Námsmannalífið í Ningbo

Regnhlífatímabilið

Komið þið sæl og blessuð. Lífið gengur sinn vanagang hérna í Ningbo, skólinn í fullum gangi og bara fjör. Lítið hefur gengið á hjá okkur síðustu vikur, veðrið verður betra og betra með hverjum deginum og minnir nú svolítið á íslenskt sumar veður, nema hvað það er miklu heitara þegar sólin skín.

Með góða veðrinu kemur einn fylgifiskur. Maður þarf alltaf að hafa regnhlíf meðferðis þegar maður labbar um háskólasvæðið. Hvers vegna ætli það sé, spyrjið þið ykkur kannski. Það er ekki vegna þess hversu mikið rignir eða til að verja sig frá sólinni, eins og kínverskt kvenfólk gerir gjarnan til þess að fá ekki á sig lit þar sem það er talið fallegt í Asíu að vera sem hvítastur. Nei, ástæðan er til þess að verja sig gegn fuglaskít. Það eru nefnilega vissar gönguleiðir þar sem maður fer ekki um nema með regnhlíf á lofti, svonefnd „splash“ svæði. Maður lítur oft út eins og algjör asni í frábæru veðri með regnhlífina uppi við, en ég tek ekki neina sénsa. Ég nenni engan veginn að sitja í tíma allur út í fuglaskít.

Gangstéttin við aðal skítastíginn

Ef vel er að gáð má sjá allt út í skít á gangstéttinni

Ég á leiðinni í skólann í 25 stiga hita með regnhlífina uppi við

Annars er lítið að frétta héðan frá Ningbo, en eins og ég nefndi síðast þá ætla ég að segja ykkur frá skemmtilegum hlutum um Kína. Í þessarri færslu ætla ég að taka fyrir "外国人" (waiguoren) eða „útlendingur“ eins og það þýðist yfir á íslensku.

Hér í Kína þykir ekki mikil ókurteisi að stara og benda á fólk, það er mikið gert við fólk sem er öðruvísi og það erum við svo sannarlega hérna. Eins og ég sagði frá áður í einhverri færslunni þá erum við oft beðin um að vera með fólki á myndum og fólk tekur mikið af myndum af okkur. Þau halda oftast að þau séu svakalega lúmsk, en það eru þau alls ekki. Þetta virðist einungis vera vegna þess að við erum útlendingar og það þykir greinilega spennandi að eiga mynd af sér með útlendingum eða eiga sem flestar myndir af þeim.

Það skrýtnasta hins vegar er að það klikkar ekki þegar litlir krakkar labba framhjá okkur að þau bendi og segja spennt við forlendra sína "你看,外国人" (ni kan, waiguoren) eða „sjáðu, útlendingur!“ Mjög algengt er líka að foreldrar bendi krökkunum á okkur og segja „sjáðu þarna er útlendingur, segðu hæ!“ Krakkarnir segja spennt hæ og veifa manni, sem ég viðurkenni að er alveg krúttlegt og okkur þykir þetta ekkert tiltökumál hérna. En snúum nú dæminu aðeins við og pælum í því hvernig þetta væri ef íslenskur krakki væri að þessu heima á íslandi. Ef einhver krakki myndi benda á útlending og segja „mamma sjáðu þarna er útlendingur“ yrði fljótlega þaggað niður í viðkomandi og honum tjáð að þetta væri hin mesta ókurteisi og að svona geri maður ekki.

Við tökum þetta nú samt ekkert nærri okkur, enda gaman að geta glatt krakkana með því einu að vera öðruvísi. Ég tala nú ekki um það að vera umfjöllunarefni í partýi eða matarboði þar sem fólk ber saman myndirnar sem það á af útlendingunum.

Þessi er hins vegar að verja sig frá sólinni til þess að fá ekki tan

Þessum fannst mjög spennandi að fá mynd með mér

Þessir voru að taka mynd af sér hjá þessarri styttu, sáu mig og vildu endilega að ég væri með þeim á myndinni

Jæja komið nóg í bili!

Þangað til næst,

Jón Gunnar