Námsmannalífið í Ningbo

Upphafið

Ég heiti Jón Gunnar og er 22 ára. Ég ólst upp í Grindavík og flutti ekki þaðan fyrr en ég byrjaði í háskólanum 2013. Ég er að læra viðskiptatengda kínversku við Háskóla Íslands og er þessa stundina staðsettur í skiptinámi við Ningbo háskóla í Kína. Ég og Bergþóra kærastan mín búum saman hérna og í skólanum eru átta aðrir íslendingar. Í vetur ætla ég ásamt Guðbjörgu að skrifa pistla fyrir Konfúsíusarstofnunina til þess að veita ykkur innsýn í hvernig lífið hjá okkur í Ningbo gengur fyrir sig.

***

Guðbjörg, Bergþóra og Jón Gunnar

Jæja sæl verið þið, ég heiti Jón Gunnar og ætla í vetur að skrifa pistla um það hvernig lífið er í Ningbo. Ég og kærastan mín, Bergþóra búum saman á nemenda hostelinu við Ningbo Háskóla í Kína. Ég er að læra kínversku og er hér í skiptinámi frá Háskóla Íslands og Bergþóra byrjuð að kenna ensku. Við munum búa hérna í tæpt ár og stefnum við á að nýta þann tíma mjög vel enda ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til þess að flytja til Kína, af öllum löndum í heiminum.

Við komum til Ningbo þann 31. ágúst á mjög heitum degi og við tók taxaferð sem endaði á hostelinu þar sem við munum búa á meðan við erum í Kína. Þetta er hostel sem skólinn er með fyrir erlenda nemendur. Herbergið okkar er nokkuð stórt og rúmgott en það fyrsta sem þurfti að gera var að taka til hendinni og þrífa. Ég er frekar mikil pempía þegar kemur að drasli og drullu, það má því segja það að ég hafi alveg einstaklega gott af því að flytja til lands eins og Kína og læra að heimurinn er ekki jafn hreinn og fínn og Ísland. Herbergin eru bara alveg eins og herbergi á ódýru hóteli en það virðist bara ekki vera neitt sem ferð í IKEA getur ekki lagað og er herbergið núna orðið mun heimilislegra.

Skólinn er staðsettur töluvert langt frá miðborginni, en það er viss kostur útaf fyrir sig. Allt er morandi í litlum búllum og götusölum og er staðurinn mun “kínverskari” heldur en stórborgirnar, ef svo má að orði komast. Götusalarnir selja hættulega góðan mat á hættulega lágu verði. Ég sem matmaður mikill er farinn að hafa áhyggjur af því að passa ekki í sætin í flugvélinni þegar við höldum heim á næsta ári. Við erum sem dæmi að tala um stóra og góða núðluskál með allskonar gómsæti á 140kr og svo ef maður vill gera vel við sig og fá sér einn ískaldann öllara með þá kostar hann heilar 80-100kr hjá honum Mr. Myagi félaga okkar (götusali sem lítur út nákvæmlega eins og yngri útgáfan af Mr. Myagi úr Karate Kid).

Við keyptum okkur sem betur fer kort í ræktina hérna. Það var að opna glæný líkamsræktarstöð rétt við hliðina á hostelinu sem við búum á. Ég verð að segja að það er sérstök upplifun að mæta inn í líkamsrækt í Kína verandi hvítur, hávaxinn og með skegg þá er mikið starað á mann. Einnig er skemmtilegt að upplifa það að vera stærstur og sterkastur í ræktinni eftir að hafa lyft innan um vöðvabúntin í World Class síðustu ár. Ég get ekki neitað því að það kitli egópinnan hjá manni þegar það er beðið um mynd með manni í ræktinni. Það sem mér fannst hins vegar virkilega sérstakt hérna er að menn reykja í ræktinni! Ég vissi að kínverjar reykja út um allt, en í ræktinni af öllum stöðum, kommon.

Skólinn er nýbyrjaður og er maður frekar ryðgaður í lærdómnum en það kemur vonandi þegar rútínan kikkar inn. Fyrsta vikan í skólanum var frekar sérstök, við vorum sett í bekki og við íslendingarnir enduðum öll í sama bekknum. Við erum í þremur áföngum, allir kínversku kúrsar. Ég stefni hins vegar á það að segja mig úr einum þeirra, þar sem að kennarinn hatar mig af einhverri ástæðu. Sami kennari tók mig algjörlega í gegn upp úr þurru í fyrra á sumarnámskeiði sem við fórum á í Ningbo og í fyrsta tímanum hérna byrjaði sama ruglið. Ég ætla ekki að láta þessa konu eyðileggja skólann hérna fyrir mér og ætla því að taka viðskiptafræðikúrs í staðinn sem ég er mjög spenntur fyrir.

Við erum búin að standa í allskonar stússi við að redda hinu og þessu. Ég var smá stund að átta mig á því að í Kína er allt vesen, hvort sem það er að redda sér símkorti, interneti, skrá sig í skólann, eða bara nefndu það. Hins vegar um leið og maður fer bara að spila með og fattar að svona rúlla bara hlutirnir hérna þá er þetta ekkert mál. Einhverra hluta vegna get ég ekki fengið internet inn á herbergið mitt sem er frekar glatað þar sem að skólinn býður ekki upp á internet fyrir nemendur sem eru í skiptinámi. Þannig að ég þarf að standa í því að slást við hið kínverska internet á misgóðum kaffihúsum, með misgóðum árangri.

Lífið í Kína er þrátt fyrir allt bara virkilega gott, ég tala nú ekki um það þegar ég er að borða fyrir um 500-700kr á dag og hitinn og rakinn svo mikill að maður er alltaf blautur af svita. Á meðan fær maður fréttir að heiman að hellisheiðin sé lokuð vegna veðurs og að hver stormurinn á fætur öðrum leggist yfir landsmenn heima á Íslandi.

Munum að njóta.

Kv. Jón Gunnar