Fleiri Pistlar

Þór Matthíasson

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég hef verið með ævintýraþrá allt frá því ég man eftir mér. Einn daginn var ég á netinu og datt inn á síðu sem auglýsti heimagistinu hjá kínverskri fjölskyldu. Maður myndi stunda kínverskunám i hálft ár auk þess að gista heima hjá kínverskri fjölskyldu til þess að geta æft sig.

Ég mætti í skólann á hverjum degi en námið var algjört aukaatriði þegar maður var svo upptekinn að kynnast nýju fólki. Þar að auki endaði ég heima hjá kínverskum hjónum sem töluðu fína ensku þannig að það er óhætt að segja að kínverskukunnátta mín hafi ekki toppað 大山 í enda annarinnar.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Ég byrjaði á kínverskunámskeiðum í Beijing og endaði á að taka 4 ára B.A. nám í kínversku og viðskiptum. Það er tvennt sem fékk mig til þess. 1. Ég var ennþá að skemmta mér of vel til að geta hugsað mér að fara aftur heim og 2. Ég var búinn að eyða ári í undirbúning svo þessi ákvörðun virtist rökrétt. Eftir að ég útskrifaðist flutti ég til Hong Kong þar sem ég vann í rúm 2 ár við sölu- og markaðsmál hjá tveim mismunandi fyrirtækjum.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Já, þeir sem eru mér minnistæðastir innan Kína eru Yangshuo, Xiamen og Wuhan. Svo í Beijing er "Hole in the wall" besti dumplings-staður sem ég hef farið á, punktur.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Að kynnast öllu því fólki sem maður hitti frá mismunandi þjóðum og menningarheimum.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég man ekki eftir neinu sérstaklega slæmu en fannst flest allt mjög ljúffengt.

Til dæmis beikonvafðar rækjur djúpsteiktar með súrsætri sósu, fæ bara vatn í munninn við að skrifa þetta. Ég reyndi að fá mér þennan rétt í hvert sinn sem ég borðaði á veitingarstaðnum í skólanum og bekkjarfélagar mínir kölluðu réttinn "Þórs réttur", kannski ekki furða að maður bætti á sig eftir öll þessi ár.

Versta? Veit ekki, ef það leit illa út þá setti ég það vanalega ekki upp í munninn þannig að ekkert sérstakt stendur út.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Já mér fannst stórborgirnar töluvert þróaðari en ég bjóst við en á sama tíma kom mér mjög á óvart að sjá vagna dregna af ösnum um götur Beijing.

Þegar maður fer til annarra landa þá veit maður nú aldrei við hverju maður á að búast þannig að það er ekki beint eitthvað eitt sem kemur manni sérstaklega á óvart. En ég var samt hissa á því hversu rosalega "bureaucratic" Kína er í rauninni (sem kemur kannski ekki á óvart miðað við fólksfjöldann). Ef þú horfir á bíómyndina "Brazil" eftir Terry Gilliam þar sem aðal karakterinn er að reyna að fá tilskilin leyfi hjá einu ráðuneyti, þá sérðu hvernig það væri að fá klósettferðaleyfi í Kína ef kínverska ríkisstjórnin hefði eitthvað um það að segja.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Ekki beint óvenjulegt þar sem venjulegt er afstætt hugtak, en mér fannst það ekki beint venjulegt út frá íslensku sjónvarmiði að þegar ég fór í garðinn um helgar þá átti maður til að sjá eldri konur með myndir af ungum mönnum. Þessar konur voru víst mæður drengjanna og voru að reyna að auglýsa þá / pimpa þá út til tilvonandi tengdadætra.

Eins og flestir vita þá eru þó nokkuð fleiri karlmenn í Kína en kvenmenn, þannig að ef að kínversk stelpa er með erlendum karlmanni þá fær hún oft slæm augnaráð frá samlöndum. Út af þessu, þegar karlmennirnir eru að nálgast þrítugt og er ekki kominn með eiginkonu, þá taka mæðurnar til sinna ráða og reyna að finna einhverja stelpu fyrir syni sína. Þannig að maður fer í garðinn á sunnudagsmorgni og þar tekur við manni einhverskonar "match fair", mjög gaman það. Það tæki mig allan daginn að fara yfir öll þau atriði sem mér þótti skrítin í Kína en þetta var það fyrsta sem datt í kollinn á mér.

Sjá Fleiri Pistla