Fleiri Pistlar

Ningbo - hinar „kyrrlátu öldur“

Samband Íslands við Austurlönd, og þá einkum Kína, hefur tekið stökkbreytingum á síðasta áratug. Áhugi kínverskra fjárfesta á Íslandi hefur verið í brennidepli og fjöldi kínverskra ferðamanna til landsins hefur stóraukist. Ekki er langt síðan aðeins nokkrir tugir kínverskra ferðamanna sóttu Ísland heim ár hvert, en árið 2010 voru þeir í kringum 5000 og í fyrra um 7000. Íslendingar ferðast líka í auknum mæli til þessa fjölmennasta ríkis jarðar.

Eins og kunnugt er hafa kínverskir fjárfestar gert umdeild kauptilboð í íslenskar jarðir og í apríl 2013 undirrituðu ríkisstjórnir Íslands og Kína fríverslunarsamning. Með opnun Norðurheimskautasvæðisins munu samskipti Íslands og Kína verða enn mikilvægari.

Það eru ekki aðeins íslenskir ferðalangar sem sækja í auknum mæli til Kína. Á seinustu 5 árum hafa sífellt fleiri íslenskir námsmenn lagt stund á nám í Kína.

Í Zhejiang héraði í miðausturhluta Kína, um 220 km suður af Shanghai, er hafnarborgin Ningbo, sem átt hefur virkt og mikið samstarf við Háskóla Íslands, sem og aðra erlenda háskóla. Yfir 20 íslenskir háskólanemar hafa stundað nám við Ningbo háskóla undanfarin misseri.

Rúmlega sjö og hálf milljón manns búa í Ningbo, sem er ein af elstu borgum í Kína og rekur sögu sína alla leið aftur til u.þ.b. 4800 f.kr. Hún er fjórða stærsta hafnarborg í heimi og er sem slík mikilvæg miðstöð viðskipta og verslunar, en borgin á sér einnig stórmerkilega menningarsögu.

Loftslagið í Ningbo er heittemprað og getur hitinn farið allt upp í 40 stig en sjávarvindar Austurkínahafs kæla þó borgarbúa ásamt norðanblæ innan af Hangzhou flóa. Þrátt fyrir stærð og staðsetningu er Ningbo næstum óþekkt meðal Íslendinga og flestra Vesturlandabúa og margir segja að borgin sé eitt best geymda leyndarmál Austurlandafara.

Frá Shanghai er þriggja klukkustunda akstur yfir Hangzhou-flóann til Ningbo. Leiðin liggur yfir hina frægu Hangzhou-flóabrú, sem var byggð árið 2007. Brúin er 35 km löng og ein af tíu lengstu brúm heims. Þeim sem liggur á, geta tekið nýju hraðlestina sem opnaði sumarið 2013 og þannig stytt ferðatímann um helming.

„Ningbo“ þýðir „kyrrlátar öldur“ og þegar í borgina er komið er nafngiftin auðskilin. Ningbo er stórborg og hafnarborg, en miðað við aðrar stórborgir í Kína eins og Peking, Shanghai og Guangzhou, telst Ningbo „rólegheita“borg. Flestum Íslendingum – og jafnvel flestum Evrópubúum – þætti þó sennilega nóg um að vera.

Ningbo á sér margra þúsund ára sögu. Borgin var áður kölluð Mingzhou og var afar mikilvæg viðskipta- og vöruflutningamiðstöð á tímum keisaraveldanna. Ningbo var liður í hinni frægu „silkileið“ fyrir um tvö þúsund árum og á gullöld Kínverja, á tímum Tang keisaraveldisins, var borgin mikilvæg miðstöð milliríkjaverslunar og bjuggu þar margir kaupmenn frá Arabaríkjum.

Samskipti Ningbo við útlendinga hafa þó ekki alltaf verið góð. Eftir að Portúgalar ruddu sér leið inn í kínverskt viðskiptalíf á 16. öld beittu þeir íbúa borgarinnar hræðilegu ofbeldi. Þeir fóru rænandi og ruplandi um borgina og nágrannasvæði og neyddu fólk í þrælahald. Þegar nokkur ár voru liðin fengu Kínverjar nóg og hefndu þessara illskuverka með líku og útrýmdu næstum öllum Portúgölum í Ningbo. Kínverski keisarinn á þessum tíma lýsti alla Portúgala réttdræpa. Þeir Portúgalar sem eftir voru flúðu til Macao og byggðu þar nýlendu, sem var í eigu Portúgala til ársins 1999.

