Fleiri Pistlar

Saga kínversku díasporunnar

Hér er fjallað um fólksflutninga Kínverja um víða veröld sem á sér langa og mjög áhugaverða sögu. Orðið díaspora kemur úr grísku þar sem það merkir „að dreifa og sá“. Upprunalega var orðið notað um tvístrun Gyðinga er þeir settust að utan Palestínu í kjölfar útlegðar þeirra frá Babýlóníu 586 f.Kr. Síðar varð hugtakið notað um átakanlegar hrakningar þeirra víða um heim. Núorðið nær hugtakið einnig til annarra fjöldaflutninga fólks jafnvel þegar fólk flytur af fúsum vilja eins og margar milljónir Kínverja hafa gert (Ember et al. 2005: formáli).

Fólksflutningar Kínverja út fyrir landsteina Kína eiga sér margra alda langa sögu sem að mestu byggir á miklum hremmingum heima fyrir. Stríðsátök og hungursneyðir hvöttu fólk til að leita nýrra tækifæra erlendis. Flestir hafa haldið til annarra landa innan Asíu þar sem um 90% kínverskra innflytjenda og afkomendur þeirra hafa fest rætur. Kínverskir innflytjendur freistuðu einnig gæfunnar í löndum utan Asíu þegar mikil eftirspurn varð eftir ódýru vinnuafli hjá nýlenduþjóðum í kjölfar afnáms þrælahalds um miðja 19.öld. Þrátt fyrir að þeir hafi þá tekið að streyma til landa Norður- og Suður Ameríku, Eyjaálfu og Evrópu var það ekki fyrr en tiltölulega nýlega að þeir tóku að setjast að hérlendis.

Sögu fólksflutninga Kínverja til annarra ríkja má skipta í fjögur tímabil. Fyrsta tímabilið nær frá fornöld, fyrir tvö til þrjú þúsund árum síðan, og fram á mitt tímabil Qing-veldisins á 18.öld. Á þessu tímabili voru fólksflutningar Kínverja fyrst og fremst til annarra Asíulanda sérstaklega í Suð-Austur Asíu (Poston 1990:481). Kínverjar höfðu í aldanna rás stundað viðskipti á þessum svæðum en á 13.öld náðu Mongólar yfirráðum í Kína og flúðu þá margir Kínverjar til Japan, Kambódíu og Víetnam. Enn fleiri kínverskar viðskiptanýlendur spruttu upp næstu aldirnar í Kambódíu, Tælandi, á Jövu, Súmötru, Singapúr og á Filippseyjum (Chaliand 1995:125).

Annað tímabilið nær frá hnignunartímabili Qing-veldisins á 19.öld fram yfir lýðveldistíma Kína seint á fimmta áratug 20.aldar. Þá fluttust Kínverjar um víða veröld, að mestum hluta sem verkamenn „coolie“1 bransans (Poston 1990). Eftir ósigrana í ópíumstríðunum 1840-1842 stóð Kína opið fyrir breskum viðskiptum sérstaklega um borgirnar Guangzhou (Canton), Xiamen (Amoy) og Shanghai. Þetta voru erfiðir tímar í Kína. Mikið var um hungursneyðir og styrjaldir, svo sem Taiping uppreisnina 1850-1864 sem er eitt mannskæðasta stríð sögunnar með um 20 milljón dauðsföll. Margir ákváðu að freista gæfunnar innan breska heimsveldisins og er talið að á árunum 1845-1900 hafi um 400 þúsund Kínverjar flust til Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands. Á svipuðum tíma fluttist um 1,5 milljón Kínverja til Indónesíu, Taílands, Víetnam, Malasíu og Singapúr. Jafnframt freistuðu um 400 þúsund Kínverjar nýrra tækifæra á Vestur-Indía eyjum og í Suður-Ameríku, einkum á Kúbu, í Perú og Chile. Á árunum 1842-1900 yfirgáfu því Kína um 2,3 milljónir manna í leit að betra lífi (Chaliand 1995:126,130).

