Viðtal við Gísla Hvanndal

- Fjórir mánuðir urðu að fjórum árum

Í Forboðnu borginni

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég endaði í Kína fyrir hálfgerða tilviljun. Í byrjun árs 2008 var mér farið að leiðast það sem ég var að gera þá stundina og fór því að kenna íslensku sem annað mál, enda var mikið af fólki nýkomið til landsins á þeim tíma. Ég var því kominn með smá reynslu þegar staða íslenskukennara í Kína var auglýst síðar sama ár. Ég hafði ekki miklar væntingar, en hugsaði að það væru nú kannski ekki svo margir sem myndu sækja um „láglaunastarf“ í Kína með þriggja mánaða fyrirvara. Það reyndist rétt og um haustið var ég á leið til ólympíuborgarinnar Beijing. Frægð Íslands í Kína var því ekki lengur á neikvæðum forsendum Bjarkar þegar ég lenti, heldur handboltasilfursins, en það átti ekki eftir að vara lengi með bankahrun og dramatíska ræðu Geirs H. Haarde handan við hornið.

2. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Ég áttaði mig á því um leið og ég kom til Beijing að ég hafði ómeðvitað ímyndað mér borgina miklu grárri og sovéskari heldur en hún er í raun. Svo ferðaðist ég nokkuð næstu misserin og það var ekki fyrr en ári seinna, þegar ég kom til Hong Kong, að ég sá klassíska Kínað sem var greypt einhvers staðar djúpt í hugann eftir áhrifaríkt kvikmyndaáhorf í barnæsku.

3. Hvað brallaðir þú þar?

Upphaflega stóð til að ég færi í fjóra mánuði, hugsanlega eitt ár. Á endanum hafði ég verið í fjögur ár og kennt sama 16 manna bekknum íslensku allan tímann. Ég reyndi þó að gera eitthvað annað en að liggja yfir íslensku beygingarkerfi og gerði m.a. mitt besta til að læra kínversku með hjálp nýjustu tækni og vinsamlegra Kínverja, æfa taiji undir handleiðslu tíbesks munks og þýða alls kyns kínverskt kennsluefni á íslensku. Þá vann ég einnig í nokkra mánuði í íslenska skálanum á heimssýningunni í Shanghai, þar sem nemendur mínir unnu allir áður en þeir héldu til Íslands í skiptinám. Það var frábær tilbreyting frá bókum og Beijing að taka á móti 12.000 gestum á dag, vinna í alþjóðlegu umhverfi í bókstaflegustu merkingu þess orðs og upplifa Shanghai og nærsveitir í frítímanum með allra þjóða vinum.

4. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég komst snemma að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að tíma og fjármunum yrði betur varið í ferðalög innan Kína frekar en að ferðast til nágrannalandanna – með djúpri virðingu fyrir þeim. Kína er einfaldlega heill heimur sem rúmar endalausa fjölbreytni í náttúru og mannlífi. Og jafnvel þó að það geti verið flókið að ferðast á eigin vegum þá enda öll vandræði á því að einhver vinsamlegur heimamaður hjálpar manni að komast á leiðarenda eða býður manni í heimsókn. Ég ferðaðist til flestra héraða í Kína og lagði meira upp úr því að kynnast fólki og sjá Kína eins og það er í dag, heldur en að taka myndir af endurgerðum söguminjum í mannþröng. En að því sögðu má auðvitað finna margar af merkustu söguminjum heims í Kína og ef maður fer á rétta staði þegar fáir eru á ferli er upplifunin engri lík. Dæmi um slíka upplifun var að ganga á Kínamúrnum í heilan dag án þess að rekast á manneskju, vappa á milli manngerðu hellanna rétt hjá Datong (Yúngāng Shíkū), skoða múmíurnar í Xinjiang, rekast á tilbeiðslu- og fórnarstað á frumskógarfjallstoppi í Yunnan...

Áhugaverðast þótti mér einmitt að ferðast til jaðarsvæða, sérstaklega Xinjiang og landamærasvæða í Yunnan, þar sem Kína mætir nágrannalöndunum í skemmtilegum menningarlegum suðupotti. Ég sá því miður minna af Xinjiang en ég ætlaði mér, þar sem allt sauð upp úr rétt eftir að ég kom þangað. Ég fór tvisvar til Yunnan og flakkaði á milli þorpa við landamæri Mjanmar með hollenskum vini mínum, Antoni Lustig, í leit að heppilegum stað fyrir kennslu- og félagsmiðstöð sem hann dreymdi um að reisa dag einn. Draumurinn varð að veruleika, miðstöðin stendur nú virðuleg í fjallshlíð og starfsemin er í fullum blóma. Ég nota því tækifærið og bendi ævintýragjörnum og barngóðum mannvinum á að þar eru allir velkomnir að leggja sitt af mörkum í að byggja upp sterka æsku á svæði þar sem fátækt og eiturlyfjaflæði frá Mjanmar skapar mikil félagsleg vandamál. Samtökin heita Prop Roots og þau má finna á Facebook og víðar.

5. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ég held mig bara á svipuðum nótum, enda fylgdi mesta spennan fyrstu mánuðunum. Í Yunnan-ferð eftir fyrstu önn hófum við, tveir bleiknefjar, flakk okkar á tveimur jafnfljótum og puttanum, því næst með nokkra yunnanska bændur og farandkennara með í för, á allskonar farartækjum. Einn þeirra tók ekkert með sér í nokkurra daga ferðalag annað en flösku með búrmísku jurtaseyði. Ég gaf honum sixpensara og leyfði honum að hlusta á Fela Kuti þar til batteríin í i-podnum voru búin. Það var eitt af fjölmörgum og fallegum við-erum-öll-eitt-augnablikum sem ég upplifði í Kína, þar sem tungumálinu sleppti og bros og sameiginleg mennska var hinn fullkomni tjáskiptamáti.

Sama mætti segja um búrmísku flóttafjölskylduna sem tók ástfóstri við mig á vorhátíð héraðsins (Munao-hátíðinni), gaf mér skartgripi og pönnukökur. Stelpan reyndist svo vilja giftast mér og flytja með mér til Pakistan, þar sem okkar biði verslunarbás. Ég hitti þau aftur fyrir tilviljun í nálægum bæ og kynntist fleiri fjölskyldumeðlimum en ekkert varð af brúðkaupsplönum.

6. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Það er eiginlega algjör óþarfi að yfirgefa Yunnan í þessu viðtali. Trjásveppirnir í Dalí voru jafn skelfilega góðir og þeir voru dýrir. Hið sama má segja um allan matinn á góðum Dalí-stað í Houhai í Beijing, en allnokkrir Íslendingar sem heimsóttu Beijing kynntust þeim stað og um leið nýjum víddum í kínverskri matargerð. Þá var heimabruggaða vínið hjá bændunum í Yunnan það allra besta sem ég drakk af kínverskum spíra. Drykkjan hófst vanalega með morgunmatnum eftir kaldar nætur og ágerðist svo eftir því sem leið á daginn. Það var því viðeigandi að ég flaug beint til Hainan eftir fyrstu Yunnan-ferðina, þar sem ég dvaldi á hóteli sem var sérstaklega sniðið að þörfum og vexti ríkra Rússa, sem vöppuðu um gangana eins og mörgæsir í litlum, hvítum sloppum og stórri, svartri þynnku.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Fyrsta upplifun mín af salernisaðstöðunni á fyrrnefndri vorhátíð var einstök: fjórir hlaðnir veggir undir berum himni, með opi til að labba inn, holum til að sitja yfir og að sjálfsögðu voru engin skilrúm á milli. Yfir holunum húktu kínverskir karlmenn í alls kyns hátíðarbúningum í skærum litum – og ég. Við skiptumst á frumstæðari hljóðum en þeim sem nefnast víst hljóðön og mynda svokölluð orð, en samt ríkti sameiginlegur skilningur okkar á milli. Þórbergur Þórðarson átti enn eftir að fara til fyrirheitna landsins og upplifa andlegt setusamfélag við meðbræður sína þegar hann skrifaði Bréf til Láru: „Ég settist niður í skógarrunn og skeit. Á setum sínum kemst maður í andlegt samfélag við náttúruna.“ Ég viðurkenni reyndar fúslega að hafa kosið skógarrunnann það sem eftir lifði hátíðar.

Við þökkum Gísla fyrir sérlega skemmtilega frásögn af reynslu sinni í Kína og hvetjum fólk sem heldur til Yunnan héraðs að líta við hjá kennslu- og félagsmiðstöðinni Prop Roots.

Íslenskuhópurinn fyrir utan kennslustofuna á fyrsta kennsluári (2009), ásamt Gunnari Snorra Gunnarssyni (þáverandi sendiherra Íslands í Kína)

Seiðkarlar á Munao-hátíð Jingpo-þjóðarbrotsins í Yunnan.