Námsmannalífið í Ningbo

Komin heim

Komin heim í heiðardalinn!

Eins og ég nefndi í síðustu færslu þá endaði ferðin okkar í Singapúr. Í flugvélinni á leiðinni heim til Ningbo fundum við strax að við vorum á leiðinni til Kína, full vél af Kínverjum með vesen og læti eins og þeim einum er lagið. Um mig fór þessi æðislega tilfinning og tilhlökkunin var mikil að komast heim.

Við lentum í Ningbo seint að kvöldi til og tókum taxa heim á skólasvæðið og var ég með fast bros á mér allan tímann. Ég hlýt að vera farinn að elska Kína svona svakalega! Kuldinn tók á móti okkur í öllu sínu veldi og ekkert hafði breyst frá því að við yfirgáfum Kína fimm vikum áður. Það þýddi því ekkert annað en að skella sér í föðurlandið og komast aftur í rútínu.

Skólasvæðið

Nongmao, gatan þar sem við kaupum matinn okkar

Dagurinn eftir að við komum heim fór í það að skrá sig í skólann og velja áfanga. Skólinn síðan byrjaði á fullu á mánudeginum eftir. Ég er þessa önnina skráður í tvo kínversku áfanga og tvo viðskiptafræði áfanga. Ég er einn í öllum þessum áföngum, enda Guðbjörg og Ísak farin heim. Ég er því búinn að kynnast fullt af nýju fólki sem er mjög skemmtilegt enda alltaf gaman að kynnast nýju fólki allsstaðar að úr heiminum og víkka sjóndeildarhringinn. Skólinn gengur bara sinn vanagang og það er mjög gaman í skólanum.

Það var frítt í subwayinn einn laugardaginn, þá var ástandið svona. Vanalega eru alltaf laus sæti fyrir alla og aldrei neinn troðingur.

Súpan sem við fáum okkur alltaf á mánudögum. Við veljum sjálf hvað fer í hana og svo er hún elduð fyrir okkur, er alveg hrikalega góð.

Ég og Bergþóra skelltum okkur síðan til Hangzhou síðustu helgi sem var mjög gaman. Hangzhou er staðsett í raun á milli Shanghai og Ningbo þegar sjóleiðin er ekki tekin inn í myndina. Borgin er sögð ein sú fallegasta í Kína og við sáum alveg afhverju. Hún er lágreist, mjög gróin og alveg virkilega falleg. Við skoðuðum Vesturvatnið (West Lake) sem er eitt aðal svæðið í borginni, en það er stöðuvatn staðsett inni í henni miðri og er mjög fallegt svæði. Það sem stóð uppúr að mínu mati var þegar við fórum og skoðuðum Zhejiang háskóla en hann er einmitt staddur í borginni. Sá skóli er einn af þeim bestu í Kína og skólasvæðið er alveg svakalega flott. Eins og borgin þá er háskólasvæðið mjög gróið og andrúmsloftið rólegt. Við eyddum nokkrum klukkutímum í að rölta þar um og skoða, sem var virkilega skemmtilegt. Við sáum meðal annars risastóra styttu af Maó formanni sem stendur á einu af aðal torgunum inni á svæðinu, svo litum við inn í nokkrar byggingarnar og fleira. Ég hugsa að þetta sé skóli sem væri virkilega skemmtilegt að vera í og það væri hugsanlega gaman að taka mastersgráðuna þar.

Sólsetrið séð yfir Vesturvatni

Við hjá styttunni af Mao formanni

 

Ég kastaði léttri kveðju á karlinn

Á sunnudeginum fórum við í göngutúr og fundum torg sem var fullt af fólki og þá aðallega gömlum körlum að leika sér með flugdrekana sína.

En að öðru. Núna erum við búin að vera í Kína í dágóðan tíma og erum komin nokkuð vel inn í menninguna og lífið hérna, og búin að upplifa margt skemmtilegt. Ég ætla því að byrja á því að taka fyrir einn hlut í lok hverrar færslu og segja ykkur aðeins frá honum. Í þetta skiptið ætla ég að taka fyrir klósettin.

Sko, klósettin í Kína eru bara einfaldlega eitthvað allt annað. Landið er ekki beint þekkt fyrir hreinlæti og á það mjög oft við um klósettin. Lyktin inni á þeim er í flestum tilvikum það slæm að ég efast um það að hér eftir muni engin lykt nokkurn tíma slá mig út af laginu. Það eina sem er hægt að gera er að anda bara með munninum eða sleppa því yfir höfuð þegar maður skellir sér á klósettið.

Á langflestum stöðum eru líka einungis holuklósett og ég verð að viðurkenna að mér leist ekki vel á þau til að byrja með. Mig langaði helst að sleppa við að nota þau, enda kommon hvernig á maður að fara að því?? Það kom hins vegar annað á daginn, eitt skiptið þegar við vorum stödd í Guilin í október, þegar við vorum að rölta um í borginni og langt heim á hostel. Það kom að því að náttúran kallaði og ekkert klósett í næsta nágrenni. Ég hljóp því um allt að leita að salerni og eftir dágóða leit fann ég eitt. Júú þið giskuðuð rétt, holuklósett. Þarna stóð valið á milli þess að gera í buxurnar í miðri Guilin eða læra á þetta klósett. Ætli málshátturinn “Neyðin kennir naktri konu að spinna” eigi ekki vel við þetta móment. En þetta gekk allt saman og vil ég helst ekki sjá neitt annað en holuklósett eftir þetta, enda allt annað líf. Það þarf ekki að snerta neitt og svo vil ég meina að fólk sem stundar lyftingar eigi ekki að nota neitt annað en holuklósett, enda mjög gott fyrir liðleika í mjöðmum.

Klósettin eru líka oft mjög áhugaverð í hönnun. Kínverjar virðast ekki vera neitt feimnir við að aðrir sjái þá gera þarfir sínar en veggirnir á básunum eru oft ekki nema rétt um einn og hálfur metri ef þeir ná því. Ég meina, hver þarf vegg sem hylur allt þegar maður er hvort sem er að beygja sig svona niður til þess að nota klósettið? Það þyrfti líka að kenna fólki hérna að sturta niður, en það virðist gleymast allt of oft. Ætli það sé ekki ein ástæðan fyrir því hversu illa klósettin lykta? En jæja, þetta er komið nóg af klósett sögum.

Eitt klósettið úr skólanum, eins og sjá má þá er ekki erfitt að sjá á milli klósetta.

Þetta er líklegast frumlegasta klósettið sem við höfum séð hér í Kína, hvorki splæst í hurð né háa veggi. Lyktin var einnig alveg skelfileg.

 

Hreint og fínt holuklósett

Þangað til næst

Jón Gunnar