Viðtal við Einar Rúnar Magnússon

- að byggja upp nýtingu jarðvarma í Kína

Í Shanghai með Pudong í bakgrunni

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Ég var í viðskiptafræðinámi við Háskólann í Reykjavík. Þegar líða tók að útskrift árið 2003 fór ég að velta fyrir mér í hverju ég ætti að sérhæfa mig. Ég var ekki alveg tilbúinn til að gerast sérfræðingur í banka eins og flestir bekkjarfélagar mínir og langaði í eitthvað meira framandi. Ég fékk áhuga á því sem var að gerast á kínverska markaðnum og ákvað að skrá mig í kínverskunám í háskóla þar og sjá til hvert það leiddi mig. Eftir námið varð ég eftir í Kína þar sem ég vann að ýmsum verkefnum.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Í byrjun fór ég til Kína sem námsmaður að læra mandarín-kínversku. Samhliða náminu byrjaði ég að stunda viðskipti við útflutning á kínverskum vörum og hélt því áfram um tíma eftir að námi lauk. Síðar vann ég í fjögur ár fyrir Össur, lengst af sem sölustjóri fyrir Asíu og Eyjaálfu og nú síðast með Orka Energy við að byggja upp nýtingu jarðvarma í samstarfi við kínverska ríkisolíufélagið Sinopec.

Eftir á að hyggja held ég að kínverskunámið hafi verið ómetanlegur grunnur til að undirbúa mig fyrir að stunda viðskipti í Kína. Í Kína eru persónuleg tengsl lykilatriði í viðskiptalífinu og það hefði verið gríðarlega erfitt að brjótast í gegnum formlegheitin og byggja upp vináttusambönd ef ég hefði þurft að tala í gegnum túlk.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég heimsótti marga áhugaverða staði en ferðalag um Yunnan hérað er mjög eftirminnilegt. Þar fórum við í göngu um "Tiger leaping gorge" í stórbrotnu landslagi skammt frá Tíbet, borðuðum á okkur gat af frábærum mat á hverjum degi, hjóluðum um sveitir Xishuangbanna með flösku af baijiu og ræddum við bændur. Fólkið þar var mjög afslappað og tíminn þar virtist standa nokkurn veginn í stað.

Einnig hef ég heimsótt marga áhugaverða staði vegna vinnu sem ég hefði aldrei kynnst sem ferðamaður. Verksmiðjubæi Guangdong héraðs, iðnaðarþorp í Hebei og Shaanxi, vörusýningar o.fl. Það er gaman að sjá þá gríðarlegu framþróun sem hefur átt sér stað á þeim 11 árum sem ég hef verið viðriðinn Kína. Þar má nefna að bæði gæði framleiðslu og aðbúnaður starfsfólks hefur tekið stórt stökk upp á við.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast frábæru fólki meðan ég bjó í Kína. Það var mikill lærdómur að skilja hugsunarháttinn sem oft á tíðum er framandi fyrir Vesturlandabúa. Þú þarft að leggja þig fram við að túlka það sem fólk segir þér því það er ekki nóg að skilja málið. Oft forðast fólk að segja hlutina beint, sérstaklega ef um eitthvað óþægilegt er að ræða, og þá þurfa menn að kunna að lesa á milli línanna og skilja hvað raunverulega er verið að gefa í skyn.

Reynslan af því að vinna með Kínverjum hefur verið ómetanleg. Ekki síst að vinna náið með stóru ríkisfyrirtæki eins og Sinopec og fá innsýn inn í þann heim. Það var líka mjög gaman að sjá jákvæð áhrif jarðhitans, bæir sem áður voru fullir af kolareyk eru nú með hreint loft og bláan himin.

Hraðinn í uppbyggingu er magnaður. Árið fyrir heimssýninguna bjó ég í Sjanghæ en ferðaðist mikið vegna vinnu. Mér er minnistætt að oft fór ég í burtu í fáeina daga og þegar ég keyrði til baka frá flugvellinum voru nokkrar hæðir búnar að bætast við byggingar og aðrar horfnar.

Að kynnast austurlenskum andlegum málefnum var líka mjög áhugavert. Námskeið í búddískri hugleiðslu bar þar hæst. Að eyða 10 dögum í einangrun frá umheiminum, sitja og hugleiða í 10 tíma á dag og mega ekki segja orð allan tímann var ótrúleg lífsreynsla sem þvingar mann til að kynnast sjálfum sér betur.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Yunnan matur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Kínverskur matur með suð-austur asískum keim. Sterkur Sichuan og Hunan matur finnst mér líka mjög góður sem og Xiaolongbao (sjanghæskir "dumplings").

Ég man ekki eftir að hafa borðað neitt sérstaklega vont, en af óvenjulegum mat get ég nefnt snáka, skjaldbökur, sporðdreka með poppkorni, sinar, andafit, lirfur og durian.

Ég hef setið ófá matarboðin en ég held að erfiðasti þátturinn í þeim hafi verið drykkurinn frekar en maturinn. Þegar maður er búinn að taka tugi staupa af 53% Maotai er farið að reyna verulega á lifrina - en auðvitað er ekki hægt að segja nei við einu staupi enn, það væri óvirðing við gestgjafann.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Mér kom á óvart hversu mikið frjálsræði er í raun og veru í Kína, andstætt því sem vestrænir fjölmiðlar gefa oft til kynna. Þó talað sé um kommúnistaríki er Kína líklega kapítalískasta samfélag sem ég hef búið í. Kínverjar eru mjög viðskiptalega þenkjandi og mikið fer fyrir einkaframtakinu. Vissulega er ritskoðun til staðar en hinn almenni Kínverji er meðvitaður um þá staðreynd og tekur fréttaflutningi með gagnrýnum augum og leitar oftar en ekki upplýsinga annars staðar frá.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Hlutir sem eru óvenjulegir eða kómískir fyrir aðkomumenn í Kína eru óteljandi. Smátt og smátt hafa "óvenjulegu" hlutirnir þó orðið hluti af hversdagsleikanum. En ég skal reyna að rifja upp nokkur atriði:

Fólk með hvíta hanska sem vann við að ýta fólki inn í neðanjarðarlestina í Beijing svo dyrnar gætu lokast, en það var töluvert fyrir Ólympíuleikana þegar línurnar voru færri en þær eru í dag.

Að vera ítrekað stoppaður úti á götu og boðin vinna við módelstörf eða leik í auglýsingum - eða bara stoppaður af fólki sem vildi eignast mynd af sér með útlendingi.

Fólk getur sofið alls staðar; á kaffihúsum, undir vörubílnum í hádegishléinu, í rúmunum í IKEA og meira að segja standandi í neðanjarðarlestinni.

Hið endalausa náttfatapartí á götum Sjanghæ

Við þökkum Einari kærlega fyrir spjallið og áhugaverða innsýn í viðskiptaheiminn í Kína.

Ásamt Wang Tianpu forstjóra Sinopec og Hauki Harðarsyni stjórnarformanni Orka Energy eftir undirritun samnings

Skálað í baijiu með Yuan Qing forstjóra Sinopec Star

Með rafsuðuhjálm samansettan úr sólgleraugum og sígarettukartoni

Munkar í Yunnan

Bjórhátíð í Kunshan