Lærðu kínversku

Auk kínverskukennslu við Háskóla Íslands, í Menntaskólanum við Hamrahlíð og á grunnskólastigi býður Konfúsíusarstofnun reglulega upp á námskeið í kínversku.

Námskeiðin hafa ýmist verið haldin í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands, í fjarkennslu á netinu eða í Veröld - húsi Vigdísar, þar sem Konfúsíusarstofnun er til húsa.

Námskeið eru auglýst bæði hér á vefsíðu okkar og á Facebook-síðu Konfúsíusarstofnunar.

Af hverju að læra kínversku?

Kínverska er töluð af um fimmtungi mannkyns og verður án efa eitt af mikilvægustu tungumálum þessarar aldar. Kínverska veitir lykla að nýjum heimi sem eykur víðsýni og þekkingu. Kínverska er öðruvísi tungumál sem gaman er að kljást við, ekki síst ritmálið.

Námskeið í boði

Byrjendanámskeið fyrir börn 8 -12 ára

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós mun bjóða upp á byrjendanámskeið í kínversku fyrir börn á aldrinum 8-12 ára. Um er að ræða 8 skipta námskeið einu sinni í viku á laugardögum kl. 10:30 – 11:45 sem hefst 13. mars og stendur til og með 15. maí. Kennt verður í Veröld – húsi Vigdísar, Brynjólfsgötu 1, 107 Reykjavík. Námskeiðsgjald er 10.000 kr.

Athugið að kennt verður bæði laugardaginn fyrir pálmasunnudag (27.3) og 1. maí. Uppgjör námskeiðsgjalds fer fram eftir að námskeiðið er byrjað.

Kennari

Kennari námskeiðsins er Snæfríður Grímsdóttir, BA í kínverskum fræðum frá HÍ. Á námskeiðinu verður farið í grunnstef í kínversku talmáli og rittáknum. Áhersla verður á að hafa tímana skemmtilega og áhugaverða og mikið lagt upp úr leikjum og söng.

Snæfríður byrjaði að læra kínversku árið 2008 í Tævan og útskrifaðist síðar með BA gráðu í kínverskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 2015. Hún stundaði skiptinám í kínversku við Peking háskóla árið 2015 og kláraði síðar kínverskunámskeið við King's College í London skömmu seinna. Snæfríður hefur nokkra reynslu af grunnskólakennslu en hefur einnig áður haldið fyrirlestra um Kína og kínverska tungu innan grunnskóla í Reykjavík.

Skráningu á þetta námskeið er lokið

Kínverska í ferðaþjónustu

Kínverskir ferðamenn ferðast nú í auknum mæli til Íslands. Margar áskoranir fylgja menningarmun í samskiptum við Kínverja og til að takast á við þær er nauðsynlegt að hafa þekkingu á þeirra venjum og tungu. Þetta námskeið er tilvalið fyrir þá sem vill bjóða upp á framúrskarandi þjónustu á þessum vaxandi markaði.

Á námskeiðinu verður fjallað um kínverska ferðamenn og hvernig þróun á þessum markaði hefur verið síðastliðin ár. Skoðað verður hvert kínverskt ferðafólk hefur helst verið að fara og eftir hverju þau sækjast á ferðalögum sínum. Jafnframt verður farið yfir grunnatriði í kínversku sem mun veita þátttakendum góða innsýn í tungumálið. Tungumálahluti námskeiðsins verður kenndur á ensku.

Námskeiðið er haldið á netinu og því gefst öllum tækifæri óháð búsetu að taka þátt. Tilvalið fyrir ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni.

Námskeiðið byrjar mánudaginn 15. mars og lýkur 29. apríl með viku pásu vegna páska.

Kennarar

Steingrímur Þorbjarnarson fór til náms í Kína árið 1985 og útskrifaðist frá Málaskólanum í Peking með BA í nútímakínversku. Eftir heimkomu nam hann einnig mannfræði og jarðfræði við HÍ, svo og leiðsögn í MK. Allt frá árinu 1990 hefur hann starfað sem leiðsögumaður fyrir kínverskumælandi ferðamenn á Íslandi.

Steingrímur hefur kennt á öllum skólastigum, einkum jarðfræði og kínversku, auk námskeiða fyrir leiðsögumenn. Undanfarin ár var hann sölumaður á Asíumarkaði fyrir Iceland Travel.

Song Hongling hefur starfað sem kínverskukennari hjá Konfúsíusarstofnuninni síðan árið 2019 og verður kínverskukennari þessa námskeiðs. Hún er með MA í þýðingarfræðum frá Ningbo-háskóla.

Skráningu á þetta námskeið er lokið

HSK-próf - 汉语水平考试

Konfúsíusarstofnunin Norðurljós sér um alþjóðleg HSK-stöðupróf í kínversku sem haldin eru árlega í Reykjavík. Prófin fara fram í Háskóla Íslands og eru opin öllum áhugasömum.

Prófin vorið 2021 verða haldin laugardaginn 20. mars.

Skráningu í HSK-próf árið 2021 er lokið.

HSK-prófunum er skipt í 9 stig. HSK 1 er auðveldast og HSK 9 er erfiðast. Nánari upplýsingar um prófin má finnahér og ef einhverjar spurningar vakna má alltaf senda okkur tölvupóst eða líta til okkar á skrifstofuna í heitan tebolla og spjall.

Styrkir til náms

Til þess að sækja um styrk Konfúsíusarstofnunarinnar fyrir námi í Kína þarf nemandi að standast HSK-próf. Nánari upplýsingar um styrki í boði má finnahér.

Við erum stödd í Veröld - húsi Vigdísar