Námsmannalífið í Ningbo

Tæland og Singapúr

Næst á dagskrá hjá okkur var að ferðast um í Tælandi. Við áttum miða til Bangkok og vissum að við ætluðum að komast þaðan til suður Tælands, en hvernig eða hvert átti eftir að koma í ljós.

Við lentum í Bangkok og leist þokkalega vel á. Bangkok er bara þessi týpíska stórborg, fín en kannski ekki það sem við vorum að leita af sem voru strendur og slökun. Við hittum Daða og Þóru í Bangkok en hann Daði var einmitt með okkur í bekk í háskólanum og er í skiptináminu sínu í Shanghai. Við áttum gott kvöld með þeim þar sem við borðuðum saman og skelltum okkur út á lífið.

Íslendingar samankomnir í Bangkok

Næturlífið í Tælandi er mjög villt og fannst okkur það mjög skrýtið, en þetta var bara byrjunin á því sem koma skyldi hvað skrýtið varðar.

Við tókum þá ákvörðun að fara til Koh Lanta sem er eyja í suður Tælandi og eyða sjö dögum þar. Við tókum lest suðureftir og svo bát yfir á eyjuna. Koh Lanta er líklegast ein mesta paradís sem ég hef komið til, það var ekki neinn asi og örtröð, allir bara sultuslakir og góðir á því. Hostelið okkar var líka frábært og eigandinn hann Sun alveg stórkostlegur en hann kunni meðal annars nöfnin á öllum sem voru á hostelinu sem lét okkur líða eins og við værum heima hjá okkur. Við verandi þessir týpísku Íslendingar vorum eins og lítil börn þegar við komumst loks í það að tana á ströndinni. Við ofmátum þó húðina okkar og brunnum hressilega og þá sérstaklega hann Ísak. Það var kannski ekki skrýtið að við brunnum enda var 37 stiga hiti og ekki ský á lofti. Ísak hljóp út í búð og keypti sér jógúrt enda gamalt húsráð að bera á sig jógúrt þegar maður brennur hressilega, eftir þetta breytti Sun nafninu á Ísaki í Mr. Yoghurt og var hann kallaður því nafni það sem eftir lifði ferðar.

Fallegt sólsetrið á Koh Lanta

Ein af ströndunum á Koh Lanta

Mr. Yoghurt eldrauður eftir fyrstu umferð af jógúrti

Á milli þess að liggja á ströndinni að lesa með bjór í hönd, þá gerðum við ýmislegt. Við leigðum okkur meðal annars mótorhjól og keyrðum um alla eyjuna sem var alveg frábært. Einnig fórum við í bátsferð þar sem við fórum á milli nokkurra eyja og snorkluðum og slökuðum á, það var geðveikt. Etir frábæran tíma á Koh Lanta þá tók við næsta eyja sem var Koh Phi Phi.

Mótorhjólatúr

Stórglæsilegt útsýnið

Fjóreykið á góðri stundu

Koh Phi Phi er þekkt sem mikil djamm eyja og drauma staður bakpokaferðalanganna. Við hittum fyrir hann Hjalta æskuvin minn og félaga hans en þeir eru einmitt á Asíu flakki þessa dagana og var það virkilega gaman að hitta þá og við skemmtum okkur vel. Við fórum meðal annars öll saman í ferð þar sem við snorkluðum á ennþá fallegri stöðum en síðast og sáum geggjaða staði, þar á meðal ströndina þar sem The Beach með Leonardo Dicaprio var tekin upp, sem var það virkilega gaman. Við lentum í þeim leiðindum að það var klikkaður vindur á leiðinni heim og ansi mikill öldugangur, sem var ekki beint skemmtilegt.

Við í miklu stuði ásamt Hjalta, Skarpa og Binna

Hin týpíska Koh Phi Phi mynd

Hópurinn að snorkla í tærum sjónum

Við lentum síðan í því að fá all hressilega í magann. Við bjuggumst svo sem við því að það myndi gerast á einhverjum tímapunkti í reisunni, en það er samt alltaf jafn leiðinlegt að fá magavírus. Fyrst steinlá Bergþóra, síðan fylgdi ég og svo Ísak og Guðbjörg. Ísak og Guðbjörg voru hins vegar ekki svo slæm, þannig að þau komust áfram á næsta áfangastað sem var Phuket. En ég og Bergþóra þurftum að framlengja um eina nótt á Koh Phi Phi þar sem að við vorum engan vegin orðin góð.

Eins og ég sagði þá var Phuket næst á dagskrá og var það okkar síðasta stopp í Tælandinu góða. Hjalti og vinir hans voru nýkomnir þaðan þegar við hittum þá á Phi Phi og lýstu þeir Phuket sem Benidorm Asíu. Sú lýsing hitti beint í mark og það var tilfinningin sem við fengum þegar við loksins komum þangað. Við áttum pantaðar þrjár nætur á hosteli og eftir það vissum við ekki alveg hvað við ætluðum að gera en enduðum á því að finna flott hótel á sama verði og hostelið. Hótelið var á besta stað og með sundlaug sem var virkilega næs eftir allar strendurnar og sandinn sem þeim fylgir.

Ég nefndi í byrjun pistilsins hvað næturlífið í Tælandi væri sérstakt. Það á einkum við Phuket þar sem næturlífið gjörsamlega tryllt og allt virðist mega. Það var annar hver maður að reyna að bjóða okkur á svokölluð Ping Pong show og aðrar eins skrýtnar sýningar. Það sem einkennir líka næturlífið í Tælandi eru hinir svokölluðu ladyboys. þeir voru gjörsamlega útum allt og áttum við oft í vandræðum með að sjá hvort að um væri að ræða konur eða karla. Við áttum eitt gott kvöld þar sem að við sáum billjard borð inni á einum staðnum og ákváðum að skella okkur þangað enda komin með æði fyrir billjardi eftir veruna í Kína. Við tókum síðan eftir því að þar inni og á næstu stöðum voru einungis ladyboys að vinna. Ein stökk meðal annars beint að Bergþóru og fór að bera saman brjóstin á sér við hennar og sagði að það gengi ekki að Bergþóra væri með stærri brjóst en hún þannig að hún ætlaði að fá sér stærri næst. Mjög klikkað en skemmtilegt kvöld.

Bergþóra og Alex vinkona hennar sem langaði í stærri brjóst

Spiluðum ansi mikið Billjard í ferðinni

Síðustu dagana í Tælandi notuðum við til þess að hanga á sundlaugarbakkanum að tana með bjór í hönd, fullkomin slökun eftir allt ferðalagið. Síðasta kvöldið kom síðan að því að hún Guðbjörg yfirgaf okkur en hún átti langt ferðalag fyrir höndum heim til Íslands.

Næsti áfangastaður hjá okkur hinum var Singapúr. Þar ætluðum við að vera í 2 daga áður en við færum aftur til Kína. Singapúr er stórkostleg borg, virkilega hrein, vel skipulögð og falleg. Það greip strax athygli okkar hvað borgin var í raun hljóðlát. Það var enginn að flauta út í loftið og keyra eins og fávitar eins og við erum vön í Kína, þetta rann allt mjög smurt. Ég gæti klárlega hugsað mér að búa í þessari borg, en að vísu er hún dýr en reyndar bara svipað og Ísland. Við erum orðin alltof góðu vön í Kína.

Fallegt í Singapúr

Mögnuð þessi bygging

Þangað til næst

Jón Gunnar