Þrælahald hafði verið afnumið á yfirráðasvæðum nýlenduþjóða og því mikil eftirspurn eftir ódýru vinnuafli. Samningar um fólksflutninga voru gerðir á milli Kína og þjóða er sóttust eftir vinnuafli, s.s. Breta, Frakka, Spánverja, Perúbúa og Bandaríkjamanna. Fjöldi umboðsaðila er sáu um fólksflutninga tóku til starfa í Guangzhou í samstarfi við kínversk yfirvöld. Stærstur hluti þeirra er fóru voru frá suðurhluta Kína, Kanton og Fujian fylkjum. Kínversku verkamennirnir skrifuðu undir láglaunasamninga til nokkurra ára þar sem þeir þurftu að endurgreiða dýra farmiða sína nema þeir sem haft höfðu tök á því að greiða farið sjálfir. Þetta voru að stærstum hluta karlmenn sem fengu ýmis konar erfiðisvinnu í landbúnaði, námugreftri, m.a. á tímum gullæðisins í Bandaríkjunum, og byggingariðnaði svo sem við lögn járnbrautarteina í Norður-Ameríku.

Víða myndaðist mikil andstaða gegn Kínverjum vegna mikils fjölda þeirra, óvenjulegs útlits, siða og tungumála er þóttu skrýtin og gífurlegrar vinnusemi þrátt fyrir lágt kaup. Í mörgum löndum var Kínverjum mismunað með lögum, t.d. í Bandaríkjunum þar sem þeir voru neyddir til að búa í sérstökum hverfum við slæman aðbúnað, fengu ekki aðgang að menntun, var bannað að gerast bandarískir ríkisborgarar og á endanum bannað að flytjast til landsins með and-kínverskri lagasetningu 1882 (Spence 1999:211), hinnu einu sinnar tegundar sem Bandaríkjamenn beindu að tiltekinni þjóð. Ofbeldi gegn Kínverjum var algengt, sérstaklega af hendi hvítra verkamanna sem sáu Kínverjana sem samkeppnisaðila er rýrðu kjör þeirra með því að sætta sig við lægri laun (Boswell 1986:353,356).

Ýmsum ráðum var beitt til að fá kínverska verkamenn. Lygar og blekkingar voru algengar og fólki jafnvel rænt, það flutt gegn vilja sínum og síðan selt á uppboðum á Kúbu og í Perú. Siglingaleiðirnar tóku mislangan tíma eftir áfangastað og tók t.d. 60-85 daga að komast til Ástralíu, 70-120 daga að komast til Kaliforníu, Hawaii og Perú en allt að 147-168 daga að komast til Vestur-Indía þar sem siglt var fyrir Góðrarvonarhöfða Suður-Afríku. Aðstæður í skipum voru almennt hræðilegar og algengt að um 12-25% verkamannanna létust á leiðinni (Chaliand 1995:126-129).

Þriðja tímabil fólksflutninga telur fyrstu þrjá áratugi hins nýja kommúnistaríkis Alþýðulýðveldisins Kína, þ.e. frá lokum fimmta áratugarins til seinni hluta áttunda áratugarins. Á þessum tíma voru ströng höft á búferlaflutningum frá meginlandinu. Lítið var um löglega fólksflutninga á þeim tíma (Poston 1990:481) en þó ber að nefna um tólf þúsund námsmenn er sendir voru af kínverskum yfirvöldum til 29 landa á spennutímum kalda stríðsins 1950-1965. Langflestir fóru til Sovétríkjanna en einnig fóru námsmenn til annarra kommúnistaríkja, s.s. Ungverjalands, Tékkóslóvakíu, Póllands, Júgóslavíu, Norður-Kóreu og Kúbu. Nánast allir sneru aftur að námi loknu. Hlé varð á slíkum námsdvölum vegna upphafs menningarbyltingarinnar 1966 en hófust þær aftur 1972 í mun minna mæli en áður. Þegar Deng Xiaoping, sem sjálfur hafði reynslu af námi í Frakklandi og Sovétríkjunum, komst til valda í Kína 1977 var ákveðið að senda stóra hópa námsmanna erlendis sem lið í umbótaaðgerðum í efnahagsmálum landsins (Cheng 2002:158-159).

