Fleiri Pistlar

Kínverskt ritmál

Kínverska er vissulega að mörgu leiti erfitt tungumál, en kínverskt ritmál þykir sérstakur fjötur um fót. Kínverskt tákn eru eins og flestir vita mjög ólík hefðbundinni hljóðskrift, stafrófum og þesslíkum ritmálum er byggja á hljóðan orða. Kínversk tákn hinsvegar eru mjög myndræn í eðli sínu, byggja aðeins að takmörkuðu leiti á framburði og skipta þúsundum. Til að teljast vel læs í Kína þarf maður að kunna skil á um 4.000 þúsund táknum, en venjuleg kínverskt orðabók inniheldur þó yfirleitt yfir 10.000 tákn. Stærstu og yfirgripsmestu orðabækur sem út hafa verið gefnar hafa að geyma um 50-60.000 tákn en meirihluti þess eru ýmis afbrigði í rithætti, forn tákn sem ekki teljast vera lengur í notkun og ýmis tákn óræðrar merkingar.

Þetta mun mörgum í fljótu bragði sýnast ógurlegar tölur og að læra að lesa kínversku óvinnandi vegur, en staðreyndin er sú að táknin eru að uppbyggingu sett saman úr ákveðnum táknhlutum og eftir ákveðnum reglum og hafa til að bera nokkuð reglubundinn strúktur sem gerir það að verkum að það er langt frá því að vera ómögulegt að verða nokkuð læs á kínversku, og það án þess að vera að læra að draga til stafs og lesa frá blautu barnsbeini líkt og kínverskt skólabörn gera. En það er vissulega mikil vinna og krefst einbeitts ásetnings.

Elstu rituðu heimildir í Kína eru svokölluð Véfréttabein (sjá mynd til hliðar) en uppgötvun þeirra í kringum aldamótin 1900 er mögnuð saga. Meðal kínverskra grasalækna hafði það tíðkast um hríð að selja meðal sem þeir kölluðu ‚drekabein‘ og talið vera gott við malaríu, en við nánari skoðun reyndust vera bein úr nautgripum og skjalbökuskeljar með fornum áletrunum. Fræðimaður nokkur Wang Yirong (王懿榮) að nafni, varð fyrstur til að átta sig á þessu. Ekki er fulljóst hversu lengi verslun með ‚drekabein‘ hafði verið stunduð, né hversu mikið þessara mikilvægu fornminja lentu í maganum á malaríusjúklingum áður en mönnum varð ljóst hið rétta eðli þeirra, en beinin komu öll frá bændum í sömu sveit Henan fylkis, þar sem nú hefur verið grafnar upp rústirnar af borginni Yin (殷) sem var ein höfuðborga Shang (商) veldisins (1600 - 1045 f.kr.).

Þótt Véfréttabein þessi séu ævaforn og elstu rituðu heimildir Kína, þá bera áletranirnar ljóslega með sér að þróun ritmálsins hefur verið langt komin á þessum tíma. Kínversk ritmál er talið hafa þróast uppúr einföldum táknmyndum sem fundist hafa á allt að 6000 þúsund ára gömlum fornminjum. Þegar hér er komið sögu um, 1500 f.kr., hafa táknmyndirnar verið stílfærðar mikið og einfaldaðar og Véfréttabeina áletranirnar hafa til að bera öll helstu einkenni kínversks ritmáls eins og við höfum þekkt það seinustu 2000 árin. Þannig að hvað varðar hið eiginlega upphaf ritlistar í Kína verður að gera ráð fyrir a.m.k. nokkur hundruð árum fyrir tíma Shang veldisins. Textarnir sem ritaðir eru á þessi bein eru allir spádómar og þaðan kemur nafngiftin Véfréttabein (Oracle bone inscriptions 甲骨文 jiaguwen). Voru beinin og skjaldbökuskeljarnar sérstaklega verkuð og svo hituð þartil á þeim mynduðust sprungur. Af sprungum þessum gátu prestakonungar Shang lesið vilja guðanna og var útkoma spádómsins gjarnan rist á sjálf beinin. Textarnir eru allir mjög stuttir og hnitmiðaðir og spurt er um hluti eins og barnsburði, veðurfar, útkomu herferða, hversu miklum fjölda búpenings eða stríðsfanga eigi að fórna o.sv.fr.

Fram að uppgötvun véfréttabeinanna voru elstu áletranir sem kínverskir fræðimenn þekktu á bronsílátum Zhou keisaraættarinnar (ca. 1046 - 256 f.kr.). Þessi bronsílát voru aðallega notuð við trúarlegar helgiathafnir sem og mikilvægar athafnir við hirðina. Oft voru þau gerð sérstaklega til að minnast ákveðinna atburða, svo sem stórrorrusta eða friðarsamninga, og voru bronsílátin gjarnan steypt með áletrunum sem gerðu grein fyrir kringumstæðum.