Þegar samskipti milli Kína og Japans voru bönnuð var Ningbo eina kínverska borgin þar sem samskipti ríkjanna voru leyfileg. Japanir reistu þá sendiráð sitt í Ningbo og var borgin fyrsti áfangaðstaður Japana áður en haldið var lengra inn í landið. Þegar fyrra ópíumstríðinu lauk með sigri Breta árið 1842 varð Ningbo ein af fimm hafnarborgum sem tilheyrðu áhrihrifasvæðum bresku krúnunnar og var borgin á þeim tíma miðstöð iðnaðar og handverksmanna. Í Ningbo ríkti einnig trúfrelsi og var þar aðsetur fyrir múslíma, gyðinga og kristna menn. Enn í dag er umburðarlyndi hluti af sjarma Ningbo og í miðbænum eru tvær kirkjur – ein á Tianyi miðbæjartorginu og önnur kaþólsk í útlendingahverfinu við Yu ána.

Í Ningbo er að finna eitt elsta bókasafn í Kína, Tian Yi Ge bókasafnið, sem er elsta einkarekna bókasafn í allri Asíu. Bókasafnið var byggt árið 1561 af Fan Qin, sem var frægur stjórnmálamaður og bókasafnsfræðingur á tíma Ming keisaraveldisins. Árið 1982 lýsti kínverska ríkisstjórnin Tian Yi Ge bókasafnið eitt af þjóðargersemum Kína. Bókasafnið geymir yfir 30,000 rit sem Qin fjölskyldan safnaði í yfir 13 kynslóðir, þ.á.m. klassísk konfúsíanísk rit og ómetanleg rit allt frá 11. öld. Safnið er einn af vinsælustu ferðamannastöðum í Ningbo, e.t.v. ekki síst vegna gullfallega garðs þess, sem er hluti af safninu.

Elsta timburbygging í Suður-Kína, Baoguo búddahofið, er einnig staðsett í Ningbo. Elstu hlutar þess voru byggðir árið 1013 e.Kr.

Frá Ningbo er aðeins nokkra klukkutíma akstur til hins stórbrotna fjalls Putuoshan á Zhoushan eyjunni, sem er einnig nefnd Himinn sjávar og konungdómur Búddista. Á mesta blómaskeiði eyjunnar voru þar 82 klaustur og yfir 100 athvörf sem hýstu um 4000 búddamunka og -nunnur.

Íslendingar og íbúar í Ningbo eiga það sameiginlegt að fiskveiðar eru afar mikilvægur hluti af efnahag og atvinnulífi. Eins og Ísland er Ningbo paradís sjávarréttasælkera; á götum borgarinnar eru hundruð veitingastaða sem bjóða upp á ferskasta fiskmeti sem völ er á. En ekki búast við fiski með soðnum kartöflum þegar þú pantar fiskrétt á veitingahúsi í Ningbo. Fiskmetið, sem yfirleitt hefur dvalið í kryddlegi úr ilmandi austurlenskum kryddum og grænmeti – engifer, hvítlauk, pipar, galangal – áður en það er eldað, er heldur ekki skorið við nögl. Skepnan er borin fram í heilu lagi, með haus og hala, til að tryggja að viðskiptavinurinn viti nákvæmlega á hverju hann er að fara að gæða sér.

En Ningbo býður ekki einungis uppá sjávarrétti. Í samanburði við margar borgir innar í landinu, einkennist lífið í Ningbo af meiri velmegun og framþróun og gestir og gangandi geta valið á milli veitingastaða sem bjóða upp á matseðla frá hinum ýmsu heimshornum – allt frá tælenskri, kóreskri, brasilískri eða ítalskri matargerð. Ef menn vilja hafa það fljótlegt og einfalt er auðveldlega (og því miður, segja sumir) hægt að fara á McDonald‘s eða KFC.

Þegar eldhús veitingahúsanna í Ningbo loka eru skemmtistaðir borgarinnar rétt að vakna – mörgum ungum háskólanemum til yndisauka – en næturlíf Ningbo borgar blómstrar ekki síður en veitingahúsin. Ningbo er mjög örugg borg og löggæsla er áberandi í kringum vinsælustu bari og skemmtistaði borgarinnar, líkt og tíðkast á erlendum sólarlandaströndum, en hafa ber í huga að Ningbo hýsir höfuðstöðvar eystri sjávarflota kínverska sjóhersins.

Eitt vinsælasta hverfið í Ningbo, bæði meðal útlendinga og Kínverja, heitir Lao Wai Tan, eða Útlendingaströndin. Þar má finna hina ýmsu vestrænu bari og veitingastaði og fyrir þá sem fá heimþrá til vestursins er þetta hverfi tilvalið. Margir staðirnir eru reknir af útlendingum og halda þeir ýmsa vestræna hátíðisdaga eins og jólin og hrekkjavöku hátíðlega. Þar sem flestir viðskiptafundir og samningaviðræður í Kína eiga sér stað yfir matar- og vínneyslu er þetta hverfi alltaf fjölmennt og mætti stundum halda að hvert kvöld væri laugardagskvöld. Útlendingaströndin er einnig tilvalin fyrir þá sem vilja láta reyna á kínverskukunnáttu sína, þar sem þeir innfæddu sem sækja þessa staði tala oftast ensku og eru mjög spenntir fyrir að kynnast útlendingum.

