Fleiri Pistlar

Kínverskar goðsagnir í forneskju

Í þessari grein er fjallað um það sem stundum er kallað ‚klassísk kínversk goðafræði‘ og er þá átt við aragrúa sagnabrota með sterkum mýþu keim sem finna má í fjölmörgum hinna allra elstu kínversku heimilda og almennt er talið að endurspegli trúarhugmyndir og heimsmynd þeirra frumstæðu trúarstrauma sem ríkjandi voru á svæðinu frá grárri forneskju, fyrir tilurð Daóisma og innreið Búddaisma. Tímabilið sem um ræðir nær frá upphafi nýsteinaldar menningar við gulafljót og fram á veldistíma Han keisarættarinnar frá 206 f.kr. til um 220 e.kr. og sá trúarlegi bakgrunnur sem um ræðir eru náttúru og frjósemitrúarbrögð. Goðheimar hinna seinna tilkomnu trúarbragða, Daoisma og Búddisma, eru enn lifandi hluti af trúarlífi milljóna í Kína og víðar, og eru ekki til umfjöllunar í þessari grein.

Þessi goðafræði Forn-kína er líkt og klassísk heiðni Grikkja og Rómverja vitnisburður um trúarstrauma sem hættu að vera ráðandi trú en hafa þó að einhverju marki haldið áfram að vera hluti af alþýðutrú og mikið af þessum fornu goðsögum urðu órjúfanlegar frá goðheimum Daóisma. Hið brotakennda eðli þeirra er einnig afgerandi einkenni þeirra. Enginn Hómer, Óvíd eða Snorri Sturluson tók sig til og safnaði, umritaði og samræmdi goðafræðina, og því höfum við í dag aðeins aragrúa sagnabrota sem oft stangast töluvert á. Á hinn bóginn má segja að þar sem enginn sagnaritari tók það að sér að gera samræmt verk í líkingu við Hómerskviður eða Eddurnar þá erum við að fá ómengaðri útgáfu af mýþunum.

Þótt enginn hafi tekið sig til og varðveitt kínverskar goðsagnir í epísku formi, þá hafa nokkrar fornar bækur þá sérstöðu að innihalda ívið meira af og jafnvel fyrst og fremst þesskonar sögur. Þar ber fyrst að nefna ‚Fjalla og vatna ritninguna‘ (山海經 shanhaijing) sem hefur valdið fræðimönnum innan og utan Kína heilabrotum í 2000 ár. Eftir því sem undirritaður kemst næst er þarna á ferðinni samansafn sagnabrota sett fram sem nokkurskonar landafræði og er mikill hluti frásagnanna lýsingar á ævintýralegu dýra og jurtalífi þeirra fjalla og hafa sem umkringja Kína. Flest hafa þessi dýr og jurtir einhverja yfirnáttúrulega töfra- og lækninga eiginleika auk þess að vera annaðhvort ólík raunverulegum dýrum eða undarlegar samsetningar líkamshluta þeirra. Einnig er sagt frá þjóðum manna er búa á þessum fjarlægu svæðum og eru fólk það gjarnan með einhverjum ólíkindum, svo sem gati í gegnum bringuna eða aðeins einn fót, svo dæmi séu tekin. Í bókinni má einnig finna margar sögur af guðum, hetjum og ófreskjum með sterkum goðsagnakeim.

Önnur þýðingarmikil bók hvað fornar mýþur varðar er ‚Söngvar Chu‘ (楚辭 chuci) sem er eignuð Qü Yuan (屈原) en hann er fyrsta nafngreinda ljóðskáld Kína. Ljóðin hans innihalda flest öll tilvísanir í goðheima en þó fyrst og fremst ljóðið ‚Spurningar til himins‘ (天問 tianwen) sem samanstendur af yfir 150 spurningum um ýmislegt sem skáldið furðar sig á um eðli sköpunarinnar, guðina og sögum af forfeðrum manna.

Einnig er vert að hafa í huga að kínversk sagnaritun frá fornu fari hefur gjarnan að upphafspunkti þann goðsögulega tíma er guðum líkir forfeður kínverskrar menningar og þjóðar voru uppi og er það ríkjandi skoðun meðal fræðimanna að hinar elstu þessara sagna séu í raun goðsagnir sem raunsæir sagnaritarar hafi umritað til að líkjast sögulegum staðreyndir. Þessir sagnaritarar voru gjarnan af hinum konfúsíska skóla og báru djúpa virðingu fyrir fornöldinni. Einnig ber að hafa í huga hina sterku og rótgrónu forfeðradýrkun sem einkennir svo mjög kínverskt trúarlíf. Því er það lítið undrunarefni að allflestar höfuðpersónur kínverskra goðsagna eru líka mennskir forfeður Kínverja og frumkvöðlar kínverskrar menningar.