Fjórða tímabil fólksflutninga Kínverja nær frá upphafi opnunarstefnu Kína um 1978 og fram á okkar daga (Poston 1990:481). Kína skorti menntafólk eftir menningarbyltinguna og voru um sex þúsund námsmenn valdir og sendir til Kanada, Bretlands, Frakklands, Japans, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Bandaríkjanna á fyrstu árum opnunarstefnunnar. Ríkisstjórnin slakaði á stjórn og eftirliti með kínverskum nemum á eigin vegum sem leiddi til sprengingar í fjölda námsmanna er héldu erlendis. Allar götur síðan hefur nám verið ein vinsælasta leiðin til þess að flytjast til annarra landa. Samkvæmt upplýsingum kínverska menntamálaráðuneytisins sem gefnar voru út árið 1999 hafa um 320 þúsund námsmenn haldið utan frá árinu 1979 og þar af um 100 þúsund snúið aftur (Cheng 2002:158-159). Búast má við að þessar tölur hafi vaxið mikið á þeim 15 árum sem síðan eru liðin.

Kínversk yfirvöld bönnuðu tvöfaldan ríkisborgararétt þegna sinna 1980 svo allir Kínverjar sem öðlast ríkisborgararétt í aðseturslandi sínu glata þeim kínverska. Kínversku hugtökin hua ren (华人) og hua qiao (华侨) endurspegla þessa skiptingu Kínverja búsettra erlendis þar sem hua ren eru allir Kínverjar sem hlotið hafa nýtt ríkisfang en hua qiao þeir sem haldið hafa kínversku ríkisfangi sínu. Þegar talað eru um Kínverja utan heimalandsins (e. Overseas Chinese) er yfirleitt átt við alla Kínverja búsetta erlendis óháð ríkisfangi og jafnframt seinni kynslóðir innflytjenda af kínverskum uppruna (Poston 1990:482-483). Fjölgun Kínverja utan heimalands síns var nokkuð stöðug á tímabilinu 1948-1983, með árlega aukningu að meðaltali um 3% þar sem mest aukning varð í Evrópu og N- og S-Ameríku (Poston 1990:495,503). Snemma á níunda áratugnum er talið að Kínverjar utan heimalandsins hafi verið um 26,8-27,5 milljónir talsins. Áætlað er að 2,5 milljónir hafi verið búsettar utan Asíu 1980, flestir í N- og S-Ameríku (Poston 1990:485).

Undir lok 20. aldar var fjöldi Kínverja utan heimalandsins kominn upp í 33 milljónir ef ekki eru taldir þeir sem bjuggu í Taívan og Hong Kong (Skeldon 2011). Ef litið er á dreifingu þeirra í dag má sjá að enn eru langflestir búsettir í Suð-Austur Asíu. Í flestum tilvikum eru þeir minnihlutahópar í aðseturslöndum sínum nema í Singapúr þar sem hlutfall þeirra hefur lengi verið um 75% íbúa (The World Factbook 2012). Í Malasíu eru þeir tæpur fjórðungur íbúa (ibid.), í Tælandi eru þeir um 14% íbúa (ibid.) en í öðrum aðseturslöndum mun minna hlutfall. Í Indónesíu, sem hefur hvað mestan fjölda Kínverja, eru Indónesar af kínverskum uppruna um 8,8 milljón manna eða 3,7% þjóðarinnar („Racism remains for Chinese-Indonesians“ 2012). Á Filippseyjum eru hugsanlega allt að 20% íbúa af kínversku ætterni þótt þeir hafi blandast við aðra íbúa en um 2 milljónir kínverskra innflytjenda búa þar nú („Chinese lunar new year might become national holiday in Philippines too“ 2009).

