Fleiri Pistlar

Hjálmar S. Ásbjörnsson

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég hafði lengi haft áhuga á Kína og kínverskri sögu, líklega eftir að hafa horft á kvikmyndir þaðan. Þegar ég var við nám í Ástralíu kynntist ég fólki frá Kína sem jók enn áhuga minn á landinu og menningu þess. Svo einn daginn var mér sagt að ef ég vildi koma til Kína þá væri lítið mál að finna starf við að kenna ensku. Og mér leist bara vel á áskorunina og dreif mig út.

2. Hvað ert þú að bralla þar?

Ég er búinn að vera að læra kínversku og kenna ensku. Eins og er er ég í fullu starfi við að kenna munnlega ensku við Háskólann í Ningbo.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég hef nú ekki ferðast á neitt sérstaklega framandi staði ennþá en er búinn að ferðast til Xiamen, Hong Kong, Suzhou, Hangzhou, og Hainan eyju sem er stundum nefnd "Hawaii Kína" en það er rosalega falleg eyja.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Það er búið að vera mjög margt eftirminnilegt enda er ég búinn að vera hérna í næstum fjögur ár. Fyrstu vikurnar voru nokkuð eftirminnilegar og krefjandi þar sem ég komst að því að fólk almennt talar enga ensku og öll skilti og matseðlar eru eingöngu á kínversku þannig að það komu oft upp vandræði til dæmis við að taka leigubíl eða panta mat á veitingastað. Fyrsta íbúðin sem ég var tímabundið í var líka á frekar lágu plani og man ég að rúmið var ekki með neinni dýnu (fólk almennt séð sefur á hörðu rúmi) og að baðherbergið var smá glerkrókur inni í eldhúsinu!

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Maður er mest búinn að borða góðan mat hérna en þeir eru meistarar í að gera til dæmis einfalda grænmetisrétti alveg svakalega bragðgóða. Það skrítnasta sem ég hef borðað hérna eru uxatunga og andartunga.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Hvað fólk almennt talar ekki ensku (þó það sé nú eitthvað að lagast sérstaklega hjá ungu fólki) og hvað er mikil ringulreið til dæmis í umferðinni hérna. Svo já, að enginn kann kung fu hérna!

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Líklega að sjá fólk betla úti á götu. Oft er þetta fólk sem hefur lent í slysum og hef ég séð fólk betla sem vantar á útlimi eða fólk með hræðileg ör eftir brunasár. Stundum liggur fólkið á gangstéttum undir teppi og er kannski búið að skrifa eitthvað á blað. Sumir spila á hljóðfæri og sumir syngja í karókí græjur. Þetta hefur þó minnkað síðan ég kom hingað fyrst.

Sjá Fleiri Pistla