Margar kínverskar heimildir byrja á því að telja til sögunnar 3 goðverur sem kallast Sanhuang (三皇) en heimildunum ber ekki saman um hver þessi 3 goðmögn eða forfeður voru. Oftast eru til nefndir Guli keisarinn (黃帝 huangdi), Fuxi (伏羲), Nüwa (女媧) og Shennong (神農) en flestir fræðimenn telja þessi öll vera goðverur og hæpið er telja sögulega þótt skoðanir séu skiptar. Svo er talað um 5 minniháttar goð sem koma á eftri þessum 3. Hér ber heimildum heldur ekki saman en oft eru nefndir Di Jün (帝俊), Yao (堯), Shun (舜) og fleiri.

Fuxi (伏羲) og systir hans og maki gyðjan Nüwa (女媧) eru ein helstu goðmögn forn Kína og eru þau enn stór hluti af kínverskri alþýðutrú. Til eru myndir af þeim allt frá Han tímanum og á þeim eru þau sýnd sem manneskjur frá mitti og upp, en þar fyrir neðan hafa þau hvort um sig nöðru hala sem oftast hringast hvor um annann, auk þess heldur Fuxi gjarnan smíðavinkli en Nüwa á sirkli. Bæði hafa þau til að bera sterk einkenni sköpunarguða og ein saga af Nüwa segir frá því hvernig hún skapaði mannkynið úr leir. Í upphafi verks vandaði hún sig mikið og gerði forkunnafagrar leirstyttur sem hún svo blés lífi í en er hún hafði gert allmikinn fjölda á þennann hátt, þreyttist hún og tók til þess ráðs að draga reipi uppúr leirnum og blása lífi í leirinn sem af reipinu féll. Þannig varð til mannkyn og einnig stéttaskipting nokkur, því þeir menn sem hún gerði fyrst urðu konungar, fyrirmenni og hetjur, en hinir sem voru gerðir af leirnum sem draup af reipinu urðu almúgamenn og þrælar. Einnig er sagt frá því er vatnsguðinn Gonggong (共工) og eldguðinn Zhurong (祝融) tókust á með þeim afleiðingum að Gonggong skallaði fjall eitt sem var ein af 8 súlum himins, og því skekktust himinn og jörð. Því renna allar ár frá vestri til austurs og himintungl renna frá austri til vesturs. Lesendum er bent á að rifja upp legu Kína í Asíu. Ef sú landafræði er höfð til hliðsjónar mun ekki þykja ýkja undarlegt að Kínverjar til forna hafi haft slíka heimsýn. Eftir þessi ósköp var það gyðjan Nüwa sem kom á jafnvægi aftur og notaði hún til þess steina í fimm litum, fætur af risa skjaldböku, drekablóð og ösku af sefreyr er hún brenndi. Fuxi er sagður hafa fundið upp fiskinet, gildru og ritmálið. Einnig er sagt að hann hafi fundið upp Þrígröf Breytingaritningarinnar (the Trigrams 八卦 of the Book of Changes 易經).

Himinguðinn Di Jün (帝俊) var faðir 10 sóla og 12 mána. Sólirnar 10 átti hann með gyðjunni Xihe (羲和) en mánana 12 með annari gyðju, Changxi (常羲). Mánarnir tólf eru að öllum líkindum tilkomnir vegna þess að það eru jú yfirleitt 12 full tungl á einu sólarári, og sólirnar 10 tengjast hinu forna dagatali Kína sem auk mánaða hafði 36 tíu daga ‚vikur‘. Sólirnar 10 skiptust á að fara dagsferð yfir himinhvolfið í vagni sem móðir þeirra stýrði, en þess á milli eyddu sólirnar tíma sínum sem þrífættur krákur í greinum Mórberjatrés (mulberry 桑 sang) nokkurs sem stendur handan hafsins við á austasta hjara veraldar. Yfirleitt er litið svo á að sólirnar séu drengir, synir Di Jün, en mánarnir dætur hans.