Borgin er einkar vel staðsett, en til Shanghai og Hangzhou er aðeins nokkurra klukkustunda akstur frá Ningbo. Í Hangzhou er hið heimsfræga stöðuvatn Xī Hú eða “Vesturvatn”. Fjöldi hofa, skrautgarða og eyja prýða vatnið sem er ein mikilvægasta uppspretta andagiftar kínverskra skrúðgarðahönnuða. Vesturvatn var árið 2011 útnefnt sem ein af heimsminjum UNESCO , sem „endurspeglar fullkominn samruna mannkyns og náttúru.“

Í Shanghai er vissulega skemmtilegt að versla og skoða nokkur af hæstu háhýsum heims, en ekki má gleyma verslunartækifærum Ningbo borgar. Gegnt Tianyi torginu er Cheng Hua Miao verslunarmiðstöðin, eða „Búdda markaðurinn,“ sem býður upp á tískufatnað, ódýr sólgleraugu, úr, skófatnað og alls kyns kínverska skrautmuni.

Háskólinn í Ningbo er staðsettur tíu kílómetrum suður af miðborginni og tekur það um 20 mínútur að aka þar á milli. Skólinn var stofnaður árið 1986, og er talinn meðal bestu menntastofnana í Kína. Meðal helstu deilda skólans eru hafrannsóknardeild, lífvísindadeild, upplýsingatækni- og verkfræðideild, siglinga- og samgöngudeild, læknadeild, kennaraháskóli og félagsvísindadeild, svo nokkrar séu taldar. Námsmenn búa á skólavist og er oftast ekki meira en fimm til tíu mínútna gangur milli kennslustofa. Á háskólalóðinni er gata, eins konar „Aðalstræti,“ þar sem finna má fjölmörg veitingahús og verslanir. Við enda götunnar er risastór bygging í himinbláum lit sem hýsir vinsælustu „verslunina“ á háskólalóðinni: markað þar sem hillur og borð svigna undan ferskum ávöxtum og grænmeti – nýtíndu úr jörð eða af trjám – og kjötmeti. Markaðurinn er draumur hins fátæka námsmanns. Til dæmis má kaupa fjórar kjúklingabringur, nokkrar gulrætur, lauka og poka af kartöflum á tæplega þúsund íslenskar krónur. Líkt og í miðbænum er alltaf eitthvað um að vera og markaðurinn getur auðveldlega uppfyllt allar þarfir námsmanna án þess að þeir þurfi nokkurn tíma að yfirgefa skólalóðina.

Ningbo, sem er talin vera hreinasta borg í allri Kína, státar af titlinum „Fyrimyndarborg landsins í umhverfisvernd“ og er stjórnendum háskólans mikilvægt að háskólalóðin og byggingarnar endurspegli þennan metnað borgarinnar. Ningbo státar af fleiri rósum í hnappagötum sínum – fyrir að vera leiðandi í nýsköpun, í uppbyggingu, að vera besta aðsetursborgin, svo nokkur dæmi séu nefnd. Það er ekki að ástæðulausu að árið 2012 var Ningbo á topp tíu listanum yfir vinsælustu ferðamannaborgir í Kína.

Þar sem borgin stækkar ört er verið að byggja umfangsmikið neðanjarðarlestarkerfi, samansett af sex nýjum brautarsporum, sem tengir miðborg Ningbo við sex nærliggjandi borgarhluta. Búist er við að kerfið – Ningbo Metro Plan 2015 – verið fullbyggt innan tveggja ára.

Aðsókn ferðamanna og fyrirtækja, sem vilja stunda viðskipti við og í gegnum borgina hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og er þetta stórkostlega samgönguverkefni aðeins eitt dæmi um um þann metnað sem borgaryfirvöld í Ningbo leggja í að viðhalda og styrkja uppbyggingu borgarinnar.

Ningbo borg var árið 2009 veitt Kínverska gullorðan fyrir að vera bústaður hamingjusömustu íbúa Kínaveldis! Það er því ekki að undra að þeir sem heimsækja þessa einstöku borg, hvort sem er til gamans, náms eða starfa, verða fyrr eða síðar gripnir óviðráðanlegri þrá til að leggja land undir fót og halda á ný til borgar hinna kyrrlátu aldna.

Sjá Fleiri Pistla