Viðtal við Helga Steinar

- mælir með skiptinámi í Ningbo

Helgi í Shanghai

1. Hvernig kom það til að þú fórst í kínversk fræði?

Ég lærði kínversku á meðan ég stundaði nám í Bandaríkjunum svo sýktist ég af kínverskuveirunni og varð að taka hana alla leið.

2. Hvenær og hvert fórst þú sem skiptinemi til Kína?

Ég fór fyrst til Ningbo á sumarnámskeið árið 2008, svo aftur 2009 og 2012. Ég kláraði síðan B.A. gráðuna í kínverskum fræðum frá Háskóla Íslands vorið 2013.

3. Hvernig líkaði þér borgin og háskólinn sem þú lærðir við?

Bæði borgin og skólinn voru til fyrirmyndar, öflugt félagslíf og allt til alls á skólalóðinni. Kennslan var mjög áhrifamikil og ég myndi eindregið mæla með að fara í nám til Ningbo.

4. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég er búinn að sjá Kínamúrinn, Torg hins himneska friðar í Beijing, leirhermennina í Xi’an og bjórverksmiðjuna í Qingdao. Síðan hef ég líka farið til Shanghai, Hangzhou, Suzhou, Shaoxing, Changsha, Xiamen og Hong Kong.

5. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Næturlífið. Maður lærir kannski allra mest þar, talandi við hressa Kínverja sem vilja bæði æfa enskuna sína og hlusta á útlendinga tala kínversku á karókíbörum og götuhornum.

6. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Það besta er mjög langur listi. Kínverskur matur er yfir höfuð mjög ávanabindandi og þarf maður að vera duglegur að hreyfa sig þar sem auðvelt er að missa sig. Það versta væri kannski núðluréttirnir sem boðið er uppá á svona kínverskum "skyndibitastöðum".

7. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Almenningsklósett eru holur, fólk reykir oft á meðan það borðar matinn sinn og ég átti líka stundum erfitt með að átta mig á því hvort kínverskar stelpur væru 12 ára eða þrítugar.

8. Hvernig hefur námið í kínverskum fræðum nýst þér og hvað ertu að bralla núna?

Um leið og ég kom heim fékk ég vinnu við að þýða hjá Mountaineers of Iceland og núna vinn ég í ferðamannabransanum hjá Kynnisferðum og sé svona óformlega um alla Kínverja sem til okkar koma. Svo er stefnan tekin á mastersnám í alþjóðasamskiptum í Beijing.

Við þökkum Helga kærlega fyrir spjallið og bendum áhugasömum á skemmtilega grein sem hann skrifaði nýlega um „heimaborg“ sína  Ningbo.

Shanghai

Það jafnast ekkert á við sporðdreka-kebab.

Gæti ég nokkuð fengið poka undir bjórinn minn?