Viðtal við Gústav Arnar Magnússon

- Þrettán ára frá New York til Peking

1. Hvernig lá leið þín til Kína?

Árið var 2003 og ég var nýorðinn 13 og flutti frá New York til Peking með fjölskyldunni þar sem pabbi var að hefja störf hjá íslenska sendiráðinu í Peking.

2. Hvað brallaðir þú þar?

Ég fór í International School of Beijing þar sem ég kynntist fólki úr öllum hornum heimsins og er ennþá í dag í reglulegum samskiptum við það. Mér hefur alltaf fundist það mjög táknrænt að ég var að þroskast sem manneskja í borg sem var líka að fara í gegnum hálfgjört breytingaskeið.

Þetta var ótrúlega áhugaverður tími sem ég gæti skrifað bók um; þegar ríkir unglingar eru í borg þar sem þeir mega gera allt og hafa allt þá auðvitað gerist fullt af hlutum, góðir og slæmir. Við löbbuðum um eins og við ættum borgina og vorum mjög snögg að fatta að það var enginn Kínverji sem þorði að fara upp á móti okkur vitandi að við værum mögulega sonur/dóttir sendiherra Bandiríkjanna eða eitthvað þáleiðis. Sumir gengu lengra en aðrir auðvitað. En það eru ekki margir unglingskrakkar sem geta látið bílsjtórana sína bíða fyrir utan næturklúbb til 4 um morgun (ekki að ég gerði þetta en dæmi sem því miður tiðkaðist oft).

Fyrir utan að búa í þessum klikkaða ISB heimi þá breytti þessi dvöl algjörlega lífinu mínu. Ég væri ekki sú manneskja sem ég er í dag hefði ég ekki flutt til Kína 13 ára gamall. Ég þroskaðist um nokkra áratugi með því að kynnast þessari menningu og tungumáli sem ég er ennþá í dag að stúdera á hverjum degi, því meira sem ég læri um þetta land því meira fatta ég hversu lítið ég veit um það.

Ég fékk líka tækifæri til að sjá hversu fáranlega ofdekraður ég er. Á hverjum degi keyrði bilstjórinn minn út frá húsinu mínu sem var verndað af risastóru hliði og öryggisvörðum í skóla með stærri hlið og fleiri öryggisverði, en rétt fyrir utan þessa kúlu sem ég bjó í voru aðrir 13 ára kínverskir krakkar sem hefðu aldrei fengið tækifæri til þess að fara í skóla og þurftu að safna saman kolum á daginn til þess að hita húsin sín. Þetta étur í mig á hverjum degi og ég skil að það er ekkert nema tilviljun sem ræður hvar þú fæðist. Það er ekkert nema tilviljun að ég var ríki diplomatasonurinn í bílnum en ekki úti í eina vetrajakkanum sem ég á að draga nokkur tonn af koli aftur til mömmu. Ég gæti haldið áfram en ég skal geyma restina fyrir bókina.

3. Heimsóttirðu einhverja áhugaverða staði?

Ég fór til Yunnan fyrir nokkrum árum síðan sem var ótrúlega eftirminnilegt. Þetta er alveg við landamærin á Tíbet og það er oft talið vera betra að fara á einhverja staði í Yunnan til þess að upplifa tíbetska menningu þar sem það er orðið svo flókið að ferðast til Tibet þessa dagana. Tiger Leaping Gorge stendur uppúr, 2ja daga ganga í 2000 metra hæð í fjöllum sem minna mig á Himalaya fjöllin, geðveikt.

4. Hvað er eftirminnilegast við dvölina?

Ég hef eiginlega aldrei farið frá Kína, ég er alltaf að koma og fara. Get ekki gert upp eitt en skal lista nokkra hluti:

- Party á Kínamúrnum.

- Kynnast betlurum i Peking, það er einn betlari sem ég hef þekkt síðan ég var 13-14 ára og hitti hann alltaf þegar ég fer til Peking.

- Að sjá líkið hans Mao eftir langt kvöld í Sanlitun.

- Bara að setjast niður a einhverjum local núðlustað og spjalla við einhvern er það skemmtilegasta sem ég get ímyndað mér.

5. Hvað er það besta eða versta sem þú borðaðir í Kína?

Besta.. Beijing Jianbing, sem er svona eggjapönnukaka sem er seld á götunum í Peking. Það er aldrei slæm hugmynd að fá sér Jianbing, kostar 3 kuai sem er 50 kall.

Versta. Stinky tofu. Ég hef smakkað hund en hann var bara ágætur, ég pantaði einu sinni stinky tofu en hélt að það væri bara venjulegt tofu. Fór illa í mig.

6. Kom þér eitthvað á óvart við Kína þegar þú fórst í fyrsta sinn?

Mengunin, eina leiðin til þess að skilja hversu slæm mengun er í Kina er að fara til Kína sjálfur. Það voru margir dagar sem við máttum ekki fara út í frímínútur útaf mengun. (Skólinn byggði þá risastórt "dome" svo krakkar gætu spilað fótbolta í eðlilegu lofti, vantar ekki $$$ í ISB). En í alvörunni þetta er of stórt vandamál fyrir Kína til að leysa einir, við verðum að gera þetta að okkar vandamáli líka, sem þetta er.

7. Hvað er það óvenjulegasta sem þú manst eftir úti?

Þegar ég kenndi ensku til þess að halda mér a floti á meðan ég var í Beijing language and culture University. Ég þurfti að þykjast vera 28 ára Ameríkani sem hét Michael, var með B.S. gráðu í ensku frá NYU og master frá Columbia. Kínverskir foreldrar vilja bara það besta fyrir börninn sín þar sem þau eiga bara eitt stykki.


Við þökkum Gústavi fyrir skemmtileg og opinská svör og bíðum spennt eftir að hann gefi út bók með lífsreynslusögum sínum frá Kína.