Fleiri Pistlar

Klara Kristjánsdóttir

1. Hvernig kom það til að þú fórst í kínversk fræði?

Ég fékk Kína-veiruna þegar ég flutti út í einhverskonar flippi árið 2006. Þá valdi ég mér Kína nánast af handahófi en mig langaði að prófa að búa annarsstaðar en á Íslandi. Ég flutti til Shanghai og varð hreinlega ástfangin af landi og þjóð. Um leið og ég kom aftur heim til Íslands vissi ég að ég þyrfti að fara aftur út til Kína en í þetta skiptið með einhver plön og markmið þannig að ég skráði mig í Austur-Asíufræði í Háskóla Íslands.

2. Hvenær og hvert fórst þú sem skiptinemi til Kína?

Ég fór til Ningbo kreppuárið mikla 2008. Þar var ég aðeins eina önn. Síðan fór ég aðra önnina mína, vorönn 2009, til ChangChun í norðrinu.

3. Hvernig líkaði þér borgin og háskólinn sem þú lærðir við?

Ningbo var ágætis borg. Ég hafði áður búið í Shanghai sem er rétt við Ningbo þannig að það var margt sem ég þegar kannaðist við. Í raun fannst mér Ningbo alltaf vera eins og lítil Shanghai en þó vantaði glamúrinn. Fólkið var afar vinalegt, sérstaklega á háskólasvæðinu. Skólinn var einnig ágætur, hlýlegir kennarar og mjög góður aðbúnaður.

ChangChun var mér meira að skapi, hún virtist grá, köld og hrá í fyrstu en því lengur sem ég var þar því betur líkaði mér hún. Það gæti einnig spilað inn í að eins og aðrar kaldar borgir þá breyttist hún heilmikið með vorinu. Fólkið er hvassara en einlægt og nemendurnir voru í meirihluta frá Asíu en það gæti hafa gert það að verkum að meiri metnaður fylgdi náminu. Kennararnir ætluðust til mikils af okkur og maður þurfti að leggja nokkuð hart að sér til að halda í við samnemendur. Aðbúnaðurinn var alls ekki eins góður en það var á nokkurn hátt hluti af sjarmanum.

4. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég ferðast allt of lítið þegar ég flyt til Kína en mér finnst ég þó ekki þurfa að leita langt til að finna eitthvað ævintýri. Líklega þótti mér Peking áhugaverðasti staðurinn en ég á ennþá eftir að skoða svo margt!

5. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Lífið var afar atburðaríkt í Peking þar sem ég bjó í hútong hverfi árin 2011 og 2012, en mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég var á leið í vinnu og ég sá stóra önd á vappi með lítinn pug hund sér við hlið... ég skælbrosti og hugsaði með mér hversu oft einmitt svona litlir og skemmtilegir hlutir gerast í Peking og það var einmitt það sem ég elskaði við borgina! Það kom svo seinna í ljós að þetta voru bestu vinir sem fóru í daglega göngutúra.

6. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Það besta eru steiktar Shanghai dumplings - Xiao Long Bao. Það spýtist úr þeim súpa (feiti) þegar maður bítur í þær! Svo góðar að ég fór á námskeið til að læra hvernig á að gera þær.

Það versta hlýtur að vera stinky tofu - Chou Doufu... eða silkiormurinn, allavegana er áferðin verri á honum.

7. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Það kom mér svo margt á óvart: Hversu lítið af vestrænu fólki þú sérð daglega, hversu ótrúlega góður og fjölbreyttur maturinn er, hversu öruggur þú ert á götum stórborga, hversu svöl og dugleg kínverska þjóðin er, hversu fallegir staðir eru í Kína, gríðarlegu andstæðurnar í byggingum, hverfum og borgum... ég gæti talið áfram endalaust! Margir af þessum hlutum læddust aftan að mér með tímanum og í raun vil ég meina að ég hafi aldrei fengið þetta rómaða menningasjokk þegar ég flutti til Kína en ég fæ það þó í hvert sinn sem ég flyt aftur heim til Íslands.

Við þökkum Klöru fyrir skemmtilegt spjall og værum meira en til í að smakka Xiao Long Bao hjá henni við tækifæri.

Sjá Fleiri Pistla