Viðtal við Fífu Finnsdóttur

- Úr listnámi yfir í kínversk fræði

1. Hvernig kom það til að þú fórst í kínversk fræði?

Ég hafði - og hef - mikinn áhuga á kínverskum kvikmyndum og menningarminjum, einnig tungumálum. Eftir eitt ár við LHÍ ákvað ég að söðla um, gera eitthvað allt annað og endaði þannig í kínversku við HÍ.

2. Hvenær og hvert fórst þú sem skiptinemi til Kína?

Ég fór árið 2008 sem partur af litlum hópi til International College of Ningbo University.

3. Hvernig líkaði þér borgin og háskólinn sem þú lærðir við?

Mér fannst fyrst og fremst ofboðslega mikið af fólki allsstaðar. Ningbo fannst mér fín borg, fólkið í skólanum var mjög alúðlegt og ofboðslega hjálpsamt, og nemendurnir lögðu sig fram við að kynnast okkur. Borgin minnir að miklu leyti á Shanghai, enda er hún bara 3 klukkutíma í burtu. Ég er ekki mikið fyrir borgir, eiginlega vil ég bara búa einhversstaðar úti í hól. Eftirá að hyggja hefði ég gjarnan viljað stunda nám í S-Kína, t.d. í Chengdu, örlítið nærra nátturunni.

4. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég var svo heppin að geta ferðast meira og minna um allt Kína. Ég flaug til Xi'an og hafði áætlað að fara þaðan norðvestur inn á villtari svæði í Qinghai en var stöðvuð á leiðinni, svo það varð aldrei. Í staðinn tók ég þaðan lest suður í gegnum Sichuan, áfram í gegnum Yunnan og svo austur aftur til Hangzhou. Ég gisti á ólíklegustu stöðum, datt inn á bónda í 5 manna þorpi lengst inn í Zhejiang sem var svo glaður að sjá mig að hann sagði mér sögu hvers einasta steins í þorpinu. Ég gekk á Emei fjall og gisti meðal munka, datt inn á besta kaffihús sem ég hef komið á í 1500 ára gömlum rústum af leikhúsi á silkileiðinni - ég veit ekki hvar ég ætti að byrja.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég held að mér finnist götumaturinn í hverju landi alltaf bestur, og í Kína var úrvalið svo ofboðslega mikið og gott. Það versta sem ég borðaði... ég get ekki sagst hafa borðað mikið af exotískum dýrategundum, maður veit sjaldnast hvaða tegundir það eru og hver staðan er á þeim, svo ég sneiði hjá þeim. Það versta var ein af þessum pylsum í plasti sem seldar eru í supermörkuðum. Þær líta alveg út eins og pylsur, eru kældar og geta staðið á eldhúshillu í fleiri fleiri ár. Það var frekar ógnvekjandi.

6. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Mér fannst áhugavert hversu ofboðslega stórt landið er. Í lestinni milli norðurs og suðurs sofnaði maður út frá eyðimerkurlandslagi og vaknaði svo aftur í iðagrænum skógum. En sama hversu stórt landið er náði maður heldur aldrei að vera einn, það var fólk - og byggð - gjörsamlega allsstaðar. Jafnvel þau svæði - þorp, náttúra og minjar - sem auglýst eru sem upprunaleg eða ósnortin eru það ekki í okkar skilningi, heilu þorpin (eða rústir) eru oftar en ekki rifin og endurbyggð fyrir túrista. Þetta var stundum alveg óþolandi, ég sat einu sinni fleiri klukkutíma í rútu á leiðinni til að sjá 2000 ára gamlan bæ - og komst svo að því þegar ég mætti á staðinn að hann hafði verið rifinn einni viku áður og endurskapaður í steinsteypu.

7. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Ég held að ég hafi ekki alveg vitað við hverju maður átti að búast. Við komum seint um kvöld og tókum leigubíl milli lestarstöðvarinnar og háskólans. Það var dimmt og ég held að ég hafi ekki lokað augunum einu sinni í 40 mínútur - það stóðu karlmenn við vegabrúnirnar með skyrturnar rúllaðar upp yfir magann og grilluðu í olíutunnum, það var heitt og rakt og neonljós á hverju húsi, og svo ofboðslegur hávaði, ég gapti bara af furðu. Ég held ég hafi ekki hætt að stara á fólkið og umhverfið í fleiri mánuði eftir komuna.

Við þökkum Fífu kærlega fyrir lifandi og skemmtilega frásögn af dvöl sinni í Kínaveldi.