Námsmannalífið í Ningbo

Að rokka flísgalla

Jæja þá er enn einn mánuðurinn búinn hérna í Kína, hrikalega er þetta búið að líða hratt. Það hefur lítið gerst upp á síðkastið, nóg að gera í skólanum og allt gengur vel. Ég er kominn með vinnu við að kenna litlum strák ensku einu sinni í viku sem er mjög skemmtilegt. Hann er sex ára gamall og byrjar í skóla í haust og mamma hans hefur virkilega miklar áhyggjur af því að hann kunni enga ensku og vill að hann læri hana sem fyrst, hann er jú einu sinni orðinn sex ára. Ég fæ 3000kr á tímann fyrir að kenna honum og get nú ekki kvartað yfir því, en foreldrar hans eiga mikla peninga og búa þau í svakalegri íbúð. Þetta er einmitt mjög algengt í Kína, að fólk sem á mikla peninga leggur mjög mikið upp úr menntun barnsins síns og er því tilbúið að borga útlendingum háar til þess að vera með börnin í einkakennslu.

Hverfið sem ég er að kenna í

Bergþóra fer heim núna í lok maí til þess að fara að vinna. Mamma hennar og móðursystir hennar eru mættar til Kína og ætla að vera hér í tvær vikur. Við erum stödd þessa stundina í Beijing og ætlum síðan til Shanghai og eyða þar nokkrum dögum áður en þær fara heim.

Við höfum skoðað margt hér í Beijing, þó aðallega þessa helstu staði eins og Kínamúrinn, Forboðnu borgina, Torg hins himneska friðar og Temple of Heaven. Ég hef séð þessa staði áður en það er alltaf jafn gaman að skoða þá. Kínamúrinn er klárlega einn magnaðasti staður sem ég hef nokkurn tíman komið á og líklegast einn magnaðasti staður í heimi.

Grafhýsið hans Mao

Temple of heaven, mögnuð bygging alveg.

Mao vakir yfir inngangnum af Forboðnu borginni

Það er alltaf jafn stórkostlegt að koma á Kínamúrinn, það skemmdi ekki heldur fyrir að við fengum svona frábæran dag. Ég hef ekki séð eins bláan himinn síðan ég kom til Kína.

Það er alltaf jafn skrýtin tilfinning að upplifa mannmergðina í þessum borgum, hún er alveg svakaleg. Það er fólk útum allt og þá auðvitað sérstaklega á ferðamannastöðunum. Þar eru kínverjarnir að hamast við að troða sér og ná myndum af hinum og þessum hlutum, ég er það heppinn að vera hávaxinn og get séð yfir hópinn en það er alltaf jafn gaman að fylgjast með þeim. Það er alltaf eins og himinn og jörð séu að farast það er svo mikill asi í þeim. Það verður gaman að koma til Shanghai enda er það uppáhalds borgin mín. Þar ætlum við að slaka aðeins á og sýna gestunum okkar þessa mögnuðu borg.

Í þessum pistli langar mig að taka fyrir fatatískunu hérna í Kína. Þegar við skoðum fatastílinn hjá okkur heima á Íslandi og síðan hjá Kínverjum þá er ekki margt sem er líkt, okkur finnst fötin hérna vægast sagt skrýtin. Útlitsdýrkunin sem er í gangi á vesturlöndum á sannarlega einnig við hérna í Kína, en það er samt eitt sem mér finnst að við megum læra af Kínverjum - fólk hérna klæðir sig bara nákvæmlega eins og það vill og það er enginn að dæma þig fyrir það. Þó að þig langi í Hello Kitty peysu og tösku í stíl þá rokkar þú það bara og enginn pælir í því. Það er líka mjög vinsælt að vera í fötum sem standa á einhverjar mjög steiktar setningar eða orð, sem er mjög gaman að sjá.

Hér rokka menn bara það sem þeim finnst töff

Já ufe is hard maður

Queerjungle, algjörlega að meðidda

Preach it

Þessi bara með heila ræðu aftan á sér

Annað sem ég hef tekið eftir er að líkamsræktarstöðvar eru líklegast frekar nýlegt fyrirbæri í Kína. Þar er tískan mjög sérstök eða í raun bara engin. Ég er vanur að æfa í World Class heima á Íslandi og þar leggur fólk kapp á að vera í flottustu Nike skónum eða fötunum og eiga allt það nýjasta. Hér í Kína er þetta hins vegar alveg á hinn veginn; fólk mætir oft bara í þeim fötum sem það er í þann daginn og er að rífa í járnið í skyrtunni, gallabuxunum og lakkskónum. Það er mjög gaman að fylgjast með því og það besta við það er að enginn er að kippa sér upp við það. Mjög vinsælt er líka að fólk fari í göngutúra í náttfötunum sínum á kvöldin eða sé í mjög svo litríkum flísgöllum á vappinu, svona eitthvað sem afar fáir myndu láta sér detta í hug að ganga í heima á Íslandi.

Einn sultu slakur í kvöld göngunni í náttfötunum

Þangað til næst
Jón Gunnar