- í gegnum Norður-Íshafið með Snædrekanum
![]() |
Shanghai Tower, Egill og Ásgeir vinur hans í heimsókn |
1. Hvernig lá leið þín til Kína?
Ég og eiginkona mín, Björg Finnbogadóttir, ákváðum að flytja til Kína haustið 2011 í kjölfar þess að hún fékk inngöngu í meistaranám við bandarískan skóla með campus í Shanghai.
2. Hvað ert þú að bralla þar?
Ég starfa við Kínversku heimskautastofnunina (Polar Research Institute of China), þar sem ég stunda rannsóknir um málefni norðurslóða og er jafnframt skrifstofustjóri Kínversk-Norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar.
3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?
Ég á ennþá eftir að heimsækja fullt af áhugaverðum stöðum í Kína en meðal þeirra staða sem mér hefur fundist einna skemmtilegast að sækja heim eru m.a. nærliggjandi svæði á borð við Suzhou, Hangzhou og Moganshan - svo finnst mér alltaf gaman að kynnast heimaborginni minni, Shanghai, betur.
4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?
Þó það sé kannski ekki „al-kínversk“ upplifun, þá stendur upp úr af mörgu eftirminnilegu þátttaka mín í leiðangri kínverska rannsóknarskipsins Snædrekans, frá Shanghai til Qingdao og þaðan til Reykjavíkur og Akureyrar, í gegnum Norður-Íshafið.
5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?
Fyrir mér er Peking önd sigurvegari kínverskrar matargerðarlistar, aftur á móti er ég t.d. enginn sérstakur aðdáandi grísalappa.
6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?
Sennilega var það umferðin, ég man að mér þótti fyrsta leigubílaferðin ansi skrautleg en í dag kippir maður sér ekkert upp við það þó allt í einu geti poppað upp „3 akreinin“ á miðri tveggja akreina götu eða ef leigubílstjóri keyrir eins og hann sé með blikkandi blá ljós á þakinu og erindi í samræmi við það.
7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?
Ótrúlegast hefur verið að fylgjast með byggingarframkvæmdunum á Shanghai Tower, sem hefur farið úr því að vera til þess að gera „smá stubbur“ í kringum alla hina skýjakljúfana þegar við fluttum til Shanghai árið 2011 í það að vera orðin næsthæsta bygging í heimi.
Við þökkum Agli kærlega fyrir gott spjall og óskum honum velgengni í rannsóknum sínum á norðuslóðum.
![]() |
Áhöfnin á Snædrekanum 雪龙 |
![]() |
Egill og Björg í Suzhou |