Viðtal við Védísi Ólafsdóttur

Viðtal Konfúsíusarstofnunarinnar við Védísi Ólafsdóttur 28. janúar 2014

- ævintýri klettaklifrara

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég fór fyrst með Hamrahlíðarkórnum í kórferðalag haustið 2007. Það kveikti forvitni mína á landinu og haustið 2008 fór ég í nokkra mánuði í skiptinám í Tsinghua háskóla í Peking. Fimm árum síðar var ferðaþráin farin að kitla aftur og ég rakst á starf í Yangshuo, Guangxi, við leiðsögn alþjóðlegra skólahópa. Árið 2013 fór ég tvisvar sinnum í þrjá mánuði til Yangshuo.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Starf mitt í Yangshuo var frábært. Ég starfaði bæði með Kínverjum og fólki alls staðar að úr heiminum við leiðsögn alþjóðlegra skólahópa um Kína. Þess á milli klifraði ég á frábæru klifursvæði Yangshuo.

3. Heimsóttir þú einhverja áhugaverða staði?

Með Hamrahlíðarkórnum ferðuðumst við til Xi’an, Wuhan, Qingdao auk Beijing. Ég fór víða þegar ég var sem skiptinemi 2008, fór meðal annars til Tíbet, Yunnan og Sichuan auk margra annarra staða. Fyrirtækið sem ég starfaði fyrir 2013 er með ferðir um allt Kína svo ég ferðaðist m.a. til Xiamen, Peking og Innri Mongólíu. Síðasta ferðalag mitt í Kína var til Getu he í Guizhou héraði. Það er vinsælt klettaklifur svæði en er þekkt fyrir mögnuð fjöll úr kalksteini. Þar eru bogar og hellar sem vinsælir eru til klifurs. Þar heimsótti ég m.a. þorp sem byggt er inni í helli. Þar stendur til mikil uppbygging, en eins og er, eru klettaklifrarar einu túristarnir.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Yangshuo er ótrúlegt svæði. Það hefur breyst mikið á síðustu árum vegna túrisma en það kemur þó ekki í veg fyrir magnað landslag. Það var alltaf gaman að hjóla bara út í bláinn og týnast einhvers staðar á svæðinu. Bærinn er í ákveðnu limbói. Þar er túrismi að vaxa mjög hratt en alls staðar umhverfis bæinn er akuryrkja, mikil hrísgrjóna- og sykurreyrrækt. Andstæður í bænum eru mjög miklar.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég var fastagestur á veitingastað sem sérhæfði sig í mati í "leirpottum". Hrísgrjón voru soðin í leirpottum og svo gat maður valið fjórar grænmetis- eða kjöttegundir sem steikt voru saman og sett ofan á. Réttur sem þessi kostaði 10 kuai. Um 200 kr. íslenskar. Í Peking varð ég alveg háð pönnukökunum sem seldar eru á hverju götuhorni. Í Yangshuo var aðeins ein kona sem seldi þær, ég var þar tíður gestur. Versta sem ég borðaði, hmm. Hundar eru mikið borðaðir í Yangshuo, en ég lét ekki verða af því að smakka þá. Nei, mér finnst yfirleitt kínverskur matur alltaf góður.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Þegar ég fór fyrst til Kína kom gestrisnin mér á óvart auk þess að upplifa þessa gríðarlegu mannmergð. Ég vissi að það væru margir í Kína en það er öðruvísi að upplifa hana. Ég bjó haustið 2008 í Peking, Ólympíuárið, og það var blár himinn mest allt haustið. Ég upplifði aldrei þessa gríðarlegu mengun sem þar er. Þegar ég fór til Yangshuo í fyrsta skiptið voru margir búnir að lýsa Yangshuo fyrir mér sem pínulitlum bæ. Hann er vissulega lítill á kínverskum mælikvarða, 300.000 íbúar. Það vakti alltaf mikla lukku þegar ég sagði fólki að Íslendingar væru jafn margir.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Við dvöl erlendis venst maður yfirleitt öllu mjög hratt. Samskipti voru samt alltaf eitthvað sem ég þurfti að leggja mig fram við að venjast, ég átti erfitt með að skilja samstarfskonu mína sem vildi ekki taka jafnan þátt og samstarfsmaður minn í verkefni, af ótta að hún tæki fram fyrir hendurnar á manninum. Það sem mér þótti kannski óvenjulegast í mínu daglega lífi í Yangshuo og átti mjög erfitt að venjast var einstaklega há tónlist af öllum skemmtistöðum í bænum. Bærinn er mjög lítill og göturnar þröngar, en allir barir og skemmtistaðir voru í stöðugri samkeppni um hver gæti spilað tónlistina hærra. Það var aldrei viðræðuhæft úti á götunum við skemmtistaðina. Á sama hátt dvaldist ég á gresjunum í Innri Mongólíu í nokkra daga í yurtu (mongólskum hringlaga tjöldum). Þetta var þorp af yurtum þar sem við dvöldumst með um 50 skólakrökkum. Á hverjum morgni, klukkan 6, kveiktu stjórnendur svæðisins á kínverskri popptónlist, jafn hátt og ef um skemmtistað væri að ræða. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir á meðan á dvöl okkar stóð, fengust stjórnendur ekki af þessari venju.


Við þökkum Védísi kærlega fyrir skemmtileg svör og vonum að hún fái að gæða sér aftur á leirpottréttunum góðu við tækifæri.