Dag einn gerðist sólirnar ódælar mjög og hófust allar uppá himinn samtímis, með ógurlegum afleiðingum fyrir jörðina. Undir tífaldri útgeislun ljóss og hita skrælnaði allt plöntulíf og ár og vötn gufuðu upp. Mannkyn átti mjög undir högg að sækja, hungursneið yfirvofandi og ofan á öll ósköpin gengu villidýr og ýmsar óværur lausum hala og sóttu mjög á byggðir manna. Þá kallaði Di Jün til sín þann himinguða sem hugaðastur þótti, Houyi (后羿) og fékk honum rauðann boga og hvítar örvar, en Houyi var einnig mikil bogaskytta. Houyi reyndi að tala til sólirnar ódælu en þær létu sér ekki segjast svo hann greip til þess ráðs að skjóta niður 9 af 10 sólum. Einnig skaut hann fjölmargar ófreskjur sem höfðu herjað á mannkyn. En Di Jün var ekki ánægður með þessi málalok og refsaði Houyi með því að gera hann og konu hans mánagyðjuna Chang‘e (嫦娥) útlæg frá himnum. (Nafn gyðjunnar Chang‘e er augljóslega tilbrigði við nafn Changxi, móður mánanna.) Þessi útlægð var sérstaklega erfið fyrir Chang‘e, jarðlífið átti illa við hina fögru og fíngerðu mánagyðju, og Houyi, sem allt vildi fyrir hana gera, komst yfir töframeðal þeirrar náttúru að hver sem það drykki yrði ódauðlegur og risi upp til himna. En því miður fékk hann ekki nógan skammt til að lyfta þeim báðum upp til himins. Skammturinn sem þeim hjúum áskotnaðist var nægur fyrir þau bæði að lifa ódauðleg á jörðinni, eða annað þeirra að búa að eilífu á himni. Ást Chang‘e á guðlegri tilvist á himnum reyndist ást hennar til Houyi yfirsterkari, því fór svo að hún tók allt lyfið og yfirgaf maka sinn á jörðinni. En henni til hryllings reis hún ekki til himins til að lifa með guðunum, heldur flaug hún til mánans og dvelur þar í eilífri einsemd.

Hið brotakennda eðli kínverskra goðsagna kemur þarna glöggt í ljós þar sem mánagyðjan Changxi eða Chang‘e er næstum örugglega sama nafnið, ritað á tvenna vegu og með aðeins smávægilegum framburðarmun. Frásögnin af mýþunum hér að ofan styðst við sagnabrot úr fleiri en einni heimild og því koma fram mótsagnir eins og að í byrjun eru mánarnir tólf og dætur Changxi en ‚seinna‘ flýgur Chang‘e til mána sem virðist vera bara einn. Sennilegt þykir að Changxi útgáfa mánagyðjunnar sé eldri og endurspegli trúarlíf Shang veldisins (1600 - 1045 f.kr.) og Chang‘e útgáfan eitthvað nýlegri, þótt ekkert liggi ótvírætt fyrir um það.

Sú sköpunarsaga kínverska sem okkur hefur borist í heillegastri mynd er sagan af Pangu (盤古) en samkvæmt henni var heimurinn í upphafi eins og egg og var til í þeirri mynd í 18 þúsund ár áður en eggskelin brotnaði. Þá birtist jötuninn Pangu með gríðarlega exi í hendi sem hann hafði notað til að brjóta skurnina í tvennt. Varð annað brotið að himni en hitt að jörðu, og hækkaði himininn samfara því sem Pangu óx, en hann óx gífurlega næstu árþúsundin. Á meðan himinn hækkaði og hið létta og tæra í heiminum reis með honum. þá lækkaði jörðin undir fótum hans og hið þunga og grugguga efni heims þar með. Loks eftir önnur 18 þúsund ár dó Pangu og líkami hans varð að hinum ýmsu fyrirbærum heims: andardráttur hans varð að vindunum, röddin að þrumum, vinstra augað að sól og hið hægra að mána. Útlimir hans og bolur urðu að höfuðáttunum og hinum helgu fjöllum þeirra og miðjunnar. Blóð hans varð að ánum og sinar og kjöt að jarðveginum. Hárið varð að stjörnum himins og húðin að grasi og trjám. Tennur og bein urðu að góðmálmum og eðalsteinum. Svitinn að regni og fenum. Að lokum urðu flærnar á skrokk hans innblásnar af vindunum og urðu að hinum lægri stigum manna. Þessi sköpunarsaga minnir óneitanlega þónokkuð á hina norrænu goðsögn um jötuninn Ými sem Borsynir drápu og skópu af Miðgarð.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru um goðheima Kínaveldis til forna, og aðeins sagt lítillega af þeirra helstu og þekktustu goðsögum, en þetta eru sögur sem langflestir Kínverjar þekkja vel, líkt og við þekkjum okkar sögur úr Eddunum.

Sjá Fleiri Pistla