Frá fornu fari hafa fræðimenn í Kína skipt rittáknunum í 6 flokka. Að átta sig á þessum flokkum er undirstaða þess að skilja strúktur táknanna. Þessi skipting á sér rætur aftur í gráa forneskju en er fyrst sett fram og útskýrð af Xu Shen (許慎) í fyrstu kínversku orðabókarinni (說文解字 shuowen jiezi) sem hann setti saman á 2. öld e.kr. Flokkarnir sex eru: ‚hrein‘ myndtákn (pictogram 象形 xiangxing), hugmyndatákn (ideogram 指事 zhishi), samsett hugmyndatákn (ideogrammic compounds 會意 huiyi), hljóðræn lánstákn (phonetic loans 假借 jiajie), samsett merkingar og hljóðtákn (phono-semantic compounds 形聲 xingsheng) og að lokum tákn breyttrar merkingar (transformed cognates 轉注 zhuanzhu).

Hrein myndtákn er sá flokkur tákna sem eru hreinar og beinar en reyndar nokkuð stílfærðar myndir. Hér eru nokkur dæmi (sjá mynd til hliðar): sól [日ri], tungl [月yue], manneskja [人ren], fjall [山shan] og tré [木mu].

Dýr sem voru algeng eða höfðu sérstöðu í daglegu lífi fólks til forna eiga sér einnig rithátt sem er hrein mynd. Til dæmis hestur [馬ma], tígur [虎hu], nautgripur [牛niu], sauðfé [羊yang], fíll [象xiang] og síðast en ekki síst hinn ógurlegi dreki [龍long].

Ekki er auðvelt að henda reiður á hversu mörg hreinu myndtáknin eru. Það hefur verið áætlað að þau séu um 600 talsins. en sú tala inniheldur sennilega bæði myndir sem geta staðið sjálfstætt sem eitt rittákn eða kínverskt ‚orð‘, sem og önnur sem koma bara fyrir sem táknhlutar í samsettum táknum. Það er skiljanlegt að erfitt sé að leggja til eina tölu í þessu samhengi. Uppruni fjölmargra táknmynda sem finnast á véfréttabeinum, bronsmunum og jafnvel margra sem enn eru notuð í dag, hefur ekki verið skýrður afdráttalaust, mikið um getgátur og vafaatriði. Einnig eru mörg tákn sem umdeilt er hvort eigi að flokka í þennan flokk eða hinn, svo þetta er ákveðnum erfiðleikum bundið./p>

Næsti flokkur tákna eru svokölluð hugmyndatákn eða ‚ideogram‘ sem eru myndrænar leiðir til þess að tákna hugmyndir og hugtök sem ekki eiga sér beina sjónræna hliðstæðu en tjá þarf í rituðu máli. Þarna fá hugmyndir eins og upp [上shang] og niður [下xia] myndræna túlkun. Einnig fyrstu 3 tölustafirnir einn [一yi], tveir [二er], og þrír [三san] og hugmyndir eins og rót eða uppruni [本ben] og endir [末mo] sem eru mynduð með því að leggja áherslu á annarsvegar rætur og hinsvegar efstu greinar trésins.

Þriðji flokkurinn eru samsett hugmyndatákn (ideogrammic compounds). Hér er um að ræða tvö eða stundum fleiri hrein myndtákn eða hugmyndatákn sem saman þykja gefa í skyn þá hugmynd er táknið merkir. Dæmi um tákn í þessum flokki eru til að mynda táknið sem merkir gott [好hao], þar sem vinstri táknhlutinn ‚kona‘ og hægru táknhlutinn ‚barn‘ eru sennilega skírskotun til sambands móður og barns. Þarna sáum við að ‚kona‘ er hreint myndtákn [女nü] en táknið fyrir ‚karlmann‘ [男nan] hinsvegar samsett hugmyndatákn fengið með því að setja saman táknið fyrir akur annarsvegar og mynd af hendi sem táknar kraft eða vinnu hinsvegar. Segir sig sennilega sjálft að hér er átt við almúgamann. Tvö tré tákna trjálund [林lin], og þrjú tré merkja skóg [森sen].

Ef maður er settur við hlið trés merkir það hvíld, í svölum skugga trésins, er þetta eftilvill sami karlinn og stritar á akrinum? Og ef hópur fugla er settur fyrir ofan tré merkir það að hópast eða safnast saman [集 ji], þó reyndar sé nú aðeins einn fugl í tákninu til að auðvelda ritun. Skærustu hnettir himinhvolfsins sól og máni eru sett saman og hafa merkinguna ljóst, bjart eða skýrt [明 ming].

