Viðtal við Andreu Líf Ægisdóttur

- ferðalag sem gjörbreytti lífi mínu

Fyrsti og alls ekki síðasti spordreki ferðarinnar

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég hef alltaf verið með mikla ferðabólu en af einhverjum ástæðum var Asía alltaf neðst á listanum mínum. Það breyttist fljótt haustið 2011 þegar pabbi minn fékk tækifæri til að fara sem skiptinemi til Shanghai í hálft ár (Það var þá seinasta önnin hans í MBA námi við HR). Þarna vissi ég að pabbi minn væri að fara upplifa eitthvað nýtt og spennandi svo það spratt upp svolítil afbrýðisemi í mér. Þremur vikum seinna var ég flogin til Peking.

Planið var að ferðast í gegnum Kína á einum til tveimur mánuðum og eyða síðan þrem til fjórum mánuðum í Suð-Austur Asíu. Ég vissi ekki þá að þetta ferðalag átti eftir að gjörbreyta lífi mínu.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Fyrstu þrjár til fjórar vikurnar var ég bara á bakpokaferðalagi. Eftir að hafa verið ein á ferð í nokkrar vikur hugsaði ég að það væri kannski góð hugmynd að stoppa í Shanghai í nokkrar vikur og taka “crash course” í kínversku til að hjálpa mér að komast á milli staða. Þetta var fullkomið þar sem pabbi minn var í Shanghai á þessum tíma, svo ég bjó hjá honum á meðan á námskeiðinu stóð. Námskeiðið gekk vel en eftir að pabbi kláraði námið sitt í desember 2011 ákvað ég að halda ferðalaginu áfram. Ferðalagið entist þó ekki lengi því ég fann fljótt annan tungumálaskóla í Haikou, höfuðborg Hainan eyju. Þar eyddi ég alls rúmum níu mánuðum.

Áður en ég vissi af hafði eins til tveggja mánaða ferð um Kína breyst í alls um þrettán mánaða dvöl í landinu.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég byrjaði ferðalagið í Peking og eyddi heilum tíu dögum þar, enda heill hellingur að gera og sjá í Peking. Þaðan fór ég til Xi'an að skoða Terracotta herinn og í kínverskt brúðkaup, sem var ÆÐI! Síðan lá leiðin í gegnum Chengdu að heimsækja pöndurnar og borða góðan mat.

Og jú auðvitað Tíbet. Þangað fór ég í átta daga skipulagða ferð þar sem við eyddum þrem dögum í Lhasa og keyrðum síðan í gegnum Himalayafjöllin að rótum Everestfjalls og til baka. Ég myndi segja að Tíbet sé eftirminnilegasti staður sem ég fór til á þessu ferðalagi þó allir staðir sem ég kom til hafi haft sín sérstöku einkenni og verið heillandi á sinn hátt.

Áður en ég hóf kínverskunámið í Shanghai skaust ég í fjögurra daga ferð til Norður Kóreu ásamt foreldrum mínum sem var engu líkt. En það er nú saga útaf fyrir sig!

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Þegar ég hugsa til baka eru það þrír hlutir sem standa upp úr við dvöl mína í Kína. Það fyrsta er ferðin sem ég fór í til Tíbet. Næst kemur brúðkaup sem mér var boðið í í Xi'an og síðast en alls ekki síst sjálfboðaliðastarf sem ég fór í ásamt nokkrum vinum mínum úr háskólanum í Hainan. Þarna vorum við send í heimsókn í lítinn grunnskóla í sveitinni í Hainan til að kenna krökkunum þar svolitla ensku og hvetja þau til að vera dugleg að læra hana.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Best þótti mér götumaturinn. Kínversk götugrill og annað snarl sem hægt var að kaupa á ferðinni eins og roujiamo (肉夹馍), jianbing (煎饼) og bestu eftirréttir allra tíma að mínu mati, chaobing (炒冰) og qingbuliang (清补凉) sem er sérstaktur Hainan réttur skilst mér.

Ég held að áhugaverðasta máltíðin sem ég hafi fengið hafi verið í Lhasa í Tíbet. Þar fór ég út að borða með kínverskri stelpu sem ég kynntist í lestinni á leiðinni til Lhasa og fólki sem hún hafði kynnst á hótelinu sínu. Þar sem ég var eini útlendingurinn í hópnum ákváðu þau að panta ótal skemmtilega rétti. Þar á meðal voru uxatungur, lambalungu og kúamagar.

Annað skemmtilegt sem ég smakkaði voru kjúklingalappir, sporðdrekar, snákahjörtu og andaheilar.

Ég man ekki eftir að hafa smakkað neitt vont þó margt af því sem ég borðaði hafi ekki litið neitt sérstaklega vel út... Jú, kjúklingalappirnar. Þær voru frekar ógeðslegar.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Fyrsti dagurinn í Peking var einhver erfiðasti dagur lífs míns. Það kom mér ótrúlega á óvart hversu erfitt það var að finna enskumælandi fólk í höfuðborg Kína. Enginn gat bent mér á hvert ég ætti að fara og leigubílar vildu ekki stoppa fyrir mér. Á einum tímapunkti settist ég á gangstéttarbrúnina og hugsaði „Hvað er ég að gera hérna? Mig langar heim!“

Ég komst þó loksins á leiðarenda og ákvað að fara aldrei neitt án þess að vera með kort við hendina og vita 100% hvert ég væri að fara. Á jákvæðu nótunum þá gerði þessi dagur mig að sjálfstæðari og skipulagðari manneskju.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Lítil börn í kloflausum buxum og það að börnin séu látin pissa hvar sem er. Eftir smá tíma í Kína var ég svosem orðin vön því en ég gleymi því ALDREI þegar ég var í 48 klst. lest frá Lhasa til Peking og kona í neðstu kojunni hélt á barninu sínu og lét það pissa á gólfið í lestarklefanum okkar og enginn kippti sér upp við það. Ég var algjörlega orðlaus!

Við þökkum Andreu Líf kærlega fyrir skemmtilega frásögn og tökum að ofan fyrir matarhugrekki hennar.

Yamdrok lake í Tibet

Einn af bekkjunum sem ég heimsótti í sjálfboðaliðastarfinu

Stutt hvíld tekin á Kínamúrnum

Everest fjall í bakgrunni. Það var svo kalt að ég gekk um í svefnpokanum mínum

Útsýnið á leiðinni frá Lhasa að Everest fjalli. Himalaya fjallgarðurinn í bakgrunni.