Header Paragraph

Fyrirlestur Paul D´ambrosio um Konfúsíanisma

Image

Konfúsíusarstofnun í samstarfi við Heimspekistofnun standa fyrir fyrirlestri um kínverska heimspeki sem ber heitið: Konfúsíanismi um tilfallandi aðstæður: Sjálf sjálfræði og siðferði. Fyrirlesari er Paul J. D´ambrosio sem starfar við East China Normal University í Shanghai. 

Staður og stund: Veröld hús-Vigdísar stofa 107, þriðjudaginn 13. febrúar, kl. 16:30-18:00.

Nánar um fyrirlesturinn og fyrirlesarann má sjá hér fyrir neðan.

Ritin Speki Konfúsíusar og Mensíus eru meðal áhrifamestu texta konfúsíanisma frá upphafi. Bæði rit leggja áherslu á mikilvægi siðferðislegrar sjálfsræktar. Gert er ráð fyrir að einstaklingurinn greini hvað er gott og velji það frjálst óháð innri tilhneigingu eða ytri aðstæðum. Það vekur athygli að í heimspekilegri umfjöllun sinni gera þeir ekki ráð fyrir neinu utan hins tilfallandi. Með öðrum orðum, enga hugmynd er að finna um „gott“ eða „sjálfræði“ sem er sjálfstætt og stendur utan við tilfallandi aðstæður. Finna má þrenns konar nálganir til að takast á við þetta mál í konfúsíanisma: 1) Textarnir benda á, en nefna ekki, altækar (nauðsynlegar, ótilfallandi) meginreglur. 2) Textarnir gera ráð fyrir, en nefna ekki, fyrirfram gefna (nauðsynlega, ótilfallandi) getu til sjálfræðrar ákvarðanatöku. 3) Textarnir grundvallast á ótilfallandi aðstæðum en samt eru siðferði og sjálfræð ákvarðanataka einhvern veginn möguleg. Í þessu erindi færi ég rök fyrir þriðju nálguninni með því að gera grein fyrir því hvernig siðferði og sjálfræði geta verið möguleg í kerfi þar sem aðstæður eru fullkomlega tilfallandi. Í stað þess að setja fram fyrirfram gefna meginreglu, sjálf, vilja, eða jafnvel getu til sjálfræðis, held ég því fram að konfúsíanískir textar geri ráð fyrir að siðferði og sjálfræði birtist í ófyrirséðum tilfallandi aðstæðum. Sem slík eru siðferði og sjálfræði skarplega aðgreind frá hinu tilfallandi og geta þar með tekið það til rækilegrar skoðunar án þess þó að eiga sér uppruna í nauðsynlegum öflum utan þess.

Paul J. D’Ambrosio er félagi í Institute of Modern Chinese Thought and Culture, prófessor í kínverskri heimspeki og forstöðumaður Center for Intercultural Research, allt við East China Normal University í Shanghai, Kína. Hann er einnig rannsakandi við Ma Yifu Academy við Zhejiang háskólann. Að auki er hann stofnandi fyrirlestraraðarinnar四海为学 „Collaborative Learning“. Hann er með doktorsgráðu í heimspeki frá National University of Ireland og sérhæfir sig í kínverskri heimspeki og samskiptum manna og tækni, þar á meðal við gervigreind og samfélagsmiðla. Meðal ritverka eftir D'Ambrosio eru 真假之间 (Á milli sannleika og fals) (Kong Xuetang Press, 2020), You and Your Profile (Columbia University Press, 2021) og Genuine Pretending (Columbia University Press, 2017), báðar ritaðar í samstarfi við Hans-Georg Moeller, og Encountering China (Harvard University Press, 2018) með Michael Sandel. Greinasafnið Beyond Comparisons í ritstjórn hans (ásamt öðrum) er áætlað að komi út árið 2024 frá SUNY útgáfunni. Að auki hefur hann skrifað yfir 100 greinar, kafla og ritdóma og hefur þýtt á annan tug bóka um kínverska heimspeki.