Fleiri Pistlar

Gísli Jökull

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Við fórum fimm saman frá Kínversk Íslenska Menningarfélaginu KÍM til Kína að taka þátt í 60 ára afmæli Vináttusamtaka Kínversku Alþýðunnar eða Chinese People's Association for Friendship with Foreign Countries CPAFFC. Athöfnin fór fram í Beijing en 60 ára afmæli er stór áfangi í Kína því þá lýkur heilum dýrahring. Ekki ósvipað og 100 ára afmæli hér á landi.

2. Hvað brölluðuð þið þar?

Fyrstu dagarnir voru í tilefni hátíðarhaldanna. Þá var okkur boðið í Höll Alþýðunnar við Tiananmen Torg þar sem forseti Kína, Xi Jinping, hélt ræðu og daginn eftir tókum við þátt í hátíðardagskrá hjá CCTV. Arnþór Helgasson, formaður KÍM, er í miklum metum hjá Kínverjum og íslenska sendinefndin naut góðs af því.

3. Heimsóttuð þið einhverja áhugaverða staði?

Fjölmarga. Eftir hátíðardagskrána þá buðu CPAFFC okkur til Shandong héraðs. Ég hafði óskað eftir því að fá að fræðast um Seinni heimsstyrjöldina í Kína og því var farið með hópinn til Taierzhuang en þar unnu Kínverjar sinn fyrsta sigur gegn Japönum.

Búið er að endurbyggja gömlu borgina sem ferðamannastað og eru söguleg minni út um allt. Svo fóru þau með okkur til borgarinnar Qufu og ég fékk að hitta prófessor Lee. Hann er fjörgamall og hefur tileinkað sér þennan hluta sögunnar.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Taierzhuang var frábært en það var líka gaman að hitta prófessorinn og þvælast um einn í Beijing. Tveir ferðafélaga minna höfðu búið þar um tíma og gátu farið með okkur á áhugaverða staði. Svo fannst mér furðu auðvelt að nota neðanjarðarlestina. Í raun auðveldara en leigubíla þar sem ég tala ekki kínversku.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég ákvað að gerast ævintýragjarn og borða þúsundfætlu og sporðdreka. Sameinu þjóðirnar hafa gefið út að skordýr séu vannýtt fæðuauðlind en persónulega vissi ég að ég myndi sjá eftir því ef ég myndi ekki prófa. Klærnar líkjast krabbakjöti en búkurinn koppafeiti og einhverju mjög ógeðslegu. Ég gafst upp eftir nokkra bita.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Tvennt, annars vegar þó að það sé fullt af fólki þá er nóg pláss og hitt snýr að biðröðum. Þar verður þú að passa þig að standa þétt við næsta mann eða einhver er skammlaust búinn að koma sér í bilið.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úr ferðinni?

Ég hafði sérstaklega gaman af fyrirlestri prófessor Lee. Hann var áróðursblandinn en Edda Kristjánsdóttir sem var nemandi í Beijing sagði að það hefði einkennt alla kennslu þegar hún bjó þar 1976 til 1981. Ég hafði lúmskt gaman af þessu og þetta var frískandi, skammlaust og fræðandi.

Sjá Fleiri Pistla