Fleiri Pistlar

Edda Kristjansdottir

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég fór til Kína í nám haustið 1978. Fyrsta árið var ég í tungumálaskóla. Kennslan þar var stíf sem var mjög gott - þannig að eftir árið gat maður bjargað sér á kínversku. Eftir þetta fyrsta ár fluttist ég yfir í Pekingháskólann og hóf nám í heimspekideild sem tók fjögur ár. Kunnáttan í kínverskunni sem ég hafði aflað mér á fyrsta árinu dugði þó skammt í kennslustundum þar til að byrja með þar sem umræðuefnin og orðaforðinn var allt annar. Þetta hafðist nú samt allt saman með miklum uppflettingum í orðabókinni.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Það gerðist margt og mikið á því fimm ára tímabili sem ég dvaldi í Kína. Ég stundaði námið þegar ég mátti vera að fyrir öðrum verkefnum. Mér finnst alltaf að ég hafi lært miklu meira af því að vera i Kína og kynnast lífinu þar og fólkinu heldur en í hinu eiginlega námi í skólanum. Samgangur milli heimamanna og útlendinga var undir smásjá en þó var hægt að hafa manneskjuleg samskipti við Kínverja ef maður fór ekki út fyrir ákveðinn ramma sem stundum gat verið þokukenndur. Ég ferðaðist eins mikið og ég gat í fríum innan Kína og til nálægra landa.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég heimsótti fullt af áhugaverðum stöðum. Veit eiginlega ekki hvaða staði á að telja upp - í Kína eru áhugaverðir staðir við hvert fótmál. Ég gæti nefnt Yunnan héraðið, Tai fjallið, Suzhou borg og Wuxi og að ógleymdri Guilín en umhverfið þar er eitt það sérkennilegasta og fallegasta sem ég hef séð.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ég held að eftirminnilegast sé sú upplifun að koma inn í algjörlega nýja veröld. Á þeim tíma var Kína allt öðruvísi en það er í dag og gjörólíkt öllum vestrænum samfélögum. Að sumu leyti var þetta eins og að vera komin nokkra áratugi aftur í tímann.

Mér eru t.d. minnisstæðar nokkrar tilraunir mínar til að nota síma í Kína. Það var lítið um síma og símasamband mjög lélegt. Í byggingunni sem ég bjó í á heimavist Pekingháskólans var bara einn sími fyrir alla bygginguna. Ég þurfti t.d. einu sinni nauðsynlega að ná í kunningja minn sem var í námi í háskóla í Nanjing og bjó í svipaðri heimavistarbyggingu. Ég hringdi í númerið í Nanjing og húsvörðurinn svaraði. Ég gat ómögulega fengið samband við manninn af því ég gat ekki lýst fyrir húsverðinum hvernig ætti að skrifa nafn viðkomandi á kínversku - þ.e. hvaða tákn væru í nafninu. Hann bara gat ekki fundið út hverjum ég var að spyrja eftir nema vita þetta.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Mér finnst yfirleitt kínverskur matur mjög góður. Hins vegar er ég ekki hrifin af kökunum þeirra - eitt það versta sem ég smakkaði eru t.d. mánakökur.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Ég get ekki sagt að mér hafi komið eitthvað sérstakt á óvart - nema ef til vill hvað húsakynnin voru léleg á þeim tíma og hvað kalt var á veturna í Peking. Ég vissi yfirhöfuð lítið hvað ég var að fara út í og tók því bara flestu eins og það var.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Mér er það minnisstætt að mannlífið hvarf af götunum í Peking eftir myrkur á veturna. Borgin breyttist í draugaborg. Á sumrin var miklu líflegra.

Mér er einnig minnisstætt eitt kvöld í október 1978 þegar ég ásamt nokkrum Íslendingum gengum fram hjá hópi fólks við vegg einn skammt frá Torgi hins himneska friðar. Miklar og heitar umræður voru meðal fólksins sem stóð þar í hnapp. Ég skildi ekkert hvað fólkið var að ræða en komst fljótlega að því að þarna höfðu einhverjir hugrakkir menn hengt upp veggspjöld. Þessi veggur fékk síðar nafnið Lýðræðisveggurinn. Var ekki við lýði mjög lengi eins og við vitum núna.

8. Hefur þú komið aftur til Kína síðan námi þínu lauk? Og ef svo er, hvað finnst þér hafa breyst?

Ég hef komið nokkrum sinnum til Kína eftir að ég lauk námi árið 1983. Fór fyrst árið 1987 en þá var ekki að sjá miklar breytingar á þjóðlífinu frá því áður. Síðan hef ég farið í ferðir til Kína árin 1996, 2006, 2011 og 2014.

Breytingarnar frá 1987 eru ótrúlegar. Pekingborg, þar sem ég bjó í 5 ár, hefur breyst svo mikið að ég þekki mig ekki þar lengur. Það eru helst svæðin í kringum Tian An Men og Wang Fu Jing sem ég get áttað mig nokkurn veginn á. Borginni hefur verið umturnað, búið að rústa hutong hverfunum og byggja risablokkir í staðinn. Svæðið í kringum Peking háskólann er gjörbreytt, þar voru áður hutong hverfi á allar hliðar og kálgarðar inn á milli. Nú eru þar risin háhýsi á alla kanta.

Farartæki fólks voru aðallega reiðhjól árið 1983, nú sést ekki reiðhjól, ekki einu sinni til sveita. Klæðaburður og framkoma fólks í Kína hefur einnig breyst mikið. Árið 1983 voru ennþá langflestir í Maofötum. Ágeng sölumennska þekktist ekki þá - frekar að maður þyrfti að láta öllum illum látum til að láta sölufólk taka eftir sér. Fólkið er orðið núna miklu frjálslegra í fasi og framkomu við útlendinga.

Ég hef á ferðum mínum farið til ýmissa stórborga og virðast þær gjörbreyttar eins og Peking. Ég geri þó ráð fyrir að ýmis svæði í Kína hafi ekki breyst eins mikið, var t.d. í Tíbet árið 2006 og það minnti þó nokkuð á gamla Kína.

Sjá Fleiri Pistla