Svo kemur sá flokkur sem kallast hljóðræn lánstákn (phonetic loans) og hér er einfaldlega um það að ræða að tákn sem á sínum tíma hefur haft sama eða svipaðann framburð og annað er fengið að láni til að standa fyrir merkingu hins. Hér er nærtækt dæmi táknið fyrir sagnorðið að koma [來lai] sem er í raun táknmyndin af hveitiplöntu og sem slíkt hreint myndtákn. Það er ekki erfitt að sjá að það er ýmsum erfiðleikum bundið að tjá myndrænt merkingu margra sagnaorða. Því fór svo að mynd af hveitiplöntu fór að tákna sögnina að koma og hveiti var ritað á annan hátt [麥 mai] upp frá því. Annað prýðisdæmi er hugtakið norður sem fengið er að láni frá merkingunni bak [北bei] tákn sem sýnir tvo menn sem sitja snúandi bökum saman. Eftir að þetta tákn var lánað í merkinguna norður fóru menn að rita orðið bak [背bei] með táknhlutanum fyrir hold [肉rou] til að undirstrika að átt væri við líkamshlutann.

Næsti flokkur er sá flokkur sem langflest tákn sem notuð eru í nútímakínversku teljast til og jafnvel svo snemma sem á tímum véfréttabeinanna var þessi flokkur orðin áberandi stór. Þetta eru svokölluð samsett merkingar og hljóðtákn (phono-semantic compounds). Þau eru mynduð þannig að einn táknhluti (oftast vinstri hluti, en stundum hægri, efri, neðri eða jafnvel umlykjandi) skilgreinir ákveðið merkingarsvið en hinn hlutinn gegnir fyrst og fremst því hlutverki að gefa til kynna framburð táknsins. Dæmi: táknið [沐 mu] þýðir bað eða að baðast, en er myndað með einföldun á tákninu fyrir vatn [水 > 氵] vinstra megin sem skilgreinir merkingarsvið og hægra megin tákninu fyrir tré [木 mu] sem gegnir því hlutverki að sýna framburð orðsins en hefur engin augljós tengsl við merkinguna. Alloft eru þó líka tengsl við merkinguna í hljóðbæra hlutanum, eins og í eftirfarandi dæmi: táknið fyrir ódauðlega upphafna veru [仙 xian], nokkurskonar dýrling eða ofurmenni, er myndað með táknhlutum manneskju [人 > 亻] og fjalls [山 shan], sem þá væntanlega auk þess að gefa í skin framburð táknsins, gefur einnig í skyn hið æðra, upphafna ástand; annað tákn [俗su] sem merkir gróft eða alþýðlegt er samsett af táknhlutunum manneskja og dalur [谷gu] sem ekki aðeins gefur þá til kynna framburð heldur og merkingu þar sem dalurinn liggur lágt og er andstæða fjallsins. Það er þó enn flest á huldu um þessa hlið samsettu merkingar og hljóðtáknanna.

Seinasti flokkurinn er lítill flokkur og ekki ýkja mikilvægur, sem kallast tákn breyttrar merkingar (transformed cognates) en um þann flokk eru fræðimenn reyndar alls ekki á eitt sáttir og þess utan er hreint ekki auðvelt að skilja hann. Því verða ekki fleiri orð um þann flokk hér.

Mig langar að lokum að segja nokkur orð um útbreiddann misskilning varðandi kínversk tákn. Svo virðist sem að fyrr á öldum hafi sú saga breiðst út að kínverska myndtáknið fyrir frið [安an] væri kona undir þaki, sem er hárrétt, en jafnframt að táknið fyrir ágreining væri tvær konur undir einu þaki, en sannleikurinn er sá að ekkert slíkt tákn er til, eða allavega finnst það ekki í orðabókum. Hins vegar er til tákn sem sýnir aðeins tvær konur [奻 nuan] og þýðir einmitt ágreiningur en ekkert þak eða hús er til staðar. Og nú geta þeir sem dregið hafa of miklar ályktanir af misskilninginum vafalítið dregið enn fleiri ályktanir af þessari staðreynd.

Þótt vissulega séu margir vankantar á því að nota kínversk tákn og tilraunir hafi verið gerðar til að taka upp einfaldara letur í Kína, þá er ekki líklegt að þar verði tekið upp einfalt hljóðfræðilegt stafróf á næstunni. Tilraunir til þess að einfalda ritmálið hafa verið gerðar og náð fram að ganga að vissu marki, en staðreyndin virðist einfaldlega vera sú að kínversk tákn sem ritháttur hinna kínversku mállýskna séu svo rótgróin og samofin talmálinu að hvorugt geti í raun staðið án hins. Tölvuvæðingin hefur líka verið fremur en hitt vítamínsprauta fyrir notkun kínverskra tákna og með auknum umsvifum Kína á heimsvísu getum við fastlega búist við að sjá enn meira af þeim á komandi árum.

Sjá Fleiri Pistla