Fleiri Pistlar

Sigurður Kári

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Eftir stúdentspróf vorið 2006 flutti ég ásamt tveimur félögum mínum til Peking til að vera þar í einn vetur. Hugmyndin kviknaði hjá okkur síðasta veturinn við Menntaskólann í Reykjavík og mig minnir að helsta markmið okkar hafi verið að komast sem lengst í burtu frá Íslandi til að kynnast nýrri menningu og ferðast þar sem við höfðum ekki komið áður.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Markmið okkar var í sjálfu sér bara að kynnast landi og þjóð og hafa kannski tækifæri til að ferðast eitthvað í Asíu. Við þurftum þó vissulega að hafa eitthvað fyrir stafni frá degi til dags auk þess sem ekki er hægt að fá landvistarleyfi í svo langan tíma nema á tilteknum forsendum. Við félagarnir skráðum okkur því í nám í kínversku við Beijing Language and Culture University. Þar stunduðum við nám yfir veturinn með misjöfnum árangri þó enda var lögð meiri áhersla á að njóta lífsins og ferðast á framandi staði.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Það ber kannski fyrst að nefna að Peking er auðvitað út af fyrir sig mjög áhugaverður staður. Mér finnst líka eftir á að hyggja mjög skemmtilegt að hafa komið þangað fyrir Ólympíuleikana sem haldnir voru þar sumarið 2008. Þrátt fyrir að ég hafi ekki komið þangað sjálfur síðan ég fluttist þaðan vorið 2007 hef ég heyrt að mikið hafi breyst frá því ég bjó þar og að leikarnir hafi markað ákveðin vatnaskil í samfélaginu þar. Við fórum auðvitað á helstu ferðamannastaði Peking, Torg hins himneska friðar, Forboðnu borgina, Sumarhöllina og á Kínamúrinn. Þá voru farnar ófáar ferðir á helstu markaði borgarinnar eins og Silkimarkaðinn og Perlumarkaðinn þar sem við reyndum fyrir okkur í prútti og vorum bara orðnir nokkuð slungnir undir lokin.

Í haustfríinu í skólanum tókum við okkur til og ferðuðumst til Innri Mongólíu, sem er nyrsta hérað Kína með landamæri að Mongólíu, ásamt tveimur íslenskum stúlkum sem voru með okkur í skólanum. Þar gistum við m.a. í mongólskum tjöldum og fórum á bak mongólskra hesta auk þess að fara í útreiðartúr á kameldýrum í Góbí-eyðimörkinni. Í kringum kínversku áramótin fengum við einnig dágott frí og fórum þá með lest til Nanjing og Shanghai og þaðan til Xiamen, sem var einn af mínum uppáhalds stöðum. Frá Xiamen flugum við til Bangkok í Tælandi og ferðuðumst í kjölfarið um Tæland, Kambódíu og Víetnam. Það er án efa með skemmtilegri ferðum sem ég hef farið sem endaði með lestarferð þvert yfir Kína frá Hanoi í Víetnam til Peking.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Það er mjög erfitt að velja eitthvað eitt sem var eftirminnilegast. Ferðalögin standa kannski upp úr og svo ef til vill lífsreynslan sem það var að flytja, svona óharðnað ungmenni, í allt annan menningarheim í órafjarlægð frá heimkynnum sínum. Síðan var auðvitað ferðin heim mjög eftirminnileg en við félagarnir tókum Síberíu-hraðlestina frá Peking til Moskvu, sem tók að mig minnir átta daga.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Á heildina litið var maturinn sem við borðuðum í Kína mjög góður. Við elduðum nánast aldrei en átum þess í stað á ódýrum götuveitingastöðum og svona „street-food“. Ég man að í Innri Mongólíu var borinn á borð fyrir okkur einhver alger viðbjóður sem líktist einna helst íslenskum þorramat, mjög slímugt og ólystugt. En þar fékk ég líka í fyrsta skipti „hotpot“ sem mér fannst mjög gott. Annars voru grillspjótin sem maður fékk úti á götu á kvöldin í uppáhaldi ásamt kóresku grilli.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Það væri kannski nær að spyrja hvort eitthvað hefði ekki komið á óvart. Ég taldi mig vita ýmislegt um Kína þegar við lögðum af stað, búinn að kynna mér land og þjóð í þaula á Wikipedia. Það skipti auðvitað engu máli. Ég fékk algert menningarsjokk fyrstu dagana í Peking og það tók alveg þó nokkurn tíma að mynda skráp og læra að lifa í þessum heimi. Áreitið var mikið, mengunin var óhugsandi fyrir Íslending og auðvitað mannmergðin. Einna mest kom mér þó á óvart hvað ég varð lítið var við yfirvöld í þessu kommúníska ríki. Það kom nánast aldrei fyrir að lögreglan hefði afskipti af okkur (nema þegar hún mætti til að leysa upp áramótapartýið okkar fimm mínútur yfir miðnætti, enda bara venjulegur dagur í Kína).

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Salernismál Kínverja í víðu samhengi var eitthvað sem ég gat aldrei vanist. Lyktin og útgangurinn á almenningssalernum fékk mig oft og tíðum til að fá æluna upp í kok. Allra verst voru salernin sem voru þannig hönnuð að ein renna lág í gegnum alla básana með eitt sameiginlegt niðurfall á öðrum endanum þannig að allt rann fram hjá þeim sem næstur var niðurfallinu. Þá voru börn á götum úti iðulega í opinni samfellu og gerðu þarfir sínar bara í vegkantinum, hvort sem þau voru í fylgd með fullorðnum eða ekki.

Sjá Fleiri Pistla