Fleiri Pistlar

Fjórar stórkostlegar uppfinningar Kína -四大發明 sida faming

Hin geysilanga kínverska menningarsaga skartar 4 gimsteinum sem Kínverjara sjálfir kalla á sinni tungu 四大發明 – Si Da Fa Ming eða ‚hinar fjórar miklu uppfinningar‘ og eru mikilvægt framlag til heimsmenningarinnar sem Kínverjar eru og mega sannarlega vera stoltir af.

Uppfinningarnar fjórar eru pappírsgerð, prentlistin, áttavitinn og byssupúður og hér í þessari grein verður fjallað stuttlega um hverja fyrir sig.

Pappírsgerð

Þótt saga ritlistar í Kína eigi sér a.m.k. um 4000 ára langa sögu og e.t.v. enn lengri, þá var það ekki fyrr en fremur seint sem byrjað var að nota pappír til að rita á. Framað þeim tíma var notast við bein og skeljar (sjá nánar í fyrri grein Kínverskt ritmál) til að framkvæma og skrá spádóma, en einnig var notast við flata bambus strimla [簡] sem voru mikið notaðir fyrir texta stjórnsýslulegs eðlis og bundnir saman í nokkurskonar bækur (sjá mynd). Svona ritföng voru þó einfaldlega fremur þung og ekki vænleg til mikilli flutninga. Einnig var ritað á silki sem var þó léttara og handhægara en alltof dýrt. Á seinni hluta tíma hinna stríðandi ríkja fór að bera á tilraunum til finna létt og tiltölulega ódýrt efni og var fyrst notast við hamp og plöntur úr nettlufjölskyldunni til þessa en þessi hráefni voru líka full dýr fyrir fjöldaframleiðslu.

Á seinna Han veldistímanum (23-220) var uppi maður að nafni Cai Lun 蔡倫 sem byggði á reynslu fyrirrennara sinna í pappírsgerð og fann upp pappír sem framleiða mátti af berki trjáa og gömlum tuskum og ónýtum fiskinetum. Þetta var í upphafi 2. aldar eftir kristburð. Þessi pappír var bæði ódýr og léttur og barst þessi pappírsgerðar list fljótt um Kóreuskagann til Japan og þaðan um síðir til Evrópu og víðar, en fram á 10. öld notuðust evrópubúar við papýrus sem var fremur viðkvæmur og kálfaskinn til að rita á.

Prentlistin

Bækur eru ein aðalundirstaða framfara mannkyns í tímans rás og mikilvægir burðarstólpar menninga. Því er óumdeilanlegt að prentlistin er ein aðalforsenda hinnar gífurlegu hröðunar framfara sem nokkur undanfarin árhundruð einkennast svo mjög af. Áður en prentlistin var upp fundin var ekki um annað að ræða en handtrit, sem bæði var tímafrekt og dýrt að framleiða og augljóslega voru aðeins á fárra færi.

Í Kína var á fjórðu öld e.kr. orðið algengt að gera afrit af áletrunum og lágmyndum með því að þekja þær bleki og þrykkja á pappír og reyndar voru slík prentþrykk á silki þekkt enn fyrr. Dæmi um notkun þessarar tækni til bókagerðar eru þó ekki óumdeilanleg fyrr en á 7. öld. Á veldistíma Tang var töluvert magn af bókum (aðallega Búddískar sútrur og Konfúsísk rit) prentað á þann hátt að spegilmynd hverrar blaðsíðu fyrir sig var grafin á tréfjöl og þrykkt á pappír. Gallinn var náttúrulega að það þurfti að skera út hverja blaðsíðu fyrir sig.

Hreyfanlegt letur

Um 200 árum síðar eða um árið 1040 á veldistíma Sung fann Bi Sheng 畢昇 upp laust letur þ.e. prentplötur sem raðað var á lausum stöfum (kínverskum táknum) og hægt var að endurnota með því að raða stöfum uppá nýtt. Þessi fyrsta útgáfa tækninnar notaðist við postulín fyrir letureiningarnar, en þar sem það er fremur viðkvæmt hentaði það ekki til prentunar stórra upplaga. Árið 1298 endurbætti Wang Zhen 王禎 uppfinnguna með því að gera lausu táknin úr tré eða trjákvoðu og nokkru síðar kom fram laust letur gert úr kopar þó reyndar megi vera að sú endurbót hafi verið fundin upp í Kóreu. Vegna eðlis kínversks ritmáls með sínum þúsundum tákna var prentsetning tímafrek og því þótti tréfjalar prentun hentugri og ódýrari og var meira notuð lengi framan af, þrátt fyrir framfarir í prentsetningu. Þetta er náttúrulega sama tæknin Gutenberg er sagður hafa fundið upp sjálfstætt árið 1440 en frá sjónarhóli Kínverja virðist ekki óraunsætt að segja Gutenberg hafa betrumbætt kínverska uppfinningu.

