Námsmannalífið í Ningbo

Jarðbundinn

Nú er maður aðeins farinn að svífa niður af bleika skýinu sem maður var á í byrjun annar þegar allt var svo skemmtilegt og spennandi. Nú má segja að daglegt lífið sé hafið hjá okkur hérna úti. Það er nóg að gera hjá mér í skólanum og í vinnunni hjá Bergþóru. Það hefur lítið markvert verið að gerast síðustu vikurnar þannig að ég ætla að segja ykkur aðeins frá lífinu í skólanum.

Ningbo Háskóli var stofnaður árið 1985 og er því tiltölulega ungur skóli, byggingarnar eru samt alveg farnar að láta sjá á sér, en það virðist vera þannig að kínverska leiðin sé að byggja bara nýtt í stað þess að bæta og laga það sem til er.

Skólalóðin er frekar stór og þrátt fyrir að búa á skólalóðinni þá tekur það okkur um korter að labba í skólann. Skólalóðin er mjög snyrtileg enda er fólk að sópa og taka til allan sólarhringinn hérna, ég sá til dæmis einu sinni konu að labba á milli ruslatunnanna á gangstéttunum og þurrka af þeim með tusku.

Þegar við skráðum okkur í skólann fórum við í smá viðtal þar sem við töluðum við kennarana og þeir settu okkur í bekki. Við vorum öll sett í C bekk sem er næst erfiðasta stigið, en eftir smá tíma voru flestir búnir að færa sig í B bekk. Nú erum við fjögur eftir í C bekknum.

Í bekknum okkar er mjög mikið af asíubúum, flestir frá Suður-Kóreu og Indónesíu. Við erum í þremur áföngum; kínversku áfanga, hlustunar og tal áfanga og síðan eigum við að vera í lestrar áfanga, en eins og ég hef áður sagt þá sögðum við okkur úr honum vegna þess að kennarinn var eins og hún var og tókum stjórnunar áfanga í staðinn í viðskiptafræðideildinni.

Kennslan hérna er mjög ólík því sem við þekkjum heima. Hér er eðlilega allt kennt á kínversku þá meina ég allt. Kennararnir kunna sirka tvö orð í ensku og var maður ansi steiktur og þreyttur í höfðinu eftir daginn fyrstu vikurnar. Þetta er hins vegar allt að koma til og er ég farinn að skilja meira og meira með hverjum deginum sem líður.

Eitt dæmi um það hvernig kennslan er ólík kennslunni heima er að í hlustunar og taláfanganum þá förum við í svokölluð tingxie (听写) þar sem kennarinn les upp orð og við eigum að skrifa táknin. Þegar við fáum síðan útúr þessu þá les kennarinn upp einkunnirnar hjá fólki og allir þeir sem ekki fengu 10 skulu gera svo vel og bæta sig. Meira að segja 9.8 dugar ekki, það er bara 10 eða ekkert. Fyrst fannst mér þetta mjög skrýtið, en núna finnst mér þetta bara skemmtilegt.

Viðskiptafræðiáfanginn sem við erum í er kenndur á ensku og er mjög skemmtilegur. Í áfanganum eru mest megnis krakkar frá Kína og okkur líður oft eins og að við séum hundrað ára þegar við mætum í tíma þar sem þau líta út fyrir að vera yngri en þau eru, og svo eru þau líka bara mjög ung.

Framundan hjá okkur eru miðsvetrarprófin og því mikill lærdómur hjá okkur akkúrat núna. Við erum þó alls ekki að gleyma að skemmta okkur og njóta.

Lífið er yndislegt.

Þar til næst, Jón Gunnar.