Fleiri Pistlar

Tómas Freyr

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég vann að ljóshönnunarverkefni við að lýsa upp kaþólska kirkju í útjaðri Shanghai og svo seinna skiptið vinnandi við annarskonar hönnunarverkefni í Beijing.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Ég var aðallega í því að vinna en í því var allskonar brall innifalið. Í Shanghai hafði ég svo góðar aðstæður að búa á 5 stjörnu hóteli í þrjá mánuði, vinna við hliðina á kínverskum manager sem varð vinur minn og lærði ég smá kínversku af honum og hann ensku af mér. Ég var vinnandi bæði í kringum láglaunafólk og háttsetta ásamt því að upplifa nokkur matarboð með borgarstjóra og þannig liði á rosa flottum stöðum.

Í Beijing hafði ég meira frelsi og var þá í íbúð og með hjól. Þar upplifði ég fata-, matar- og annarskonar markaði, prútt, nudd, frábæra garða þar sem maður gerði æfingar og hljóp. Eitthvað minna af næturlífinu en þó snefil. Ég kom sjálfum mér á óvart hvað ég virtist vera að sjúga inn kínverskuna, því ég hafði engan hug á að læra hana áður en ég fór út. Eftir að hafa kynnst kínverskri stelpu sem langaði að læra meiri ensku endaði ég með að kenna henni og vinkonu hennar ensku í staðinn fyrir að læra kínversku hjá þeim. Ég náði að gera þetta samhliða vinnunni og hafði enga reynslu af að kenna tungumál en lærði það bara í leiðinni.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Mér fannst eiginlega bara allt þarna áhugavert.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Það er svo rosalega margt en t.d. hversu stutt það getur verið á milli þeirra ríku og fátæku. Hversu vinalegir, þjónustulyndir og hjálpsamir Kínverjar geta verið. Hversu vinnusamir og metnaðarfullir þeir eru. Hversu friðsælir þeir eru og hvað maður hefur engar áhyggjur af glæpum þó maður labbi um bæinn um miðja nótt. Hversu liðugt gamla fólkið er og er það algengt að sjá einhverja 70 ef ekki 90 ára vera að setja löppina upp á eitthvað hátt handrið og teygja sig eins og ballerína. Ef ég myndi velja staðinn til að verða gamall myndi ég velja Kína, þar sem ég efast um að séu til elliheimili og maður sér mikið af gömlu fólki úti í görðum að spila á hljóðfæri eða vera í hóp yoga eða annars konar hreyfingum. Ég man líka alltaf eftir því komandi frá Bandaríkjunum að mér fannst skrítið að Kínverjar voru mikið fyrir að segja ‘nigga nigga’.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég held þegar ég lít til baka að kúagarnir hafi farið á lista yfir það versta og ég hafði líka val um að borða heila á sama stað sem ég sleppti. Kúagarnirnar voru eins og að borða gúmmí. Svo borðaði ég þúsund ára egg en það var meira tilhugsunin heldur en bragðið sem var vont. Ég tók bara einu sinni eftir hundakjöti á matseðli á veitingastað og sé ég það sem ekkert furðulegra en að borða önnur dýr, enda er ég hættur þeirri vitleysu. Svo var jú eitt það versta þegar það var punghár í hrísgrjónunum mínum og ég vissi að það var punghár því það var krullað og Kínverjar eru aldrei krullhærðir.

Það besta sem ég borðaði. Hmmm. Erfitt að segja. Það var svo margt. Það sem kemur fyrst í hugann minn eru þurrkaðar engiferrótarskífur sem vinur minn átti. Þetta var ekkert gott á bragðið en þetta var eins og að drekka nokkra kaffibolla. Áhrifin fannst mér ansi skemmtileg.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Hversu súper þjónustulyndir þeir geta verið. T.d. var ég á leið í lítinn supermarkað en var alveg að míga á mig þannig ég ákvað að skoða hvort ég gæti farið á klósettið í búð við hliðina á þar sem voru um 30 manns í jakkafötum fyrir aftan tölvur að vinna. Þegar ég kom inn í búðina og spurði um klósett stóðu allir upp og komu að mér eins og ég væri Justin Bieber í Kringlunni til að finna út hvað ég vildi. Endaði með að vera fylgt af tveimur niður í einhvern kjallara þar sem pissulyktin var gífurleg og konur voru að þrífa föt í vöskunum þar á meðan.

Bílaumferðin kom mér á óvart þó svo ég hafi búist við ruglaðri umferð. Eftir að hafa verið þarna í smá tíma kippti ég mér ekki lengur upp við það þegar ég sá bíl keyra á móti umferð, ég sagði ekki einu sinni frá því þeim sem voru með mér í bíl. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég var búinn að venjast ruglaðari umferð.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Ég myndi segja bumbutískan, fólk labbandi aftur á bak, meðaljón syngjandi hátt hvar sem er eins og ekkert sé eðlilegra, kannski tónlistarsmekkur þeirra og já kynlífsópin.

Til að útskýra nánar þá sá ég rosa marga með boli sína eða peysur bretta upp á bumbu sína. Ég hélt fyrst að þetta væri kannski út af hitanum en fannst þetta mjög furðulegt. Ég komst svo að minni eigin niðurstöðu með þetta fyrirbæri þegar ég varð vitni að ungu pari labbandi saman sem stoppuðu þar sem stelpan var að fríska upp á útlit kærastans með því að laga hann til. Að sjá hana bretta svona upp á hann var afar svalandi fyrir forvitni mína.

Það kom mér á óvart að komast að tónlistarsmekk kínversks vinar míns þar sem hann hélt rosalega upp á t.d. Backstreet Boys og einhver Disney lög með Mariah Carey.

Við þökkum Tómasi fyrir stórskemmtilega frásögn af upplifunum hans í Kínaveldi.

Sjá Fleiri Pistla