Áttavitinn

Áttavitar eru eins og allir vita og orðið bendir til tæki til að átta sig á áttunum, eða réttara sagt tæki sem sýnir okkur áttirnar Norður og Suður. Kínverska orðið fyrir áttavita þýðir bókstaflega ‚nál sem bendir suður‘ (指南針 zhǐnánzhēn) en ólíkt vestrænni hefð þar sem Norður er efst á kortum þá höfðu kínverjar oftast Suður efst á kortum. Ef segulsteinn er hengdur upp þá mun annar endi hans vísa til suður og andstæður endi til norðurs. Fyrsta vísun til segulmagns og áttavita í kínverskum heimildum er frá seinni hluta tíma hinna stríðandi ríkja eða ca. 2. öld f.kr. Rit þetta er nokkurskonar stjórnmálafræði fyrir Daoista, en í ritinu er sagt frá dularfullum stein sem dregur að sér járn og einnig frá fólki sem alltaf ratar rétta leið vegna ‚suður-bendils‘ sem gæti verið vísun í segul og áttavita. Margskonar áttavitar hafa svo verið búnir til í gegnum tíðina en sá fyrsti er talinn vera skeiðarlaga áttaviti sá er notaður var í Kína á Han tímanum skömmu eftir kristburð. Þessi var þó sennilega notaður mest til spádóma og í Fengshui. Einnig eru ekki allir á einu máli um að hér hafi verið um eiginlegann áttavita þar sem líklegt er talið að málmurinn í skeiðinni hafi ekki verið segulmagnaður en verið nuddaður og þannig fengið tímabundið veikan segulkraft.

Það er reyndar svo ekki fyrr en á veldistíma Song að ótvíræðar vísanir til segulmagnaðs áttavita til áttavísunar en leiða má líkum að því að sá áttaviti hafi þróast frá Skeiðaráttavitum og segulnálum fyrir tíma. Á mjög svipuðum tíma er farið að nota áttavita til siglinga á miðjarðarhafi og deilt um hvort sá hafi borist frá Kína eða verið fundinn upp sjálfstætt þar.

Frá Song tímanum voru áttavitar af ýmsum gerðum notaðir til áttavísunar og siglinga í Kína. Algengasta gerðin var ‚þurr‘ áttaviti þar sem segulnál var fest með vaxi við skjalbökulaga tréfjöl sem hengd var upp. En einnig voru lengi fram eftir öldum og e.t.v. allt frá Han tímanum notaður svokallaður segulfiskur, sem var einnig segulmögnuð nál, fest við trébút og látin fljóta á vatni í skál.

Byssupúður

Uppgötvun byssupúðurs er óaðskiljanleg frá kínverskri Gullgerðarlist (煉丹術 liàndānshù). Fylgjendur trúarlegs Daóismi (sem er sprottin af en ekki hið sama og heimspekilegur Daóismi) höfðu löngum leytað eftir lengja ævi sína og jafnvel öðlast ódauðleika. Ein leið þeirra til að vinna að þessu markmiði var að gera tilraunir með ýmiskonar efnasambönd líkt og sú gullgerðarlist sem tíðkaðist á vesturlöndum, en ekki í þeim tilgangi að búa til gull, heldur til þess að finna lyf sem gerði mann ódauðlegann. Sennilega voru tilraunir þessar til að finna upp ódáinsveigar fremur misheppnaðar en þessi vinna skildi þó eftir sig mikla reynslu og þekkingu á efnafræði.

Svo vildi til að nokkur þeirra efna sem þessir kínversku gullgerðarlistamenn voru að fikta við voru einmitt saltpétur, súlfur sem og viðarkol og kolefnisríkar jurtir og á níundu öld er að finna ritaðar heimildir sem sýna að gullgerðarmennirnir þekktu sprengikraftinn sem þessi efni í réttum hlutföllum höfðu til að bera.

Öfugt við þá þrákelknu hugmynd að Kínverjar hafi aðeins notað byssupúður til flugeldagerðar, er nú ljóst að þar í landi voru á næstu árhundruðum framleidd og notuð ýmiskonar sprengjur, eldvörpur, flugskeyti og jarðsprengjur og á veldistíma Ming (1368–1644) voru framhlaðningar í notkun. Þessi þekking breyddist fljótt út og var snemma notuð til hernaðar bæði í Kóreu og Japan og einnig barst hún að lokum eftir silkileiðinni til evrópu.

Sjá Fleiri Pistla