Myndir frá velheppnaðri testund og hugleiðslu
Sunnudaginn 7. maí héldu KÍM og Konfúsíusarstofnun í samvinnu við Heilsudrekann heilsudag með kínverskri teathöfn og qigong við Skátaskálann á Lækjarbotnum. Skammt frá skálanum er bergvatnslind þar sem streymir fram hreint og tært drykkjarvatn, tilvalið til notkunar í tedrykkju. Þannig mætast hreint íslenskt vatn og hágæða kínversk telauf og úr verður hinn fullkomni tebolli.
Fyrst var gestum boðið að gera nokkrar laufléttar qigong og taichi-æfinga á túninu við skálann. Svo gekk hópurinn saman að læknum til að sækja vatn úr uppsprettunni. Þar var gestum boðið að setjast til stuttrar hugleiðslu og hlusta á lækjarniðinn. Eftir hugleiðsluna náðum við okkur í vatnið dýrmæta og héldum aftur að skálanum þar sem það var soðið. Gestum var svo boðið upp á þrjár tegundir telaufa; dökkt pu’er te, hvítt longzhu te og oolong te. Einnig var boðið upp á ferskt grænmeti frá Samtökum íslenskra grænmetisbænda sem féll í góðan jarðveg á meðal gesta.
Létt úðarigning var í lofti en hlýtt og gestir nutu dagsins og spjölluðu saman í fallegu umhverfi með kínverska tebolla í hönd. Við þökkum öllum sem tóku þátt í deginum og vonum að þetta geti orðið að árlegri hefð á vorin.