mjög merkileg upplifun að fara í bankann. Kínverskir bankar eru nefnilega með biðsali sem minna einna helst á BSÍ, og viðskiptavinir taka númer og geta svo búist við því að bíða ansi lengi. Seinagangurinn skýrist þegar komið er til gjaldkera, því það er stimplað og kvittað og stimplað aftur og fært til bókar og stimplað í bókina og svo er yfirmaður kallaður til og fenginn til að staðfesta þann stimpil með eigin stimpli og kvittað fyrir. Heimsókn í bankann tók sjaldnast minna en klukkutíma. Sem betur fer eru hraðbankar á nánast hverju götuhorni.

Við þökkum Höllu kærlega fyrir skemmtilega frásögn af skiptinemadvöl sinni í Kínaveldi.

Tré í Gulou-hverfi Nanjing

Sjóndeildarhringur Pudong í Shanghai

Xi’an hverfi