Viðtal við Halldór Berg Harðarson

Viðtal Konfúsíusarstofnunarinnar við Halldór Berg Harðarson 29. janúar 2014

- Masterinn í Kína

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Leið mín lá fyrst til Kína þegar ég fór í heilt ár til að læra kínversku í Beijing eftir stúdentspróf. Leið mín lá aftur til Kína rúmlega fimm árum síðar þegar ég hélt til Peking háskóla í tveggja ára mastersnám í Alþjóðasamskiptum hvaðan ég útskrifaðist seinasta sumar.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Þegar ég fór fyrst til Kína var það mest af ævintýraþrá. Ég ferðaðist mikið, fór á marga áhugaverða staði, borðaði mikið af góðum mat og svo framvegis. Seinna skiptið fór ég aðallega til að fara í nám. Eftir nánast þrjú ár í Kína var lífið í Beijing orðið ansi hversdagslegt fyrir mér. Ég fluttist seinna meir úr háskólahverfinu niður í gamla bæinn þar sem maður verður smá saman hluti af hverfislífinu. Ég eignaðist mikið af vinum og kunningjum og eftir því sem maður var lengur var auðveldara að kynnast fólki sem talaði enga ensku og maður fékk enn betri skilning á daglegu lífi þar um slóðir. Ég vann líka meðan ég var þarna úti, ásamt því að taka að mér nokkur verkefni tengd íslenskun á farsímum var ég líka starfsnemi í Sendiráði Íslands og fréttaritari Ríkisútvarpsins á svæðinu.

3. Heimsóttir þú einhverja áhugaverða staði?

Ég hef farið á fleiri staði en ég get munað. Eftirminnilegast er e.t.v. ferðir til Innri Mongólíu, Xi'an, Guilin, Kunming, Nanjing... margir fallegir og skemmtilegir ferðamannastaðir. Ég er líka hrifin af nútímalegum borgum og átti góðar stundir í borgum eins og Shanghai, Qingdao og Xiamen. Ég er mikill aðdáandi lestarferða (endaði m.a. fyrri dvöl mína í Kína með því að taka Síberíulestina aftur til Evrópu) og mæli eindregið með því að fólk kynnist Kína með því móti. Það er hægt að þjóta um sveitir Kína í dag með háhraðlestum og er það hinn fínasti ferðamáti. Fyrir fátæka námsmenn þá getur líka verið freistandi að kaupa ódýra lestarmiða á vit ævintýranna. Slíkar ferðir geta dregist á langinn (sú lengsta sem ég tók innanlands var frá landamærum Víetnam til Beijing, það tók hátt í þrjá sólarhringa) og best að komast hjá því að þurfa að sitja á hörðum bekkjum allan tímann og fá sér svefnpláss. Það er líka fín leið til að kynnast heimamönnum.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Þegar öllu er á botninn hvolft þá lifir lengst í minningunni fólkið sem maður kynntist.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Ég borðaði mikið af góðum mat en minnist þess ekki að hafa oft borðað eitthvað vont fyr utan kannski einhvern hádegisverð í Innri Mongólíu einu sinni þar sem borið var á borð eitthvað súrmeti sem var kalt í ofan á lag og ég var ekki hrifinn af. Miklu oftar er maturinn góður. Í Beijing fór ég oft á dumplingstaði, eða baozi hús, Yunnan veitingarstaðir og Xinjiang veitingastaðir voru í uppáhaldi, líka hotpot og Malaxiangguo, svona þurr hotpot. Svona dagsdaglega getur verið gott að þekkja matseðilinn á svona venjulegu götuveitingahúsi. Slík veitingarhús má finna í hverri götu í hverri borg út um allt landið og þótt þau bjóði mörg upp á sína sérrétti má alltaf finna svona 20 standard rétti á flestum þeirra. Það var fínt að geta gengið að því og fengið sér ofan á hrísgrjón. Jafnframt var ofboðslega fínt að geta gripið grilluð kjötspjót á gangstéttum ef maður var svangur síðdegis eða Jianbing eggjapönnuköku í morgunmat.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Það er orðið langt síðan en í minningunni var fyrsti dagurinn í Kína alveg ömurlegur. Það tekur alltaf á að fara á bólakaf í framandi menningu og ótrúlegustu hlutir koma manni á óvart. Ég man hvað mengunarskýið var sláandi, fólksmergðin yfirþyrmandi og lyktin megn. Þetta eru samt allt hlutir sem maður getur vel vanist og á endanum jafnvel kunnað að meta. Ég kann vel við mannfjöldann í dag og sumt af því sem manni fannst lykta illa fyrst finnst manni bara lykta vel í dag (fýlutófú!).

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Það óvenjulegasta að mínu mati er það hversu hratt allt breytist í borgunum. Það er ekki lífsreynsla sem maður fær annarstaðar. Á milli þess sem ég bjó í fyrsta og annað skiptið í Beijing hættu borgarbúar nánast að hjóla. Neðanjarðarlestarkerfið hafði stækkað úr þremur línum í meira en 10. Nútímaleg háhýsi rísa á alla kanta. Það er ekki á hverjum degi sem maður upplifir svona hraða uppbyggingu.


Við þökkum Halldóri fyrir skemmtilegt og áhugavert viðtal.