Námsmannalífið í Ningbo

Kambódía

Áfram hélt ferðalagið okkar og eftir þrjá daga í slökun í Hoi An í Víetnam fórum við til Kambódíu, sem liggur á milli Víetnam og Tælands. Ég viðurkenni að ég hafði ekki hugmynd um hvað Kambódía hafði upp á að bjóða fyrr en Ísak stakk upp á því að við myndum ferðast þar um í nokkra daga og skoðuðum Angkor Wat musterið. Við ákváðum að skella okkur þangað eftir að hafa skoðað myndir af undrinu og sáum svo sannarlega ekki eftir því.

Við flugum frá Hoi An til Siem Reap sem er borg í Kambódíu. Okkur leist ekki vel á blikuna þegar við flugum yfir borgina að kvöldi til og sáum einungis nokkur ljós hér og þar. Þetta hlyti þó að vera ágætur staður, enda var Kambódía var vinsælasti áfangastaður ferðamanna í suð-austur Asíu árið 2015. Við lentum á flugvellinum og höfðum beðið starfsmenn hostelsins sem við gistum á um að sækja okkur á flugvöllinn, en það er þjónusta sem mörg hostel bjóða upp á. Þegar við komum út af flugstöðinni tók á móti okkur einn lítill Tuk-Tuk sem er mótorhjól með vagn aftan í og við tróðum okkur í tvo þannig. Svo héldum við af stað á hostelið þar sem við sofnuðum vært og vöknuðum næsta morgun til þess að halda í skoðunarferð um Angkor Wat.

Ísak að ræða við Mr. Tai og hinn eini sanni Tuk-Tuk sem við fórum í útum allt.

Við vöknuðum snemma og eftir okkur beið hann Mr. Tai, en hann var einmitt Tuk-Tuk bílstjórinn okkar daginn áður, og hann ætlaði að keyra okkur um Angkor Wat þennan daginn. Fyrir þá sem ekki vita hvað Angkor Wat er þá er það stærsta trúar musteri í heimi og mæli ég með því að þið kynnið ykkur málið hér. Við vissum að þetta yrði flott en ekki eins stórkostlegt og það var í raun.

Tai keyrði okkur um allt svæðið og við skoðuðum við allskonar musteri og staði á víð og dreif um svæðið. Svæðið er alveg gríðarlega stórt og það er boðið upp á eins dags, þriggja daga og viku túra. Það er svo mikið að sjá og ummál svæðisins er um 80 kílómetrar, þannig að það er kannski ekki skrýtið að það sé hægt að dunda sér þarna í viku. Við stoppuðum í hádegismat við eitt musterið og buðum Tai upp á mat líka. Hann var alveg gríðarlega þakklátur og sagði að hann hefði aldrei haft efni á þessu, en þetta var máltíð upp á 600 íslenskar krónur. Þetta stakk okkur smá og þá sáum við hversu mikil fátækt ríkir í raun í landinu.

Þetta er hluti af musteri sem er kallað Tomb raider vegna þess að bíómyndin Tomb raider var tekin þar upp.

Þetta er musteri sem að Kínverjar styrkja og sjá um enduruppbyggingu á.

Rosalega falleg smáatriðin í þessum byggingum.

Við tókum stuttan hring (sem tók sjö klukkutíma) og skoðuðum nokkur musteri og aðra merkilega staði á svæðinu. Þegar sólin tók að lækka á lofti drifum við okkur í Angkor Wat musterið sjálft til þess að sjá sólsetrið. Það var hreint út sagt mögnuð upplifun. Það eru mjög strangar reglur um að maður verði að vera í fötum sem hylja axlir og hné, eitthvað sem við höfðum ekki hugmynd um þannig að við þurftum að kaupa okkur meiri föt til þess að hylja þessa líkamsparta og komast inn á svæðið sjálft. Það var algjörlega þess virði þegar við komumst upp í musterið og sáum sólina setjast í fjarska. Þetta var stórkostleg upplifun sem ég mun ekki gleyma í bráð.

Sjálft Angkor Wat

Tekið yfir svæðið ofan úr Angkor Wat musterinu

Munkar að hugleiða

Daginn eftir þetta vöknuðum við snemma til þess að skoða gamalt þorp sem kallast "Floating Village", nema hvað að það er þurrkatímabil í Kambódíu, og verður það næstu mánuðina, og því var ekki beint mikið eftir af vatninu sem við sigldum um á. Það var samt áhugavert að sjá hvernig fólkið þarna býr og við löbbuðum aðeins um þorpið í gríðarlegum hita og heitum sandi. Þegar við komum heim leit út fyrir að við værum komin með fínt tan eftir daginn í sólinni. Það reyndist ekki rétt og brúni liturinn skolaðist fljótt af í sturtunni.

Vatnssprænana sem við sigldum um á

Vatnaþorpið séð frá ánni

Gengið um þorpið

Næstu tveir dagar fóru í það að slaka á áður en við héldum til Tælands, en því ég segi ykkur frá í næstu færslu.

Þangað til næst, munum að njóta.
Jón Gunnar