Fleiri Pistlar

Kristín Ketilsdóttir

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Árið 2001, þegar ég var 15 ára, flutti fjölskyldan mín til Dalian í Norður-Kína en pabbi rekur þar fyrirtæki sem verslar með fisk. Ég varð yfir mig ástfangin af landi og þjóð og hef verið hér meira og minna síðan.

2. Hvað ert þú að bralla þar?

Fyrst þegar ég kom vorum við Birna systir mín í einkakennslu, en Ívar litli bróðir minn var sendur í kínverskan skóla. Þetta var ævintýraveröld að búa í; umhverfið, fólkið, tungumálið, allt svo nýtt. Mannfjöldinn líka, en það unnu fleiri á hótelinu þar sem við bjuggum en í Bolungarvík þaðan sem ég kem.

Eftir að ég fór aftur til Íslands var ég ákveðin í að fara aftur út um leið og tækifæri gæfist. Við systkinin fórum þangað nánast hvert sumar eftir þetta og þegar ég kláraði Menntaskólann á Akureyri lá leiðin beint til Kína.

Ég tók ár við HR en námið átti ekki við mig og ég flutti út í kínverska sveit. Eftir það skráði ég mig í nám við lögfræði í HÍ en þegar tækifæri gafst á að vinna í Shenzhen í Suður-Kína var ég ekki lengi að segja að já.

Í dag er ég búsett í Shanghai og vinn fyrir bandaríska fyrirtækið Specialized þar sem ég er yfir konu- og þríþrautardeildinni þeirra í Kína.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég hef verið dugleg að ferðast hérna og komið til nánast allra héraðanna, en ef öllum 34 hef ég komið til 27.

Það er því erfitt að gera upp á milli staða, hvort sem það er ísveröldin í Harbin, hrísgrjónaakrarnir í Longji, Zhangjiajie þjóðgarðurinn, eða tíbesku þorpin sem ég hef heimsótt þegar ég hef hjólað um Gansu og Qinghai héröð.

Nýlega tók ég svo þátt í sundkeppni yfir Mekongá og það var virkilega fallegt þarna niðri við landamæri Myanmar.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Eftirminnilegast....... Ég hef lent í svo mörgum stórundarlegum uppákomum hérna.

Eitt skiptið þegar ég var að ferðast kynntist ég heimsfrægri söngkonu, Yang Erche Namu, sem er á aldur við pabba minn en maðurinn hennar er á aldri við mig. Við drukkum saman yak butter tea í höllinni hennar sem er staðsett í Lugu á landamærum Sichuan og Yunnan og hún sagði mér söguna á bakvið þorpið sitt og Mosuo-ættbálkinn sem býr þar.

Að syngja Sk8er Boy með Avril Lavigne fyrir 7 þúsund manns á samkomu í Langzhong.

Að lenda í fyrsta sæti í ITU þríþrautarkeppninni í Weihai.

Þegar ég synti yfir Gulafljót að vetri til. Vatnið var ekki nema 3°C, úti voru -19°C og þetta var í Guide í Qinghai héraði í 2600m hæð. Ein af áhugaverðari lífsreynslum sem ég hef átt.

Ég get endalaust haldið áfram, mér finnst þetta land gefa mér tækifæri á hverjum degi til að lenda í nýjum ævintýrum.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Besta: Xinjiang Dapanji, en Dapanji þýðir stór diskur af kjúkling. Þetta er örugglega uppáhaldsrétturinn minn og er frá Xinjiang héraði.

Versta: Stinky Tofu er það versta sem ég veit. Ef eitthvað er þá er bragðið verra en lyktin.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Það kom mér allt á óvart. Allt var framandi og nýtt og það skemmtilegasta við þetta land er að enn þann dag í dag kemur það mér á óvart.

Þegar ég hugsaði um Kína áður en ég kom sá ég fyrir mér hrísgrjónaakra eins langt og augað eygði, þar sem Kínverjar með stráhatta ynnu á frumstæðan hátt.

En að lenda í Dalian þar sem steinsteypa var nokkurnveginn það eina sem maður sá kom mér á óvart.

Seinna áttaði ég mig á að allt sem ég hafði ímyndað mér um Kína reyndist rétt, bara fyrir önnur svæði. Þetta land er svo ótrúlega stórt að nokkurn veginn allt sem maður ímyndar sér er í einhverju héraði nákvæmlega þannig.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Eftir að hafa eytt svona löngum tíma hérna að þá er skalinn fyrir það sem manni finnst óvenjulegt orðinn svolítið skekktur.

Að munkur með iPhone sendi mér reglulega skilaboð finnst mér svolítið sérstakt. Og líka að dýralæknirinn minn hafi verið spurður að því hvort hægt væri að éta köttinn sem komið var með til að aflífa eftir að hann hafði greinst með krabbamein.

Ég er samt örugglega að gleyma einhverju...

Við þökkum Kristínu kærlega fyrir frábært spjall og óskum henni til hamingju með glæsilegan árangur á sviði þríþrautar og öll hin ævintýrin í Kína.

Sjá Fleiri Pistla