Fleiri Pistlar

Sæunn Þórisdóttir

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég var á ferðalagi um Asíu áður en ég tók beygjuna til Kína en þangað fór ég upphaflega til þess að vinna á heimssýningunni sem var haldin í Shanghai árið 2010. Sýningin stóð yfir í sex mánuði en ég festist í Kína í tæp tvö ár.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Ég mætti til Kína þremur mánuðum áður en vinnan á heimssýningunni byrjaði. Á þeim tíma var ég mest að spóka mig um í Shanghai, ég var alein og þekkti enga svo þessi tími fór helst í það að kynnast borginni og fólkinu. Ég eignaðist marga frábæra félaga sem eru mínir bestu vinir í dag. Eftir þrjá mánuði af fjöri tók alvaran við, en ég vann á heimssýningunni í sjö mánuði og það er upplifun sem ég gleymi seint! Eftir sjö mánuði af vinnu var ég orðin nokkuð fær í kínverskunni og því fór ég í kínverskunám í nokkra mánuði eftir það. Þess á milli ferðaðist ég mikið í Kína og heimsótti marga frábæra staði.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég heimsótti heilan helling af áhugaverðum stöðum! Það sem er eftirminnanlegast eru tvö ferðalög. Það fyrra fór ég með Urði vinkonu minni en þá ferðuðumst við aðallega um Sichuan og Yunnan héruð. Við fórum í margar skemmtilegar göngur og eyddum tíma í fjöllunum upp við landamæri Tíbet. Hitt ferðalagið fór ég með kærasta mínum rúmu ári seinna en þá flugum við upp til Xinjiang og ferðuðumst þar um. Xinjiang var mjög frábrugðið því sem ég hafði áður upplifað í Kína. Þar var öðruvísi matur, tungumál, fólk, náttúra etc.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ætli það sé ekki vinnan mín í þessa sjö mánuði á heimssýningunni. Þar gekk margt á. Yfir 150 lönd tóku þátt í sýningunni þar sem hvert land var með sinn skála til að kynna land og þjóð. Íslenski skálinn var í heild sína um 300 fermetrar sem var mjög lítið miðað við marga aðra.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég elskaði flest allan götumat sem var að finna í Kína, borðaði hann reglulega enda kostaði lítið. Það versta sem ég borðaði var líklega maturinn í Xinjiang, hann var ekki í miklu uppáhaldi.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Ég heimsótti fyrst Kína árið 2005 með fjölskyldunni minni, þá fórum við til Shanghai og Beijing. Það sem kom mér á óvart á þeim tíma var öll athyglin sem við systur fengum í þessum stórborgum. Kínverjar vildu koma við hárið á okkur og fá myndir af sér með okkur. Þegar ég kom aftur til Kína 2010 fimm árum seinna fannst mér þetta mjög breytt, enda mikil hnattvæðing í gangi og útlendinga að finna um allt. Það sem kom mér hvað mest á óvart við Kínverja þegar ég byrjaði að vinna á heimssýningunni var held ég yfirgangurinn og lætin í öllum.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Það var svo margt furðulegt sem maður upplifði á hverju götuhorni sem var partur af kínverskri menningu sem maður hafði aldrei séð áður. En ef ég ætti að velja allra óvenjulegasta atvikið þá held ég að það sé dagurinn sem kona lét 6 ára gamla dóttur sína kúka í litlu ruslatunnuna í skálanum okkar á heimssýningunni fyrir framan alla gestina eins og ekkert væri eðlilegra. Eftir það urðum við að hengja upp miða á vegginn fyrir ofan ruslatunnuna þar sem við vinsamlegast báðum gesti að hvorki pissa né kúka í ruslið.

Við þökkum Sæunni fyrir skemmtilega frásögn og vonum að ófarir ruslatunnunnar skyggi ekki mikið á góðu minningarnar frá Expóinu.

Sjá Fleiri Pistla