Talsverð aukning hefur orðið í löndum Afríku þar sem um 750 þúsund Kínverjar voru búsettir árið 2007 að sögn kínversku fréttastofunnar Xinhua (French et al. 2007). Samkvæmt upplýsingum kínverska dagblaðsins China Daily náði fjöldi Kínverja utan heimalandsins 45 milljónum árið 2010 (Jia 2010).

Kínverjar eru fjölmennasta þjóð heims og kínverska er á meðal útbreiddustu tungumála jarðar. Með sífellt auknu vægi Kína á alþjóðavettvangi verður þekking á sögu, menningu og tungumáli þessa stórveldis æ gagnlegri.

Neðanmálsgrein:

1 Coolie er enskt hugtak sem vísaði til ólærðra indverskra og kínverskra verkamanna er lifðu við kröpp kjör og mikið vinnuálag. Hugtakið varð líka notað í kínversku 苦力 [kǔlì] sem þýða má sem bitra erfiðisvinnu. Uppruni orðins er úr hindí, kūlī, þar sem það merkir dagverkamaður, líklega tengt úrdíska orðinu ḳulī sem þýðir þræll (Dictionary, version 1.0.2. 2005).

  • Höfundur er með BA gráðu í almennum málvísindum og kínverskum fræðum.

Heimildaskrá Boswell, T. E. (1986) „A Split Labor Market Analysis of Discrimination Against Chinese Immigrants, 1850-1882“. American Sociological Review , 51 (3), 352-371. Sótt 3. maí 2012 af gagnasafninu JSTOR.

Chaliand, G. og Rageau, J.P. (1995). The Penguin Atlas of Diasporas. Þýð. A.M. Barret. Harmondsworth, Middlesex, England: Penguin Books Ltd.

Cheng, Xi. (2002). „Non-Remaining and Non-Returning: The Mainland Chinese Students in Japan and Europe since the 1970s“. P. Nyiri og I. Saveliev (ritstjórar). Globalizing Chinese Migration: Trends in Europe and Asia (bls. 158-172). Hampshire: Ashgate Publishing Company.

„Chinese lunar new year might become national holiday in Philippines too“ (2009, 23. ágúst). Xinhua News Agency. Sótt 24.apríl 2012 af http://news.xinhuanet.com/english/2009-08/23/content_11930729.htm

Ember, M., C.R. Ember og I. Skoggard (ritstjórar) (2005). Encyclopedia of Diasporas: Immigrant and Refugee Cultures Around the World. Volume I: Overviews and Topics; Volume II: Diaspora Communities. London: Springer

French, H.W. og Lydia Polgreen. (2007, 17.júní). „Chinese flocking in numbers to a new frontier: Africa“. The New York Times. Sótt 24. apríl 2012 af http://www.nytimes.com/2007/08/17/ world/africa/17iht-malawi.3.7159493.html?pagewanted=1&_r=1

Jia, Xu. (2010, 17. júní). „Overseas Chinese top the world at 45 million“ China Daily. Sótt 30. apríl 2012 af http://www.chinadaily.com.cn/china/2010-06/17/content_9983911.htm

Poston, D. L. og M.Y. Yu, Jr. (1990). „The Distribution of the Overseas Chinese on the Contemporary World“. Interntational Migration Review, 24 (3), 480-508. Sótt 25.apríl 2012 af gagnasafninu JSTOR.

„Racism remains for Chinese - Indonesians“ (2012, 22. janúar). The Jakarta Post. Sótt 25.apríl 2012 af http://www.thejakartapost.com/news/2012/01/22/racism-remains-chinese-indonesians.html

Skeldon, Ronald (2011) „China: An Emerging Destination for Economic Migration.“ Sótt 24. apríl 2012 af http://www.migrationinformation.org/feature/print.cfm?ID=838

Spence, J.D. (1999). The Search for Modern China (2. útgáfa). New York: W.W. Norton and Company.

The World Factbook (2012). Washington, DC: Central Intelligence Agency. Sótt 25. apríl 2012 af https://www.cia.gov/library/publications/the-world-factbook/index.html

Sjá Fleiri Pistla